Svavar Gests (1926-96)

Svavar Gests

Líklega hafa fáir ef nokkur komið að íslenskri tónlist með jafn fjölbreytilegum hætti og Svavar Gests en segja má að framlag hans í því samhengi sé ómetanlegt. Hér má nefna hljómplötuútgáfu og dreifingu á þeim, skrif um tónlist, miðlun tónlistar, kynningu og fræðslu í útvarpi, hljómsveitarstjórn og hljóðfæraleik, útsetningar, tónlistarkennslu, umboðsmennsku og sjálfsagt ennþá fleira mætti telja upp eða hartnær hvaðeina tónlistartengt, nema e.t.v. að semja tónlist. Og hér var heldur ekki um neitt hálfkák að ræða því Svavar var um árabil langstærstur plötuútgefenda hérlendis og sinnti því að mörgu leyti af hugsjón því margt af því sem kom út á hans vegum var vitað að myndi aldrei seljast í bílförmum, hann rak einnig um tíma eina vinsælustu hljómsveit landsins og stjórnaði bæði skemmti- og tónlistarþáttum í útvarpi sem nutu mikilla vinsælda. Svavar var kunnur húmoristi og grínisti sem vegnaði vel en átti erfiða æsku sem að einhverju leyti fylgdi honum gegnum lífsleiðina.

Svavar (fæddur Svavar Lárus Gestsson) fæddist í Reykjavík 17. júní 1926 en sá dagur varð síðar eins og kunnugt er þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga, hann var yngstur sex systkina en fljótlega eftir fæðingu hans veiktist móðir hans og faðir hans sem hann kynntist aldrei yfirgaf fjölskylduna þannig að Svavari var komið í fóstur. Fyrstu árin hjá fósturforeldrum bjó hann við slæma meðferð en var tekinn frá þeim og komið til annarra fósturforeldra fyrir tilstuðlan eldri systur sinnar þar sem hann var síðan við besta atlæti – hefði ekki komið til þess hefði Svavari varla vegnað jafn vel síðar á ævinni. Faðir Svavars vildi aldrei af honum vita og svo fór að Svavar tók upp föðurnafnið Gests í stað Gestsson á unglingsaldri og hafði aldrei samband við föður sinn.

Það var fátt á æskuárunum sem benti til að Svavar myndi starfa við tónlist en hann hóf þó snemma að hlusta á djasstónlist, og á unglingsárunum eignaðist hann grammófón sem hann keypti sér eftir að hafa selt mandólín sem hann hafði áður eignast, og í kjölfarið hóf hann að safna djassplötum. Hann var hins vegar íþróttamaður og keppti í frjálsum íþróttum (einkum hlaupum) en þær viku smám saman fyrir tónlistinni.

Eftir nám við héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði og síðan gagnfræðapróf í Reykjavík vann hann hefðbundin verkamannastörf en haustið 1944 kynntist hann Kristjáni Kristjánssyni og byrjaði að spila á trommur í lítilli hljómsveit með honum og fleirum, í kjölfarið lærði hann eitthvað á trommur hjá Poul Bernburg og Jóhannesi Eggertssyni en notaði þá ennþá trommusett sem Kristján lánaði honum. Svavar lék svo næstu tvo veturna í sveitum ásamt Kristjáni í Mjólkurstöðinni og Breiðfirðingabúð áður en þeir félagar ákváðu að fara í tónlistarnám í Juilliard í New York í Bandaríkjunum en þangað héldu þeir í júní 1946 og dvöldu þar í um fjórtán mánuði þar sem Svavar nam á trommur, xýlófón, víbrafón og pákur. Og tímann í New York nýttu þeir félagar vel til að setja sig inn í djasslífið, stunduðu klúbbana, drukku í sig alþjóðlega tónlistarstrauma og sáu marga af þekktustu djasstónlistarmönnum heims fremja tónlistargjörninga.

Elly og Svavar við plötuupptökur

Vera þeirra Svavars og Kristjáns í Juillaird átti eftir að valda straumhvörfum í íslensku tónlistarlífi sem fram að því var heldur dauflegt þótt vissulega hefðu ýmsir straumar og stefnur borist til landsins á stríðsárunum, en þegar heim var komið síðsumars 1947 tók sú vinna við með ferskum straumum í djass- og dægurtónlist og ekki síður í hugsunarhætti og metnaði sem breiddist út og smitaði frá sér, varð öðrum hvati til frekari verka – það má heldur ekki gleyma því að þeir félagar voru þá einungis tuttugu og eins og tveggja ára gamlir. Þeir höfðu bundist fastmælum um að stofna hljómsveit þegar heim yrði komið og hún hafði fyrirfram hlotið nafnið KK-sextett enda var Kristjáni sem var fyrst og fremst saxófónleikari fremur ætlað að standa í framlínu hennar en Svavar sem yrði á bak við trommusettið. Og þessi hljómsveit átti eftir að verða framvarðarsveit í íslenskri tónlist næsta áratuginn og gott betur þótt Svavar yrði reyndar ekki meðlimur hennar nema til vorsins 1948 eftir smá ágreining þeirra félaga, þá tók við hjá Svavari spilamennska með hljómsveit I.O.G.T. (hljómsveit Jóhanns Gunnars Halldórssonar) og síðan hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar, fyrst sem víbrafónleikari en síðan trommuleikari. Svavar lék á þessum árum einnig með Lúðrasveit Reykjavíkur um tíma sem og með Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur sem var einn undanfara Sinfóníuhljómsveitar Íslands en hún var stofnuð formlega 1950.

Samhliða spilamennsku fékkst Svavar við tónlistarkennslu og var þarna einnig farinn að skrifa greinar um tónlist, áður hafði hann skrifað fyrir tímaritið Jazz sem Tage Ammendrup gaf út á meðan hann dvaldist í New York en Svavar í samstarfi við Hall Símonarson hóf svo árið 1948 að gefa út Jazzblaðið sem kom út til ársins 1953. Og djassáhuginn risti enn dýpra því hann var einn af þeim sem stofnuðu Jazzklúbb Íslands árið 1949 en þar var hann í stjórn og hélt jafnvel fræðsluerindi um djass á vegum klúbbsins, kver sem hann ritaði og bar nafnið Þróun jazzins og nútímajazz kom einnig út og um það leyti stofnaði hann nótnaútgáfufélagið Tempó ásamt Braga Hlíðberg, sem hafði að markmiði að gefa út lög á nótum.

Hljómsveit Svavars Gests

Ekki leið heldur langur tími uns Svavar var farinn að starfa í útvarpi en hann átti gott safn djassplatna en slíkt safn var ekki til staðar hjá Ríkisútvarpinu, haustið 1950 hóf hann því að vera með djassþætti í útvarpinu en það var aðeins forsmekkurinn að ferli hans sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi því síðar hélt hann utan um ýmsa skemmtiþætti í anda amerískrar útvarpsþáttagerðar en henni hafði Svavar kynnst lítillega þegar hann dvaldi í New York og heillast af samspili fagmennsku, gríns, spurningaleikja og tónlistar.

Svavar gerðist því áberandi í íslensku tónlistarlífi og ekki leið á löngu þar til hann lét að sér kveða í félags- og réttindamálum tónlistarmanna, hann varð árið 1949 formaður Félags íslenskra hljóðfæraleikara (FÍH – sem síðar varð Félag íslenskra hljómlistarmanna) og stóð þannig í kjarabaráttu fyrir hönd tónlistarmanna, hann varð aftur formaður FÍH síðar (á sjöunda áratugnum) og sinnti því samtals í ellefu ár auk þess að starfa í stjórn félagsins sem ritari og gegndi ýmsum nefndarstörfum innan þess einnig. Hann var jafnframt um tíma í stjórn Lúðrasveitar Reykjavíkur og síðar Samtaka listflytjenda og hljómplötuframleiðenda á áttunda áratugnum.

Haustið 1949 byrjaði Svavar með eigin hljómsveit sem lék í Þórscafe, fremur lítið fór fyrir þessari sveit til að byrja með og t.a.m. var hún ekki með í för þegar Svavar fór sem kynnir í skemmtidagskrá Stjörnukabarettsins um landið sumarið 1950 en hann var um það leyti að verða vinsæll kynnir á slíkum skemmtunum og þótti lengi vel ómissandi sem slíkur, sveitin tók þó til starfa aftur um haustið og varð smám saman þekkt stærð í tónlistinni á höfuðborgarsvæðinu en aldrei þó svo að Svavar gæti haft starfa eingöngu af því og því sinnti hann öðrum margvíslegum verkefnum og störfum sem fyrr er getið. Hann starfrækti Jazzblaðið eitthvað áfram og skrifaði í það enda vel ritfær, og einnig hóf hann að rita gamansama pistla í Vísi undir dulnefninu Spói – þeir pistlar voru löngu síðar gefnir út undir nafninu Sá ég spóa (1958). Þá ritaði hann einnig smásögur og safn slíkra sagna kom út eftir hann árið 1956. Árið 1952 hafði Svavar stofnað ráðningaskrifstofu skemmtikrafta og stundaði þannig umboðsmennsku fyrir skemmtikrafta en auk þess flutti hann einnig á næstu árum inn fjölda erlendra tónlistarmanna og fleiri sem hingað komu til að skemmta, hér má nefna saxófónleikarann Ronnie Scott, Toralf Tollefsen harmonikkuleikara, hljómsveit Stan Kenton o.fl. sem segir nokkuð um umsvif hans í íslensku tónlistar- og skemmtanalífi. Hann stofnaði jafnframt skemmtihópinn Næturgala við þriðja mann en hópurinn hélt utan um revíusýningar sem nutu vinsælda um miðjan sjötta áratuginn. Um og eftir miðjan sjötta áratuginn kom rokkið til sögunnar, um það leyti var hugtakið dægurlagasöngvari einnig að festa sig í sessi og um það leyti hafði Svavar undir merkjum ráðningarstofu skemmtikrafta haldið úti tónleikum og miðnæturskemmtunum m.a. í Austurbæjarbíói þar sem ungum söngvurum gafst kostur á að spreyta sig á sviði, skemmtanir þær nutu mikilla vinsælda.

Svavar Gests

Svavar kynntist hljómplötuútgáfu árið 1953 þegar hann stofnaði í félagi við Kristján Kristjánsson (KK) hljóðfæraverslunina Músíkbúðina og samhliða því útgáfufyrirtækið Tóniku sem á næstu tveimur árum gaf út á þriðja tug 78 snúninga hljómplatna með kunnu tónlistarfólki eins og Ragnari Bjarnasyni, Ingibjörgu Þorbergs, Leikbræðrum, Birni R. Einarssyni o.fl., Fálkinn keypti síðan plötulagerinn og útgáfuréttinn þegar þeir lögðu fyrirtækið niður en Svavar átti síðar eftir að koma aftur að útgáfumálum.

Hljómsveit Svavars var sem fyrr segir starfandi og lék mikið á dansleikjum allan sjötta áratuginn og varð smám saman ein allra vinsælda hljómsveit landsins. Um 1960 var svo komið að því að sveitin léki loks inn á plötur og á næstu fimm árum komu út fjöldinn allur af 45 snúninga plötum (sem þá höfðu tekið við af 78 snúninga plötunum) á vegum útgáfufyrirtækisins Íslenzkra tóna þar sem sveitin lék undir söng ýmissa söngvara, þar var fyrirferðamestur sjálfur Ragnar Bjarnason en hann var lengst af söngvari sveitarinnar en einnig komu við sögu Sigurdór Sigurdórsson, Berti Möller, Anna Vilhjálms og Helena Eyjólfsdóttir sem öll sungu með sveitinni á einhverjum tímapunkti og mörg laganna nutu vinsælda. Svavar hafði þarna um nokkurra ára skeið verið með vinsæla skemmtiþætti í útvarpinu, svo vinsæla að götur tæmdust og íþróttakappleikir voru fásóttir meðan á þeim stóð – og hljómsveit hans tók virkan þátt í þeirri þáttagerð þannig að hann hafði nú loks fullan starfa við tónlist þarna um 1960 og næstu árin.

Svo kom að því að ákveðin þáttaskil urðu á ferli Svavars sem urðu til þess að hann lagði hljómsveitina niður og um leið trommusettið á hilluna. Í útvarpsþætti hans, Sunnudagskvöld með Svavari Gests hafði sumarið 1963 orðið til hópur sem kallaðist Fjórtán Fóstbræður en þar voru á ferð jú fjórtán meðlimir úr karlakórnum Fóstbræðrum – Svavar hafði búið til lagasyrpur sem kórinn söng (í anda kórs Mitch Miller sem var í uppáhaldi hjá honum) undir stjórn Magnúsar Ingimarssonar við undirleik sveitar Svavars, og þótti tiltækið heppnast það vel að Svavar vildi endilega gefa syrpurnar út á hljómplötum og fór þess á leit við Tage Ammendrup hjá Íslenzkum tónum. Tage var hins vegar þá að hætta með útgáfufyrirtæki sitt og stakk upp á því að Svavar gæfi sjálfur út efnið, og lét hann hafa allar upplýsingar um tengiliði s.s. hljómplötupressun o.þ.h. Svavar sló til og til varð útgáfufyrirtækið SG-hljómplötur.

Platan með Fjórtán Fóstbræðrum kom út haustið 1964 og seldist vel og varð Svavari hvatning til frekari dáða í hljómplötuútgáfu enda hafði myndast gap í þeim málum þegar Tage hætti með Íslenzka tóna. Í kjölfarið gaf hann út nokkrar plötur, m.a. þar sem hljómsveit hans lék undir söng Ellyjar Vilhjálms og Ragnars Bjarnasonar, Ómars Ragnarssonar o.fl. en sá fljótlega að hann gæti ekki rekið hljómsveitina samhliða útgáfufyrirtækinu og störfum hjá Ríkisútvarpinu þannig að hann lagði niður sveitina og um leið hætti hann sjálfur að spila en sveitin hafði þá líklega leikið inn á um tuttugu plötur. Mörgum þótti synd að sveitin væri lögð niður en hún var þá á hápunkti sínum gæða- og vinsældalega séð – eftir á mætti e.t.v. segja að hún hafi hætt á hárréttum tímapunkti því að ný kynslóð tónlistarfólks var að koma fram á sjónarsviðið og kenndi sig við gítarrokk og svo tóku við bítla- og blómasveitir svo að hljómsveitir á borð við þá sem Svavar og fleiri starfræktu urðu síður móðins.

Svavar í útvarpi

Það er varla hægt að segja að Svavar hafi orðið verkefnalítill þó að hann hefði lagt niður sveitina, hljómplötuútgáfan varð fullt starf og samhliða því starfaði hann áfram í útvarpi, aukinheldur var hann eftirsóttur kynnir og skemmtikraftur, stjórnaði bingóum og var þá einnig að skrifa um tónlist í Tímanum, Morgunblaðinu og Vikunni sitt á hvað. Hann var m.a. að gagnrýna útgefna tónlist og var sjálfur töluvert gagnrýndur fyrir að skrifa um plötur sem hann kom sjálfur að en því er ekki að neita að hlutur hans í íslenskri plötuútgáfu var orðinn það stór að það hefði verið skrítið ef ekki væri skrifað um þær plötur. Reyndar var Svavar sjálfur ekki heldur sáttur við aðra plötugagnrýnendur og svo fór í kringum 1970 að hann fór á þess leit við dagblöðin að þau birtu ekki plötugagnrýni um plötur fyrirtækisins. Svavar fékkst einnig við þýðingar á þessum tíma, þýddi m.a. ásamt Ómari Ragnarssyni sögur eftir danska rithöfundinn Willy Breinholst.

Einkamál Svavars voru nokkuð á tímamótum þarna í kringum miðjan sjöunda áratuginn þótt það yrði í raun ekki almennilega opinbert fyrr en löngu síðar, hann hafði verið giftur frá árinu 1947 og átt með þeirri konu fjögur börn en dag einn yfirgaf hann eiginkonu sína (með ekki ósvipuðum hætti og faðir hans hafði áður gert) og tók saman við söngkonuna Elly Vilhjálms og giftist henni árið 1966, þau eignuðust tvo syni.

Hljómplötuútgáfan SG-hljómplötur gekk prýðilega vel og var aðal starf Svavars næstu tvo áratugina. Hann varð strax stærstur plötuútgefenda hér á landi og hélt því lengi vel eða þar til Steinar urðu umfangsmeiri um og upp úr 1980. Í útgáfutíð Svavars gaf hann eðlilega út alla vinsælustu söngvarana og hljómsveitirnar og var fjölbreytileikinn í útgáfunni mikill, þannig gaf hann bæði út einsöngvara og kóra, lúðrasveitir, þjóðlagasveitir, popp, rokk, rímur, skemmtiefni, barna- og jólatónlist og hvaðeina sem rúmaðist innan íslenska tónlistargeirans. Hann var jafnframt hugsjónamaður í útgáfunni og gaf út fjölda platna sem hann vissi fyrirfram að myndu lítt seljast en vinsælli flytjendur bættu söluna í staðinn. Fyrst í stað voru 45 snúninga plöturnar fyrirferðarmiklar en breiðskífurnar urðu brátt hlutfallslega fleiri og þegar kassetturnar komu á markaðinn fengu þær einnig pláss enda seldust þær vel um og eftir miðjan áttunda áratuginn. Meðal þeirra flytjenda sem SG-hljómplötur gáfu út má nefna Ómar Ragnarsson, Ragnar Bjarnason, Elly Vilhjálms, Vilhjálm Vilhjálmsson, Hljómsveit Ingimars Eydal, Hljóma, Óðmenn, Dáta, Mána, Jóhann Helgason, Kaffibrúsakarlana, Karlakór Reykjavíkur, Guðmund Jónsson, Guðrúnu Á. Símonar o.fl. Sér til halds og trausts hafði Svavar einnig nokkra tónlistarmenn sem unnu mikið með honum við hljómsveitastjórnun, útsetningar og fleira, og má hér nefna nöfn eins og Ólaf Gauk Þórhallsson, Magnús Ingimarsson og Jón Sigurðsson (Jón bassa). Algengt upplag platnanna var 3000 eintök en þegar plöturnar seldust vel voru viðbótarupplög gerð og þá voru umslög platnanna jafnvel öðruvísi en í fyrsta upplaginu. Slíkar plötur eru vinsælar meðal safnara í dag. Lengi vel voru plöturnar hljóðritaðar í útvarpssal, sal Tannlæknafélagsins og jafnvel erlendis stundum en síðar setti fyrirtækið á stofn hljóðverið Tóntækni samhliða útgáfunni og þar voru plötur einnig hljóðritaðar eða þar til SG-hljómplötur voru lagðar niður um miðjan níunda áratuginn. Svavar hafði þá nokkru fyrr eignast útgáfuréttinn á því sem Íslenzkir tónar höfðu gefið út og hafði þá byrjað að endurútgefa hluta þess efnis á safnplötum en sú tónlist hafði þá eingöngu komið út á 78 snúninga plötum.

Svavar Gests plötuútgefandi

Svavar var umdeildur maður enda harður í horn að taka í viðskiptum og gengu tónlistarmenn ekki alveg alltaf sáttir frá borði í viðskiptum við hann, meðal þeirra var mágur hans söngvarinn Vilhjálmur Vilhjálmsson. Það má þó ekki gleyma því að Svavar tók áhættuna sem útgefandi og því var eðlilegt að hann fengi sinn hlut ríflegan, þá má heldur ekki gleyma þeim áhrifum sem Svavar hafði á íslenskt tónlistarlíf með útgáfu sinni og t.d. má hér nefna að hann kom að miklu leyti í veg fyrir að enskan tæki yfir í popptónlistinni, með því að gefa (nánast) eingöngu út tónlist á íslensku.

Svavar hafði starfað nokkuð samfleytt við útvarp og reyndar reyndi hann einnig fyrir sér í sjónvarpinu þegar það kom til sögunnar en það form hentaði honum ekki eins vel og útvarpið, og í útvarpinu átti hann eftir að starfa nánast til dánardags, lengi vel með skemmtiþætti þar sem hnyttin tilsvör hans og spurningaleikir voru aðaleinkenni en síðar tóku við eiginlegir tónlistarþættir, einkum um íslenska tónlist eftir að útgáfuskeiðinu lauk og munu þættir hans skipta mörg hundruðum – reyndar störfuðu þau bæði hjónin um tíma samtímis í útvarpi því Elly annaðist einnig útvarpsþáttagerð um skeið. Margar sögur hafa verið sagðar af fyndni og hnyttni Svavars og Gísli Rúnar Jónsson segir frá því í bók sinni, Ég drepst þar sem mér sýnist, að Svavar hafi eitt sinni verið að hlusta á upptökur með rokksveit ungra manna að þeim viðstöddum, og þegar því var lokið sagði hann eftir smá þögn, „maður fær bara vúsja dei“, flestir þeirra ungu sneru sér undan til að hlæja ekki framan í kallinn en einn þeirra áræddi þó að spyrja „Deja vu, meinarðu?“. Svavar svaraði, „nei, vúsja dei, mér finnst eins og ég hafi aldrei heyrt þetta áður“.

Svavar byrjaði að starfa fyrir Lions-hreyfinguna um miðjan sjöunda áratuginn og starfaði þar til æviloka, um tíma var hann umdæmisstjóri hreyfingarinnar hér á landi og var svo síðar í alþjóðastarfi Lions-hreyfingarinnar og þurfti að ferðast víða um heim í tengslum við það, hann ritaði einnig sögu Lions-hreyfingarinnar hér á landi.

Árið 1992 kom ævisaga Svavars Gests út en hana ritaði hann sjálfur undir titlinum Hugsað upphátt. Hún þótti gefa nokkuð ágæta mynd af ferli hans en síður af einkalífi hans, bókin er jafnframt ágæt heimild um íslenska tónlistarsögu um og eftir miðja 20. öldina. Þegar bókin kom út hafði Svavar greinst með krabbamein sem síðar dró hann til dauða árið 1996 en hann var þá rétt nýlega orðinn sjötugur, þá hafði Elly einnig látist um níu mánuðum fyrr eftir sams konar veikindi en saman er óhætt að segja að engin íslensk hjón hafi haft jafn mikil áhrif á íslenska tónlist og tónlistarsögu og þau – Elly sem ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar fyrr og síðar og Svavar sem hljómsveitastjóri, tónlistarmaður, útgefandi, þáttagerðarmaður og ótal margt annað. Sonur þeirra hjóna, Máni Svavarsson er einnig þekktur tónlistarmaður og e.t.v. þekktastur fyrir tónlist sína Latabæjarþáttunum.

Svavar í sjónvarpsviðtali

Svavar hafði hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu menningar og listar, og reyndar einnig fyrir störf sín fyrir Lions, hann hafði verið sæmdur gullmerki FÍH og síðar verið gerður að heiðursfélaga í því félagi, hann hafði verið heiðraður fyrir störf sín innan FTT og af Stórstúku Íslands fyrir þátt sinn í bindindismálum en Svavar var alla tíð bindindismaður á áfengi.

Svo virðist sem að á síðustu árum hafi almenningur dregið upp nokkuð einsleita og neikvæða mynd af Svavari Gests eftir sýningar Borgarleikhússins á söngleiknum Elly en hinu verður ekki neitað að hann afrekaði mikið í þágu íslenskrar tónlistar með útgáfu sinni, útbreiðslu og kynningu á henni og ekki er víst að nöfn Ellyjar, Ragga Bjarna, Hljóma, Villa Vill, Ingimars Eydal og fleiri hefðu risið jafn hátt án aðkomu hans, svo ekki sé minnst á aðra þætti eins og kynningu á  djassinum, innflutningi á erlendu tónlistarfólki og skemmtiþætti í útvarpi.