Jóhanna Jóhannsdóttir (1908-96)

Jóhanna Jóhannsdóttir Johnsen

Jóhanna Jóhannsdóttir

Jóhanna Jóhannsdóttir (síðar Johnsen) var með efnilegustu söngkonum landsins þegar hún hvarf af sjónarsviðinu til að gerast læknisfrú úti á landi.

Jóhanna sem var sópransöngkona, fæddist í Þingeyjasveit 1908 en fluttist ung inn til Eyjafjarðar. Hún þótti snemma hafa fallega rödd og eftir að hafa lært söng hér heima í um tvö ár fór hún átján ára gömul til Kaupmannahafnar til söngnáms. Þar var hún í um fjögur ár m.a. í námi hjá Dóru Sigurðsson og 1931 kom hún aftur heim en þá hafði hún jafnframt numið píanóleik ytra ásamt einhverju öðru.

Fyrsta árið eftir heimkomuna bjó Jóhanna á Akureyri, hélt þar tónleika við góðan orðstír en fékkst einnig við píanó- og söngkennslu þar nyrðra. Haustið 1932 flutti hún hins vegar til höfuðborgarsvæðisins þar sem möguleikar hennar voru mun meiri á tónlistarsviðinu, þar söng hún töluvert opinberlega, bæði á einsöngstónleikum en einnig í uppfærslum á söngleikjum og óperettum eins og Meyjaskemmunni, hún starfaði aukinheldur við píanó- og söngkennslu.

Jóhanna varð nokkuð áberandi í tónlistarlífinu í bænum á þeim tíma, hlaut t.a.m. listamannastyrk frá hinu opinbera sem ekki þótti sjálfsagt fyrir konu á þessum árum en svo eins og hendi væri veifað hvarf hún af sjónarsviðinu og sást varla meir. Ástæðan var sú að hún giftist 1936 Baldri Garðari Johnsen nýútskrifuðum lækni sem gegndi síðar stöðu héraðslæknis víðs vegar um landið á næstu áratugum, fyrst í Ögri við Ísafjarðardjúp og síðar á Ísafirði þar sem Jóhanna fékkst m.a. við raddþjálfun Sunnukórsins og söngkennslu ýmis konar auk annarra verkefna á tónlistarsviðinu.

Þau hjónin komu á ný til Reykjavíkur og bjuggu þar í skamman tíma áður en þau fluttu búferlum til Vestmannaeyja. Fáar upplýsingar er að finna um að Jóhanna hafi sungið opinberlega eða að öðru leyti fengist við tónlist hin síðari ár, hún söng þó einsöng með Vestmannakórnum á tónleikum 1957 og mun eitthvað hafa kennt söng áfram þótt upplýsingar um það liggi ekki fyrir. Eftir að þau hjónin fluttu aftur á höfuðborgarsvæðið er lítið að finna um tónlistarferil Jóhönnu.

Jóhanna lést haustið 1996.