Falcon [1] (1957-60)

Falcon[1] 1960

Falcon 1960 – auglýsing í dagblaði

Hljómsveitin Falcon var starfrækt í Reykjavík um þriggja ára skeið í kringum 1960. Sveitin lék einkum á ballstöðum höfuðborgarinnar og fór lítið út á landsbyggðina. Eins og yfirleitt var í auglýsingum þess tíma var bætt aftan við nafn sveitarinnar kvintett eða sextett eftir stærð hennar í hvert sinn, þannig gekk hún ýmist undir nafninu Falcon kvintett eða Falcon sextett.

Sveitin var stofnuð 1957 og gekk í upphafi undir nafninu Júpiter en önnur sveit með sama nafni sýndi tennurnar og bannaði þeim að nota það. Áður en nafninu var breytt í Falcon gengu þeir líklega undir nafninu EM kvintett í stuttan tíma. Meðal meðlima sveitarinnar í upphafi voru Eyjólfur Melsteð trompetleikari og Berti Möller sem þarna lék á píanó en hætti svo um tíma, hann kom aftur eftir að þeir hófu að kalla sig Falcon. Einhverjar mannabreytingar voru í sveitinni, t.d. hafði Siggeir Sverrisson verið bassaleikari í henni um tíma en 1960 voru þeir Berti (sem nú spilaði á gítar og söng, Eyjólfur trompetleikari, Geir Viðar Vilhjálmsson píanóleikari, Gissur Helgason söngvari og gítarleikari, Arthur Moon bassaleikari og Sigurjón Fjeldsted trommuleikari. Þessi kjarni var á aldrinum 16-18 ára þannig að um eiginlega unglingasveit var að ræða. Díana Magnúsdóttir söng stundum með sveitinni sem og Mjöll Hólm sem þá var að stíga sín fyrstu söngskref, einnig komu Anna [?] og Garðar [?] einhverju sinni fram með henni. Falcon spilaði nokkuð í Vetrargarðinum en einnig í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll þar sem þeir leystu KK sextett af um tíma.

Um áramótin 1960/61 hafði nafni sveitarinnar verið breytt í Sextett Berta Möller en ekki liggur fyrir hver mannaskipan var þá, hvort um sömu sveit var að ræða með breytt nafn eða hvort um nýja sveit var að ræða.

Nafnið Falcon kom aftur við sögu lítillega 1962 með Mjöll Hólm sem söngkonu, sveitin spilaði mjög lítið þá og í stuttan tíma. Engar upplýsingar er að finna um skipan þeirrar útgáfu Falcon.