
Valdimar Auðunsson
Í dag eru tvö afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:
Annars vegar er það Guðlaugur Kristinn Óttarsson tónlistarmaður en hann er sextíu og sex ára gamall. Hann hefur leikið sem gítarleikari í fjölmörgum en misþekktum hljómsveitum eins og Steinblómi, Lótusi, INRI, Kukli, Elgar sisters, Sextett, Current 93, Galdrakörlum og Þey en síðast talda sveitin er kannski sú þekktasta. Guðlaugur hefur einnig gefið út sólóefni og hefur stundum kallað sig GVDL.
Hins vegar er það harmonikkuleikarinn og lagahöfundurinn Valdimar J. Auðunsson frá Dalseli í Landeyjum (1914-90) sem lék á fjölda dansleikja á Suðurlandi á sínum yngri árum. Hann var einnig lagahöfundur og vann oft til verðlauna í sönglagakeppnum SKT, mörg laga hans hafa verið gefin út á plötum en þeirra þekktast er líklega Ástartöfrar sem Björk Guðmundsdóttir og Tríó Guðmundar Ingólfssonar gerðu skil á frægri plötu. Fjölskylda Valdimars gaf út tíu laga plötu með lögum hans, einnig undir titlinum Ástartöfrar, að honum látnum.
Vissir þú að Jóhannes úr Kötlum ber ábyrgð á því að jólasveinarnir eru þrettán talsins en hann orti Jólasveinakvæðið sem hefst svo “Segja vil ég sögu af sveinunum þeim…”?