Sköllótt mús (1987-90)

Hljómsveit með því undarlega nafni Sköllótt mús starfaði um skeið á síðari hluta níunda áratug síðustu aldar og lék aðallega ábreiðutónlist á pöbbum höfuðborgarsvæðisins en hún var skipuð nokkrum þekktum tónlistarmönnum – öllu þekktari sveit, Loðin rotta varð til upp úr Sköllóttu músinni.

Upphaf Sköllóttrar músar má líklega rekja til ársins 1987 fremur en 1988 en sveitin var þó mest áberandi í spilamennsku á árunum 1988 og 89. Meðlimir hennar voru Ingólfur Guðjónsson hljómborðsleikari og Sigurður Gröndal gítarleikari sem komu út Rikshaw, Ásmundur Magnússon söngvari (og líklega einnig bassaleikari) og Halldór Gunnlaugur Hauksson trommuleikari, einnig komu Kristján Edelstein gítarleikari og Bergsteinn Björgúlfsson trommuleikari við sögu sveitarinnar sem og Jóhannes Eiðsson sem gæti hafa sungið með sveitinni undir það síðasta.

Sveitin starfaði fram yfir áramótin 1989-90 en nokkru fyrr höfðu Richard Scobie söngvari (Rikshaw) og Jóhann Ásmundsson bassaleikari leyst Ásmund af á dansleik og kölluðu þeir sig þá Loðna rottu  Sveitirnar tvær störfuðu samhliða í einhvern tíma fram á árið 1990 en svo fór að lokum að Sköllótta músin hætti störfum en Loðin rotta starfaði áfram. Sköllótt mús var þó endurvakin þremur árum síðar á afmælishátíð Gauks á Stöng en þar léku báðar sveitirnar.