Jóhann R. Kristjánsson (1961-)

Jóhann R. Kristjánsson

Jóhann R. Kristjánsson

Jóhanns R. Kristjánssonar verður einna helst minnst í íslenskri tónlistarsögu fyrir plötu sem hann sendi frá sér 1982.

Jóhann (Ragnar) Kristjánsson (f. 1961) var að austan og bjó á Egilsstöðum þegar hann sendi frá sér fjögurra laga plötu vorið 1982, þá var hann rétt liðlega tvítugur að aldri og hafði nýverið lokið stúdentsprófi.

Á henni hafði hann sér til fulltingis nokkra óþekkta tónlistarmenn eins og Árna Jóhann Óðinsson (Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar, Egla), Guðlaug Sæbjörnsson (Hitaveitan), Ludvig Eckardt og Þórð Heiðar Jónsson (Óðs manns æði, Bárujárn) en sjálfur sá Jóhann um allan söng.

Platan sem bar titilinn Er eitthvað að?, vakti töluverða athygli en líklega á allt annan hátt en Jóhann reiknaði með. Þrír poppskríbenta blaðanna sem rituðu gagnrýni um plötuna, Morgunblaðsins, Tímans og Helgarpóstsins, voru allir sammála um að verri plata hefði vart heyrst á Íslandi. Einn þeirra ritaði óvenju stuttan dóm sem hófst á orðinu „Já“ undir fyrirsögninni – Er eitthvað að? Sú saga hefir orðið lífseig að dómurinn hafi ekki verið lengri en það er ekki rétt. Ekki var þó langt mál milli upphafsorðanna og lokaorðanna sem voru eftirfarandi: „bestu lög: Ertu að grínast?“

Söngur Jóhanns fékk sérstaklega á baukinn sem og saxófónsóló sem ku hafa verið með afbrigðum slæmt, og heilt yfir hafa gagnrýnendur blaða hérlendis líklega sjaldan verið jafn sammála um að taka tónlistarmann af lífi og í þessu tilfelli. Því verður þó ekki neitað að platan er í seinni tíð sjaldgæf og eftirsóknarverður gripur í hvert plötusafn.

Svo virðist sem dómar blaðanna hafi orðið til þess að Jóhann lét ekki fremur til sín taka á tónlistarsviðinu þvílíkt sem andstreymið var frá fyrsta degi, hann lærði prentiðn, bjó um tíma í Vestmannaeyjum en býr á höfuðborgarsvæðinu í dag.

Eitt laganna fjögurra kom út á safnplötunni Í laufskjóli greina (1997) en hún hafði að geyma tónlist frá ýmsum tímum af Héraði.

Efni á plötum