Afmælisbörn 10. desember 2020

Steingrímur Johnsen

Nokkur afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Einar Hólm Ólafsson söngvari og trymbill er sjötíu og fimm ára gamall á þessum degi. Einar söng inn á eina litla plötu 1973 en var trommuleikari í mörgum hljómsveitum hér áður s.s. Pónik, Stuðlatríóinu, Næturgölum og Hljómsveit Ólafs Gauks svo einhverjar sé nefndar. Einar er faðir Ólafs Hólm trommara Nýdanskrar og margir trommuleikarar eru í ætt hans.

Einnig hefði Steingrímur Johnsen söngvari og söngkennari (1846-1901) átt afmæli þennan dag en hann var einna fyrstur til að kenna söng hérlendis. Steingrímur var ennfremur stofnandi og stjórnandi fjölmargra kóra á árum áður.

Óskar Ingólfsson klarinettuleikari (1954-2009) átti einnig þennan afmælisdag. Óskar lék á klarinettu með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk þess að starfa í stóru leikhúsunum, við óperuna og víðar. Hann starfaði um tíma sem deildarstjóri tónlistarsviðs Ríkisútvarpsins,  sinnti ennfremur ýmsum félagsstörfum fyrir tónlistarhreyfinguna o.m.fl.

Að síðustu er hér nefndur Theódór Árnason fiðluleikari (1889-1952) sem fæddist þennan dag. Hann hafði að mestu verið sjálfmenntaður í list sinni hér heima en flutti síðan til Kanada þar sem hann lærði frekar á hljóðfærið og kenndi sjálfur á það. Theódór kom síðar heim til Íslands þar sem hann stjórnaði kórum, kenndi á hljóðfæri og ritaði bækur m.a. um tónlist.

Vissir þú að plötunni „Með suð í eyrum við spilum endalaust“ með Sigur Rós, var dreift með límmiðum yfir rasskinnum fólksins á framhliðinni, sums staðar í Bandaríkjunum?