Óskar Ingólfsson (1954-2009)

Óskar Ingólfsson

Óskar Ingólfsson var kunnur klarinettuleikari og tónlistarkennari en kom einnig að ýmsum öðrum verkefnum og trúnaðarstörfum innan tónlistarhreyfingarinnar.

Óskar fæddist í Reykjavík 1954, lærði á klarinettu hér heima, fyrst hjá Vilhjálmi Guðjónssyni og síðan Gunnari Egilson en hélt síðar til framhaldsnáms í Royal college of music í London, hann lauk þar prófi 1978. Þegar hann kom heim til Íslands eftir nám hóf hann að kenna við tónlistarskóla en starfaði einnig með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku óperunni, Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Hann lék aukinheldur með Kammersveit Reykjavíkur, Chalumeaux tríóinu og Kammerhópnum Polaris, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Hann gegndi ennfremur ýmsum öðrum tónlistartengdum störfum, hann starfaði t.a.m. hjá Ríkisútvarpinu við dagskrárgerð og deildarstjórnun tónlistarsviðs, hann var um tíma í stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna, framkvæmdastjóri Norrænna músíkdaga, í stjórn Listarhátíðar í Reykjavík og formaður í verkefnavalsnefnd Sinfóníuhljómsveitar Íslands, svo dæmi séu nefnd. Hann var ennfremur aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík.

Óskar var virtur klarinettuleikari og frumflutti fjölda íslenskra tónverka, m.a. í félagi við Snorra Sigfús Birgisson tónskáld og píanóleikara en þeir ásamt eiginkonu Óskars, Noru Kornblueh sellóleikara (1951-2008), gáfu út plötuna Íslensk kammer og einleiksverk: Chamber and solo music from Iceland, árið 1987 með verkum eftir Snorra og Hjálmar H. Ragnarsson. Leik Óskars má ennfremur finna á fjölda platna s.s. með Kammersveit Reykjavíkur, Kjartani Ólafssyni, Háskólakórnum o.fl.

Óskar lést árið 2009 aðeins fimmtíu og fimm ára gamall.

Efni á plötum