Sín (1990-2017)

Sín ásamt Mjöll Hólm

Hljómsveitin Sín er líklega með langlífari pöbbasveitum landsins en hún starfaði í ríflega 25 ár.

Það er mörkum þess að hægt sé að kalla Sín hljómsveit því hún var í raun dúett sem bætti við sig söngvurum eftir hentugleika, yfirleitt söngkonum þannig að meðlimir hennar töldu aldrei fleiri en þrjá.

Sín kom fyrst fram á sjónarsviðið undir þessu nafni árið 1990, reyndar hélt sveitin upp á tíu ára afmæli sitt 1998 en líklega hafði hún upphaflega starfað undir öðru nafni, meðlimir sveitarinnar hafa t.a.m. starfað með ýmsum öðrum svipuðum sveitum í pöbbabransanum en slíkar sveitir urðu víða til með tilkomu bjórsins vorið 1989.

Guðmundur Símonarson gítarleikari var sá eini sem starfaði allan tímann í Sín, í fyrstu ásamt Kristni Rósantssyni hljómborðsleikara en þeir önnuðust báðir sönginn, þeir félagar höfðu þó oft söngkonu með sér og er hér fyrst nefnd Mjöll Hólm sem er gamalreynd úr bransanum. Arna Þorsteinsdóttir söngkona kom einnig lítillega við sögu sveitarinnar en síðar söng dóttir Guðmundar, Ester Ágústa Guðmundsdóttir oft með sveitinni. Sigurður Hafsteinsson leysti Kristin stundum af einnig.

Fyrstu árin virðist Sín að mestu hafa leikið á höfuðborgarsvæðinu s.s. í Danshúsinu en einnig í nágrannabyggðalögum eins og á Ránni í Keflavík og jafnvel í Vestmannaeyjum, reyndar fór sveitin mun víðar. Síðar meir lá leið þeirra æ oftar til Akureyrar þar sem sveitin lék á Við pollinn en á höfuðborgarsvæðinu tóku enn síðar við staðir eins og Kringlukráin, Rauða ljónið og Catalina. Sveitin hafði alltaf nóg að gera og gigg hennar virðast skipta hundruðum eða jafnvel þúsundum sé tekið mið af fjölda auglýsinga sem birtust um hana í dagblöðum, þeir félagar höfðu líka lag á að höfða til pöbbagesta með prógrammi, sem að mestu samanstóð af eldri íslenskum lögum.

Árið 1993 tók Guðlaugur Sigurðsson hljómborðsleikari við af Kristni með Guðmundi og þannig var dúettinn lengi skipaður, fleiri söngvarar tóku lagið með þeim félögum eins og Tony Moro og jafnvel Helena Eyjólfsdóttir en yfirleitt voru það Ester Ágústa og Mjöll sem stóðu söngkonuvaktina. Einhverjar aðrar útgáfur spruttu upp samhliða Sínar-nafninu og t.d. komu þau feðgin Guðmundur og Ester Ágústa fram í einhver skipti undir dúetta-nafninu Tara.

Árið 2002 urðu þær breytingar á Sín að Hermann Ingi Hermannsson kom inn í stað Guðlaugs en þá hafði reyndar Pétur Hreinsson (úr Hafróti) einhverju sinni leyst Guðlaug af í millitíðinni og kölluðu þeir sig þá Haf-Sín. Hermann Ingi starfaði með Guðmundi að því er virðist til 2005 en þá kom Sigurður Hafsteinsson inn í hans stað, um tíma gengu þeir ásamt Ester Ágústu undir nafninu Í gegnum tíðina og sendu frá sér smáskífu sem Magnús Ólafsson söng á einnig. Sveitin virðist því ekki hafa starfað undir Sínar-nafninu um tíma eða allt til 2010 en eftir það fór svo smám saman að draga úr spilamennskunni enda hafði þá Guðmundur meira og minna verið í pöbbabransanum í tuttugu og fimm ár. Síðasta giggið mun líklega hafa verið árið 2017. Margt er reyndar á huldu varðandi Sín því leitarorðið “Sín” hefur svo víðtæka merkingu að leitarniðurstöðurnar skipta hundruðum þúsunda.

Sín sendi frá sér kassettu árið 1998 sem þeir dreifðu á þeim pöbbum sem þeir spiluðu á, hún bar titilinn Ef það er fjörr… þá er stuð! en síðar gaf sveitin einnig út geisladisk sem bar heitið Ég man það enn, á þeim diski söng Ester Ágústa með Sín. Þá átti sveitin tvö lög á safnplötunni Á kránni, sem kom út 1992 – í þeim lögum komu þeir Guðmundur, Kristinn og Sigurður við sögu en einnig Hilmar J. Hauksson á hljómborð og mandólín, sá var jafnframt laga- og textahöfundur annars lags sveitarinnar á plötunni en ekki liggur fyrir hvort hann var einhverju sinni meðlimur hennar.

Efni á plötum