Af nýju og væntanlegu efni á Glatkistunni

Smaladrengirnir

Eins og venjulega á miðvikudögum bætist við nýtt efni í gagnagrunn Glatkistunnar. Viðbæturnar eru með nokkrum hefðbundnum hætti, mestmegnis óþekktar hljómsveitir (Slikk, Slammdjamm, Slagverkur o.fl.), tveir sönghópar, eitt tónskáld og eitthvað fleira – hér er þó sérstaklega kynnt til sögunnar hljómsveitin Smaladrengirnir en sú sveit gerði garðinn nokkuð frægan í kringum síðustu aldamót með skemmtilegum söng og sprelli, og hefur reyndar að geyma nokkuð þjóðþekkta meðlimi.

Einnig er rétt að nefna að á næstu vikum kemur inn töluvert af þekktum – reyndar mjög þekktum hljómsveitum, sönghópum og einstaklingum sem vert er að veita athygli þegar þar að kemur, hér eru nefnd Sálin hans Jóns míns, Snörurnar, Smárakvartettarnir á Akureyri og Reykjavík, Soffía og Anna Sigga, Sniglabandið, Soffía Karlsdóttir og þannig mætti áfram telja. Gagnagrunnurinn stækkar því enn og hefur nú að geyma upplýsingar um hátt í 4500 hljómsveitir, söngvara, kóra, útgáfufyrirtæki o.fl. 

Einnig er rétt að minna á að nú þegar gefið hefur verið grænt ljós á tónleika- og viðburðahald á nýjan leik, að hægt er að senda fréttir af væntanlegum viðburðum og nýútkomnu efni til birtingar á Glatkistunni.