Afmælisbörn 8. nóvember 2021

Vilhjálmur Guðjónsson

Fjögur afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Torfi Ólafsson tónlistarmaður er sextíu og sex ára gamall í dag en fáir hafa líklega leikið á bassa og gítar með jafnmörgum pöbbasveitum og hann, þeirra á meðal má nefna sveitir eins Droplaugu, Rósina, Glæsi, Marz, Systur Söru, Venus, Borgarsveitina, Dansbandið, ET-bandið og Melódíku. Torfi er einnig afkastamikill lagahöfundur og hefur gefið út nokkrar plötur með tónlist sinni.

Bjössi Basti eða Björn Helgi Baldvinsson söngvari Bleiku bastanna sem vöktu töluverða athygli undir lok níunda áratugar síðustu aldar, er fimmtíu og sex ára gamall á þessum degi. Björn hefur einnig starfað með sveitum eins og Rut+ og Sex púkum en hefur lítið verið viðloðandi tónlist síðustu árin og býr nú erlendis.

Hannes Heimir Friðbjarnarson trommuleikari úr Kópavogi er fjörutíu og sex ára gamall í dag. Hannes byrjaði ungur að spila í hljómsveitum, var m.a. í Bar 8 sem síðar varð að Dead sea apple en sú sveit varð nokkuð þekkt og sendi frá sér plötur. Hann er þó trúlega þekktastur sem einn meðlima Buffs sem einnig hefur gefið út nokkrar plötur.

Vilhjálmur Guðjónsson klarinettu- og saxófónleikari átti einnig þennan afmælisdag en hann lést árið 1977. Vilhjálmur, sem var fæddur 1917 var í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá stofnun og lék með henni lengi, sinnti tónlistarkennslu og störfum innan FÍH, en lék jafnframt með fjölda hljómsveita á sínum tíma s.s. Hljómsveit Poul Bernburg, Hljómsveit Aage Lorange, Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Hljómsveit Jack Quinet, KK sextett og fjölda annarra sveita, auk þess að leika inn á fjölmargar plötur á sínum tíma.

Vissir þú að Helena Eyjólfsdóttir söng inn á sína fyrstu plötu ellefu ára gömul?