Silfurkórinn (1977-80)

Silfurkórinn við upptökur á fyrstu plötu sinni

Silfurkórinn var ekki kór í þeirri merkingu sem algengast er, heldur var hann settur sérstaklega saman fyrir plötuupptöku og eftir því sem best verður komist söng hann ekki nema einu sinni eða tvisvar opinberlega. Samt sem áður komu út fjórar plötur með kórnum á þremur árum.

Svavar Gests hjá SG-hljómplötum auglýsti haustið 1977 eftir ungum söngvurum af báðum kynjum sem vanir væru kórsöng, í því skyni gefa út jólaplötu með syrpum laga líkt og Fjórtán fóstbræður höfðu gert nokkrum árum áður undir stjórn Svavars reyndar.

Fjölmargir svöruðu kallinu og valdir voru tólf söngvarar af hvoru kyni til að syngja inn á plötuupptökurnar sem voru undir stjórn Magnúsar Ingimarssonar en Sigurður Árnason var upptökumaður í Tóntækni þar sem upptökurnar fóru fram, Magnús æfði reyndar kórinn einnig, stjórnaði honum á upptökunum, útsetti syrpurnar og stjórnaði aukinheldur hljómsveitinni sem lék undir söng kórsins. Reyndar var það svo að í upptökunum voru kven- og karlraddirnar teknar upp í sitt hvoru lagi þannig að kórinn kom ekki saman í fyrsta sinn fyrr en til að hlusta á afraksturinn.

Platan kom tímanlega út fyrir jólin 1977 og bar heitið Hvít jól, á plötunni voru átta syrpur með alls fjörutíu lögum en nýir textar voru við sum laganna. Hvít jól hlaut fremur misjafna dóma, Dagblaðið var fremur neikvætt í garð plötunnar, Þjóðviljinn þokkalega jákvæður en gagnrýnandi Tímans gaf henni bestu dómana. Þjóðin hreifst hins vegar samstundis af tónlistinni og platan varð feikivinsæl og mun hafa selst fljótlega upp svo nýtt upplagt var pressað. Reyndar er umslag plötunnar til í nokkrum mismunandi útgáfum.

Svavar sá auðvitað fyrir sér að hamra járnið meðan það væri heitt og strax sumarið eftir kom út önnur plata með Silfurkórnum, hún var unnin eftir sömu uppskrift og jólaplatan og hét 40 vinsælustu lög síðari ára. Hann hafði greinilega hitt á gullnámu því platan seldist strax mjög vel einnig og var þarna í harðri samkeppni við Halla og Ladda annars vegar og Brimkló hins vegar sem á þeim tíma voru að herja á sumarballmarkaðinn. Platan seldist í um 8000 eintökum sem þótti afar gott af sumarútgáfu að vera og varð reyndar í öðru sæti yfir söluhæstu plötur ársins, hún var enn að seljast vel um haustið og þegar jólaplötusalan tók aftur við sér voru báðar plöturnar Silfurkórsins við topp tíu sölulistans, Hvít jól er reyndar fyrir löngu síðan orðin sígild jólaplata.

Silfurkórinn á miðopnu Vikunnar

Svavar lét ekki við svo búið og næsta plata kom út sumarið 1979 og var þá þriðja plata Silfurkórsins á aðeins tveimur árum. Nýja platan hét Rokk rokk rokk og hafði að geyma syrpur sem innihéltu lög frá gullaldartíma gamla rokksins 1955-65. Eins og vænta mátti seldist platan vel og plöturnar þrjár seldust í um 22.500 eintökum samtals, hún fékk auk þess þokkalega dóma í Dagblaðinu. Kórinn hafði tekið nokkrum breytingum, kvenraddirnar voru allar hinar sömu og höfðu skipað kórinn í upphafi en karlaraddirnar höfðu endurnýjast að miklu leyti af einhverjum ástæðum. Um þetta leyti hafði kórinn aðeins einu sinni komið fram allur saman og sungið saman, það var í sjónvarpsþætti sem sýndur var í ágúst 1979.

Ævintýrinu var enn ekki lokið því Svavar gaf út fjórðu plötuna ári síðar eða haustið 1980 en núna höfðu þær breytingar orðið að Ólafur Gaukur Þórhallsson hafði tekið við hljómsveitarstjórn og útsetningum en Magnús Ingimarsson hafði haldið utan um verkefnið í hin þrjú skiptin. Ólafur Gaukur hafði sér til fulltingis félaga úr Þursaflokknum sem þá naut mikilla vinsælda auk nokkurra aukamanna, örlítið hafði þarna fækkað í kórnum en Gaukurinn tók upp á þeirri nýbreytni að fá forsöngvara í hópinn, Pálma Gunnarsson sem þá hafði farið fremur lítið fyrir um nokkurt skeið en var um þetta leyti að stofna hljómsveitina Friðryk. Platan fékk titilinn Á harða harða spretti og lögin voru blandaðri en áður og í eldri kantinum. Hvort sem það var ástæðan eða að markaðurinn þurfti hvíld frá Silfurkórnum – það má heldur ekki gleyma því að þarna var pönk- og Bubbabylgjan skollin á og plötusalan hefur vafalaust verið meiri í þá áttina, að þá gekk þessi plata ekki eins vel og fyrri plöturnar og seldist fremur dræmt, hún hlaut þó ágæta dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í Dagblaðinu. Hugsanlega kom Silfurkórinn eða að minnsta kosti hluti hans einu sinni fram til að kynna útgáfu plötunnar um haustið en það hefur þá verið í eina skipti sem kórinn söng opinberlega fyrir áhorfendur.

Plötuævintýri Silfurkórsins var þar með lokið en þess má að lokum geta að hluti hópsins söng ári síðar á plötu sem gefin var út af SG-hljómplötum undir nafni Varðeldakórsins, og söng þar skátalög.

Sumar syrpur Silfurkórsins komu út á safnplötum um þetta leyti og á næstu árum s.s. Hvít jól: 40 jólalög í flutningi kunnustu söngvara og kóra þjóðarinnar (1985), Manstu gamla daga: jólalögin (2009), SG hljómplötur: 75 bráðskemmtileg dægurlög frá 1964 – 1982 (2014), Jólaljós (1982), Jólasnjór (1979) og Jólasnær (1991).

Efni á plötum