Sigursveinn D. Kristinsson (1911-90)

Sigursveinn D. Kristinsson

Allir þekkja nafn Sigursveins D. Kristinssonar enda er Tónskóli Sigursveins beintengdur honum, nafn Sigursveins er þó einnig tengd baráttusögu fatlaðra og Sjálfsbjörgu en hann glímdi við lömun megnið af ævi sinni og þurfti að nota hjólastól frá unglingsaldri. Það kom þó ekki í veg fyrir þrekvirki sem hann vann á ævi sinni á hinum ýmsu sviðum.

Sigursveinn Davíð Kristinsson var fæddur 1911 í Fljótum en fluttist með foreldrum sínum til Ólafsfjarðar þegar hann var um fimm ára aldur. Tónlistariðkun hans hófst með því að hann lærði að lesa nótur hjá föður sínum og byrjaði svo að læra á orgel um tólf ára aldur. Sigursveinn var svo þrettán ára gamall þegar hann veiktist af lömunarveiki (mænusótt) og lamaðist í kjölfarið að mestu leyti fyrir utan höfuð og hægri handlegg, hann lá rúmfastur í nokkur ár, fékk máttinn aftur að einhverju leyti en var bundinn við hjólastól síðan. Endurhæfing hans lá m.a. í því að hann var í sveit í Fljótum nokkur sumur síðar (1928-31) þar sem hann endurheimti að einhverju leyti líkamlega en þó mest andlega heilsu og hjálpaði það honum til að öðlast þá seiglu og þrautseigju sem einkenndi síðan persónuleika hans og hjálpaði honum án nokkurs vafa við þau verkefni sem biðu hans síðar á lífsleiðinni í tónlistinni, verkalýðs- og öryrkjabaráttunni. Sem dæmi um þrautseigju hans má nefna að hann kleif Ólafsfjarðarmúlann með handaflinu einu, klæddur galla sem verndaði hann fyrir grjótinu en gallann hannaði Sigursveinn sjálfur.

Á unglingsárum sínum meðan Sigursveinn lá að mestu rúmfastur gat hann lítið stundað orgelleik en áskotnaðist þess í stað fiðla sem hann æfði sig á, á þeim tíma var þó lítið sem benti til að hann myndi fást við tónlist sem sitt aðal starf. Þegar Theódór Árnason fiðluleikari kom til Ólafsfjarðar og hóf að kenna á fiðlu naut Sigursveinn leiðsagnar hans og söng svo með Kátum piltum (síðar Karlakór Ólafsfjarðar) sem Þórhallur stjórnaði, þegar Þórhallur fór frá Ólafsfirði tók Sigursveinn við stjórn kórsins án þess þó að hafa til þess nokkra menntun eða reynslu en hann stjórnaði kórnum sitjandi í hjólastól eins og hann átti eftir að gera með fleiri kóra og hljómsveitir. Í kringum lýðveldishátíðina 1944 tók hann jafnframt við að stjórna blönduðum kór sem kom fram í kringum hátíðarhöldin. Og hann kom svo að stjórnun Samkórs verkalýðsfélaganna í Ólafsfirði en Sigursveinn var harður sósíalisti og tók virkan þátt í réttinda- og baráttumálum þeirra, hann var jafnframt um það leyti í bæjarpólitíkinni í Ólafsfirði og barðist m.a. fyrir því að bærinn hlyti kaupstaðarréttindi 1945.

Sigursveinn í kennslustofunni

Sigursveinn hóf að kenna söng við barnaskólann í Ólafsfirði en hann hafði þá eitthvað kennt á fiðlu um skamma hríð á Akureyri áður, þannig fléttaðist tónlistin smám saman inn í líf hans og e.t.v. var það ágætlega við hæfi því fötlun hans leyfði ekki mikla líkamlega vinnu. Það varð því úr að Sigursveinn fór suður til tónlistarnáms haustið 1946 og lærði þar á fiðlu hjá Birni Ólafssyni, einnig á píanó sem hentaði honum þó illa þar sem hann gat ekki notað pedalana, en svo nam hann eínnig tónsmíðar hjá Victor Urbancic og lauk tónlistarnámi sínu með aðal áherslu á þær, þannig komu tónsmíðar fyrst við sögu Sigursveins en hann átti einnig eftir að verða nokkuð þekkt tónskáld síðar.

Fyrir sunnan notaði hann tækifærið og gaf út sönglaga- og nótnheftið Íslandsljóð ásamt Hallgrími Jakobssyni, en sú bók innihélt 142 verkalýðstengd lög og var gefin út af Alþýðusambandi Íslands, einnig sendu þeir félagar frá sér nótnahefti með 24 jólalögum. Og Sigursveinn kom að fleiri verkalýðstengdum verkefnum í Reykjavík því hann tók að sér stjórnun Söngfélags verkalýðsfélaganna sem stofnað var í upphafi árs 1950, og hlaut síðar nafnið Alþýðukórinn. Þeim kór átti hann eftir að stjórna meðan hann bjó sunnan heiða. Hann var síðan einnig meðal stofnenda Lúðrasveitar verkalýðsins og stjórnaði henni um tíma, hann var síðar gerður að fyrsta heiðursfélaga sveitarinnar.

Sigursveinn tók nú að sér tónlistarkennslu, kenndi á fiðlu og píanó heima hjá sér og einnig hljómfræði en fór einnig til Danmerkur þar sem hann dvaldist um nokkurra vikna skeið við tónlistarnám – það er ekki erfitt að gera sér í hugarlund hversu mikið afrek það var fyrir fatlaðan mann í hjólastól að fara á eigin vegum til útlanda á þessum árum, 1956 og 57 dvaldi hann svo einnig við nám í Austur-Þýskalandi þar sem hann nam m.a. kórstjórn.

Sigursveinn D. Kristinsson

Eftir að Sigursveinn kom heim frá Þýskalandi 1957 tók hann að sér verkefni á Siglufirði um haustið sem snerist um að æfa þar lúðrasveitina á staðnum, hann fór norður ásamt eiginkonu sinni sem hann hafði gifst nokkrum árum fyrr, með nokkrar blokkflautur í farteskinu og hóf að kenna börnum einnig og stofnaði þá blokkflautusveit sem hélt síðan tónleika undir hans stjórn ásamt lúðrasveitinni og blönduðum kór sem hann stjórnaði einnig. Þetta varð til þess að Sigursveinn staldraði mun lengur í bænum en upphaflega var ætlað, og í kjölfarið stofnaði hann með hjálp verkalýðsfélaganna á staðnum tónlistarskóla sem hlaut nafnið Tónskóli Siglufjarðar. Hann gerðist þar skólastjóri og bjó þar í bænum næstu árin þar sem hann reif upp tónlistarlífið en strax innrituðust á annað hundrað manns í skólann, hann kenndi jafnframt söng við barnaskólann á Siglufirði. Blandaði kórinn sem Sigursveinn hafði stjórnað á tónleikunum um haustið var síðan formlega stofnaður undir nafninu Söngfélag Siglufjarðar og honum stjórnaði Sigursveinn í framhaldinu sem og auðvitað Lúðrasveit Siglufjarðar, um tíma stjórnaði hann svo einnig Karlakórnum Vísi á Siglufirði.

En afrek Sigursveins á Siglufirði snerust ekki einvörðungu um tónlist því hann stofnaði þar sumarið 1958 félag lamaðra og fatlaðra sem hann kallaði Sjálfsbjörgu sem varð síðar fyrirmyndin að samnefndu félagi í Reykjavík, og landsamtökum sem hann átti síðar einnig þátt í stofnun.

Sigursveinn vann að eigin tónsmíðum samhliða kennslu, kóra- og hljómsveitastjórnun, og árið 1962 flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands svítu eftir hann á tónleikum, það var líkast til í fyrsta skipti sem tónverk eftir hann var flutt á svo stórum tónleikum.

Sigursveinn flutti til Reykjavíkur árið 1963 og haustið 1964 stofnaði hann styrktarfélag utan um nýjan tónlistarskóla sem hann setti á stofn svipaðan þeim er hann starfrækti á Siglufirði en lög höfðu þá gengið í gildi varðandi opinberan stuðning við tónlistarskóla. Skólinn hlaut nafnið Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar og var sjálfseignarstofnun með aðkomu verkalýðsfélaganna, eins konar alþýðutónlistarskóli sem allir gætu stundað nám við án inntökuprófa en Sigursveinn varð sjálfur skólastjóri hans.

Sigursveinn á eldri árum

Tónskóli Sigursveins gekk strax framar vonum líkt og forveri hans á Siglufirði og fljótlega höfðu um 160 nemendur innritast í skólann. Fyrstu árin var hann á hrakhólum með húsnæði en kennsla fór þá mestmegnis fram í heimahúsum, á heimilum kennaranna. Árið 1970 fékk skólinn í fyrsta sinn eigið húsnæði til afnota í Hellusundi 7 en þá voru yfir 200 nemendur í honum og sjö árum síðar voru þeir orðnir um 500 talsins, húsnæðisvandamál skólans minnkuðu enn frekar þegar húsnæði að Hraunbergi í Breiðholti (1985) var tekið í notkun og ennfremur þegar húsnæði við Engjateig (1997) bættist við. Ýmsar nýjungar í tónlistarskólastarfi litu dagsins ljós fyrir tilstuðlan Sigursveins, þar má nefna forskólanám auk þess sem kennt var á ýmis hljóðfæri í skólanum sem ekki höfðu verið í boði fram að því á Íslandi s.s. mandólín, harmonikku og munnhörpu. Sigursveinn kenndi yfirleitt sjálfur einnig við skólann á blokkflautu og fiðlu og sinnti t.a.m. fornáminu allt þar til hann lét af störfum 1985 sem skólastjóri en hann var þá að verða 75 ára gamall. Hann var þó alls ekki hættur afskiptum af tónlistinni þótt starfsævinni væri lokið því hann sneri sér þá að útgáfu nótna og gaf út bókina Leikið með tónum (1987).

Samhliða starfi sínu við tónskólann stjórnaði Sigursveinn Lúðrasveit verkalýðsins um tíma, kenndi söng við sumardvalarheimilið í Reykjadal auk margs annarra tilfallandi verkefna en sinnti jafnframt tónsköpun sinni, samdi fjölmörg kór- og hljómsveitaverk, sönglög o.fl. Hér má t.d. nefna tónverkin Greniskóginn sem Söngsveitin Fílharmónía flutti ásamt hljómsveit á tónleikum, Dufþekju – verk fyrir blandaðan kór, einsöngvara og blásarasextett og Svítu í g-moll fyrir hljómsveit.

Sigursveinn var áfram framarlega í réttinda- og baráttumálum lamaðra og fatlaðra, hann var sem fyrr segir stofnandi Sjálfsbjargar á Siglufirði og í Reykjavík varð hann aðal hvatamaður fyrir stofnun Reykjavíkur-deildar Sjálfsbjargar og landssamtaka félagsins einnig. Hann sat jafnframt um tíma í stjórn Öryrkjabandalagsins.

Sigursveinn lést árið 1990 en nafni hans hefur hæst verið haldið á lofti með Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og því gleymist stundum vægi hans í réttindabaráttu fatlaðra. Árið 2011 var hluti dagskrár tónlistarhátíðarinnar Berjadaga á Ólafsfirði tileinkaður Sigursveini en þá var þess minnst að hundrað ár voru liðin frá fæðingu hans, um svipað leyti kom út á vegum Smekkleysu tvöfalda platan Sigursveinn D. Kristinsson: Lög fyrir söngrödd og píanó / Complete songs, sem var eins og nafnið gefur til kynna heildarsafn sönglaga hans. Söngvarar á þeirri plötu voru Sigrún Valgerður Gestsdóttir, Áslaug Ólafsdóttir, Guðfinna Dóra Ólafsdóttir, Hildigunnur Halldórsdóttir og Þórdís Þórhallsdóttir en um hljóðfæraleik sáu Kristinn Örn Kristinsson og Júlíana Rún Indriðadóttir píanóleikarar og Einar Jóhannesson klarinettuleikari. Platan hlaut mjög góða dóma í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Árið 2014 kom svo út á vegum Forlagsins bókin Sigursveinn – Baráttuglaður brautryðjandi, ævisagan hans skráð af Árna Björnssyni.

Efni á plötum