Smaladrengirnir (1996-2006)

Smaladrengirnir

Smaladrengirnir var sönghópur/hljómsveit sem vakti nokkra athygli í kringum síðustu aldamót, þeir félagar sungu rakarakvartetta af ýmsu tagi, þóttu skemmtilegir á sviði og sendu einnig frá sér eina plötu með blönduðu efni.

Smaladrengirnir voru stofnaðir síðla árs 1996 og voru stofnmeðlimir þeir Bragi Þór Valsson söngvari og klarinettuleikari (Rokklingarnir o.fl.), Óskar Þór Þráinsson söngvari, Viktor Már Bjarnason (Brooklyn fæv o.fl.) og Fjalar Sigurðarson, allir sungu þeir og margraddað enda voru Smaladrengirnir fyrst og fremst sönghópur fremur en hljómsveit.

1997 bættust þeir Hugi Þórðarson, Hjörtur Þorbjörnsson og Jóhannes Baldvin Jónsson í hópinn, Viktor og Fjalar hættu síðan áður en Daníel Brandur Sigurgeirsson söngvari og gítarleikari (Royal, Mozart var ýktur spaði o.fl.) kom í sveitina 1998. Þar með innihélt hópurinn orðið sex meðlimi en um haustið hættu Hjörtur og Jóhannes, og þannig skipuð hélst sveitin en hópurinn kom fram á bindindismótinu í Galtalæk verslunarmannahelgarnar 1997 og 98, á árshátíðum, veislum og ýmsum blönduðum skemmtunum.

Smaladrengirnir sem kvartettVorið 1999 tóku Smaladrengirnir þátt í Músíktilraunum en komust þar ekki í úrslit. Þeir létu það þó ekki á sig fá, komu töluvert fram áfram og hófu að vinna að plötu sem síðan kom út haustið 2001 og hlaut nafnið Strákapör. Hún hlaut ágætar viðtökur og fékk t.a.m. ágætis dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í DV. Á plötunni fengu þeir til liðs við sig nokkra valinkunna söngvara svosem Árna Johnsen, Ólaf Þórðarson og séra Pálma Matthíasson, auk þeirra komu nokkrir aukahljóðfæraleikarar við sögu.

Smaladrengirnir fylgdu Strákapörunum nokkuð eftir um haustið 2001 en minna fór fyrir þeim félögum eftir það og virðast þeir hafa komið nokkuð stopult fram á næstu árum. Hópurinn starfaði þó að minnsta kosti til ársins 2006 og voru síðustu árin mikið að koma fram í Borgarfirðinum.

Efni á plötum