
Valdimar Auðunsson
Valdimar Auðunsson var kunnur harmonikkuleikari og lagahöfundur hér á árum áður, og reyndar hefur eitt laga hans orðið sígilt í meðförum Bjarkar Guðmundsdóttur og fleiri.
Valdimar Jónsson Auðunsson (f. 1914) var frá Dalseli í Vestur-Eyjafjallahreppi og var einn fjölmargra systkina sem flest voru músíkölsk. Hann komst fyrst í kynni við harmonikku á æskuheimili sínu í Dalseli aðeins sex ára gamall en harmonikkur ungmennafélagsins Drífanda í hreppnum voru geymdar þar, einnig mun hann hafa komist í nikku eldri bróður síns. Valdimar var farinn að leika á dansleikjum í heimabyggð sinni aðeins fjórtán ára gamall og varð fljótlega kunnur og vinsæll fyrir leikni sína, sagan segir að hann hafi eitt skipti leikið á hljóðfærið í þrettán tíma samfleytt á dansleik.
Valdimar varð einnig kunnur sem einn Dalselsbræðra en þeir Leifur bróðir hans komu fram á dansleikjum undir því nafni, fleiri systkina hans komu reyndar við sögu þar einnig eitthvað. Hann kom einnig eitthvað við sögu hljómsveitarinnar Blástakka sem starfaði þarna í Rangárvallasýslu.
Valdimar naut aldrei formlegrar tónlistarkennslu en náði undraverðri leikni í að leika eftir eyranu á harmonikkuna og hlustaði oft á erlendar útvarpsstöðvar (BBC o.fl.) til að læra nýjustu danslögin, fyrir vikið var hann oft kominn með nýjustu erlendu lögin á takteina á undan öðrum tónlistarmönnum.
Valdimar fluttist til Reykjavíkur um tvítugt og starfaði þar lengst af sem leigubílstjóri en hann var einn af stofnendum Borgarbílastöðvarinnar, samhliða þeim verkum lék hann á dansleikjum með hinum og þessum en það voru mestmegnis gömlu dansarnir, reyndar lék hann á dansleikjum allt fram á efri ár.
Á Reykjavíkur-árunum kom í ljós að Valdimar átti auðvelt með að semja lög og vann hann til fjölmargra verðlauna og viðurkenninga fyrir þau, einkum í dægur- og danslagakeppnum SKT (Skemmtiklúbbs templara). Það var árið 1950 sem hann vann fyrst til verðlauna í slíkri keppni en tveir félagar hans höfðu þá skráð tvö lög eftir Valdimar í slíka keppni án hans vitundar og vissi hann fyrst af því þegar hann hafði sigrað en lögin Ástartöfrar og Stjarna lífs míns unnu þar til verðlauna. Fleiri laga hans unnu til verðlauna síðar, t.a.m. lagið Vegna minninganna. Löngu síðar eða um miðjan níunda áratuginn endurvakti Hótel Borg þetta keppnisform og þar vann hann einnig til verðlauna, hreppti þriðja sætið í keppninni 1986 með lagið Töfrandi tónar, og ári síðar einokaði hann tvö efstu sætin með lögin Kveðjustund og Nótt á fjöllum. Í tveimur síðast nefndu lögunum gerði Kristjana Unnur dóttir hans textana.

Valdimar (í miðið) veitir verðlaunum í danslagakeppni SKT viðtöku.
Valdimar keypti árið 1964 jörð á heimaslóðum í Rangárvallasýslu og 1973 fluttist hann með fjölskyldu sína austur en þau hjónin voru þá foreldrar átta barna. Síðan þá var hann kenndur við Grenstanga en þar bjó hann eftirleiðis. Hann var þá síður en svo hættur afskiptum af tónlist, hann var orðinn sjötugur er hann hafði frumkvæði að stofnun Harmonikufélags Rangæinga og gegndi þar formennsku fyrstu árin. Hann samdi þá lagið Trimmað á góunni sem hann tileinkaði félaginu en hann var síðar gerður þar að heiðursfélaga.
Valdimar lést í byrjun árs 1990 á sjötugasta og sjötta aldursári. Fáeinum árum eftir andlát hans gaf fjölskylda hans út plötuna Ástartöfrar: lög Valdimars J. Auðunssonar harmónikuleikara í flutningi ýmissa listamanna, í minningu Valdimars. Á plötunni er að finna tíu lög hans og koma nokkrir þekktir tónlistarmenn við sögu þeirra, t.d. syngur dóttir hans, Bryndís Sunna Valdimarsdóttir titillagið en hún hefur komið við sögu dægurlagakeppna eins og faðir hennar. Fleiri afkomendur Valdimars eru tónlistarfólk.
Lagið Ástartöfrar var fyrst laga Valdimars gefið út á 78 snúninga plötu og sungið af Sigrúnu Jónsdóttur. Lagið hefur margoft verið gefið út síðan með ýmsum flytjendum s.s. Reyni Jónassyni (á plötunni Leikið tveim skjöldum), KK & Magnúsi Eiríkssyni (Fleiri ferðalög), Rögnvaldi S. Valbergssyni (Hammond ásamt öðru) og Tryggva, Jóni og Sverri (á plötunni Fram í heiðanna ró) en lagið hefur jafnframt komið út á fjölda safnplatna í meðförum Sigrúnar Jónsdóttur. Flutningur Bjarkar Guðmundsdóttur og Tríós Guðmundar Ingólfssonar á laginu á plötunni Gling gló hefur þó átt stærstan þátt í því hversu vel lagið hefur lifað. Þá útgáfu einnig er að finna á fjölmörgum ólöglegum plötum sem gefnar hafa verið út með Björk í Austur-Evrópu og víðar.
Fleiri lög Valdimars hafa komið út á plötum, Jón Kr. Ólafsson söng t.a.m. lagið Töfrandi tónar á plötu með lögum úr Danslagakeppni Hótel Borg (1986) og hefur það lag einnig komið út á sólóplötu Jóns Kr. Trimmað á góunni kom út á plötu Harmonikufélags Rangæinga (1999), Stjarna lífs mín hefur komið út á plötum með Karlakór Rangæinga (2000 og 2001) og þannig mætti áfram telja.