Jóhannes úr Kötlum (1899-1972)

Jóhannes úr Kötlum

Jóhannes úr Kötlum

Jóhannes úr Kötlum er án efa eitt af fremstu skáldum Íslandssögunnar og margir hafa samið, flutt og gefið út lög við ljóð hans.

Jóhannes Bjarni Jónasson var fæddur (1899) og uppalinn í Laxársveit í Dalasýslu. Hann starfaði framan af sem kennari í heimabyggð en 1932 flutti hann til Reykjavíkur og bjó á höfuðborgarsvæðinu síðan, fyrir utan nokkur ár í Hveragerði.

Þegar fyrsta ljóðabók Jóhannesar kom út (Bí bí og blaka, 1926) tók hann sér skáldanafnið Jóhannes úr Kötlum en ljóðabækur hans áttu eftir að skipta tugum, hann fékkst þó einnig við annars konar skáldskap – ritaði skáldsögur og fékkst við þýðingar. Hann var margverðlaunaður fyrir verk sín.

Segja má að Jóhannes úr Kötlum hafi farið í gegnum ýmis þróunarskeið í ljóðaskáldskap sínum, upphaflega var hann einn þeirra sem fékkst við nýrómantísku stefnuna en þegar „roðinn úr austri“ kviknaði gerðist hann sósíalískur í hugsun og skáldskap. Síðar tók módernisminn við með viðeigandi formfrelsi þannig að hann fylgdi þeirri þróun sem átti sér stað í bókmenntunum og um leið umbrotatímum hér á landi sem annars staðar.

Ljóðskáld var Jóhannes úr Kötlum fyrst og fremst og hafa ljóð hans í gegnum tíðina orðið mörgum tónlistarmönnum hvatning til lagasmíða og verða þau lög seint talin öll upp hér, enda skipta þau sjálfsagt hundruðum sem gefin hafa verið út, hvað þá önnur. Þar hefur verið fremstur í flokki Stuðmaðurinn fyrrverandi Valgeir Guðjónsson en hann hefur gefið út þrjár plötur sem hafa að geyma eigin lög við ljóð Jóhannesar, Fugl dagsins (1985 / 2002), Fuglar tímans: Diddú syngur lög eftir Valgeir Guðjónsson við ljóð Jóhannesar úr Kötlum (2003) og Fuglakantata: Lög Valgeirs Guðjónssonar við ljóð Jóhannesar úr Kötlum, flutt af Valgeiri og Vigdísi Völu Valgeirsdóttur (2014) sem gefin var út í samvinnu við Hjallastefnuna.

Einnig má nefna Halldór Kristinsson (Tempó, Þrjú á palli o.fl.) sem gaf 1973 út fimm laga barnaplötuna Halldór Kristinsson syngur eigin lög við ljóð Jóhannesar úr Kötlum, margir muna eftir laginu Lamb í grænu túni af þeirri plötu. Sama ár gaf Kór Barnaskóla Akureyrar út plötuna Árstíðirnar & Siggi og Logi en Árstíðirnar var söngleikur eftir Jóhannes við tónlist eftir Birgi Helgason.

Þá var Sóleyjarkvæði Jóhannesar tvívegis gefið út á plötum við tónlist Péturs Pálssonar, annars vegar árið 1967 (endurútgefin 1973 og 2001) af Æskulýðsfylkingu ungra sósíalista í flutningi ýmissa listamanna en hins vegar gefið út í flutningi Háskólakórsins 1985 af Mál og menningu. Sóleyjarkvæði samdi Jóhannes þegar bandaríski herinn setti upp herstöð á Miðnesheiði, og var það fyrst flutt 1965 á samkomu herstöðvaandstæðinga.

Jóhannes hafði á sínum tíma samið ljóð um jólasveinana og hyski þeim skylt og átti e.t.v. einn mesta þátt í því að móta og fastsetja ímynd þeirra bræðra ásamt Ómari Ragnarssyni. Guðni Franzson og Pétur Eggerz sömdu tónlistartengda leikþætti sem út komu 1999 undir heitinu Jólasveinar ganga um gátt og 2006 kom út tónlistin úr barnasýningunni Leitin að jólunum eftir Þorvald Þorsteinsson, sem sýnd var í mörg ár í Þjóðleikhúsinu, tónlistin var eftir Árna Egilson við ljóð Jóhannesar.

Miklu fleira tónlistarfólk hefur fært ljóð Jóhannesar úr Kötlum í lagaform og gefið út á plötum en hér má að auki nefna Guðmund Rúnar Lúðvíksson og söngtríóið Þrjá háa tóna.

Þá er óupptalinn þáttur Jóhannesar sjálfs á plötum en 1964 kom út plata sem bar titilinn Lýðveldishátíðin 1944, Alþingishátíðin 1930, á þeirri plötu var m.a. að finna upplestur Jóhannear á kafla úr verðlaunakvæði sínu, Íslendingaljóðum. Ennfremur kom út 1979 platan Stjörnufákur: Jóhannes úr Kötlum les eigin ljóð en á þeirri plötu mátti heyra upptökur úr fórum Ríkisútvarpsins frá árunum 1959-70, svo óhætt er að segja að skáldið komi víða við á útgefnum plötum beint og óbeint. Athyglisvert er að allar plötuútgáfur eru að skáldinu látnu.

Jóhannes úr Kötlum lést 1972.

Efni á plötum