Bera nafn með rentu

Meistarar dauðans – Meistarar dauðans
Askur games AG001, 2015
fjórar stjörnur

Meistarar dauðans - Meistarar dauðansHljómsveitin Meistarar dauðans hafa fyrir löngu vakið athygli fyrir framlag sitt til tónlistarinnar þrátt fyrir að vera ungir að áður. Þeir hafa náð sér í heilmikla reynslu á því fjögurra ára tímabili sem sveitin hefur starfað en trymbill sveitarinnar Þórarinn Þeyr Rúnarsson var aðeins átta ára gamall við stofnun sveitarinnar 2011. Síðan þá hafa Meistarar dauðans sigrað hljómsveitakeppnina Tónabær rokkar (2013), keppt í Músíktilraunum (2014), spilað á Rokkjötna-hátíðinni (2015) og verða á dagskrá Eistnaflugs í sumar (2016).

Það er ekki lítið afrek þegar tillit er tekið til þess að elsti meðlimur sveitarinnar, söngvarinn og gítarleikarinn Ásþór Loki Rúnarsson (bróðir Þórarins) er nýorðinn sautján ára gamall en þeir bræður eru af Trassaættum, synir Rúnars Þórs Þórarinssonar gítarleikara Trassanna. Þriðji burðarásinn í þessu magnaða tríói er bassaleikarinn Albert Elías Arason, reyndar hefur nokkuð kvarnast úr sveitinni en hún var kvintett þegar mest var.

Meistarar dauðans sendu fyrir nokkru frá sér sína fyrstu plötu samnefnda sveitinni, útgáfa hennar átti sér nokkurn aðdraganda og hinn bráðsniðugi Karolinafund-vefur á sinn þátt í að dæmið gekk upp. Segja má að útgáfan hafi síðan sannað sig frá þeirri stundu sem hún hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í rokk-flokknum.

Á plötunni kemur fjöldi gesta við sögu og hafa rokkarar eins og Stefán Jakobsson, Kristján B. Heiðarsson, Jónas Sigurðsson og Magni Ásgeirsson aðstoðað við gerð plötunnar án þess þó að hún verði eitthvað annað en plata Meistaranna.

Platan byrjar á tvennu sem keyrð er áfram af svo þéttri keyrslu að maður hefur á tilfinningunni að tíu laga platan sé öll á þá lund, þó róast málin heldur í þriðja laginu og í framhaldinu sýnir sveitin á sér ýmsar hliðar á lendum rokksins, keyrslu-, indí-, blús- og þungarokk, jafnvel gætir proggáhrifa svo ljóst er að þeir félagar fara víða og eru síður en svo ólæsir eða villtir í rokkheimum.

Lögin, sem flest eru eftir bræðurna Ásþór (og Þórarin) virðast vera misgömul en af þeim má að nokkru leyti heyra hvernig lagasmíðarnar hafa þroskast, textarnir eru flestir nokkuð ungæðislegir eins og það var stundum kallað í gamla dag (kannski sérstaklega hvað endarímið varðar) en með æfingunni munu textasmíðarnar þroskast og slípast. Hér verður svo sem ekki ritað ítarlega um textagerðina, sem vel að merkja eru á íslensku en ég verð þó að nefna Vökuvísu sem hefur augljósa vísun í ljóð Jóhanns Sigurjónssonar, Sofðu unga ástin mín. Það lag ásamt Skrímslið í garðinum eru að mati undirritaðs bestu lög plötunnar en síðarnefnda lagið líður reyndar örlítið fyrir textann.

En platan er góð og ekki bara fyrir það að þarna eru á ferðinni mjög ungir listamenn. Sveitin ber jújú alveg þess merki að meðlimir hennar eru ungir og þeir eru allt að því villtir á köflum í nálgun sinni en á móti kemur að þeir eru ótrúlega þétt band og þegar þeir verða búnir að fága sig til og aga þá verða þeir klárlega meðal þeirra fremstu. Ekki er hjá því komist að í því samhengi að nefna sérstaklega Þórarin trymbil sem sýnir hvern stórleikinn á fætur öðrum og lemur alveg merkilega fast á settið samhliða því að vera tæknilega góður, þetta kemur kannski einna best fram í öðru lagi plötunnar, Kayä kägä pinandawä.

Umslag Meistara dauðans er algjörlega í takti við hljómsveitina, textar og allar upplýsingar til staðar, engu ofaukið og ekkert vantar upp á. Og útgáfan sjálf er auðvitað bara afrek og fyrir það eitt og sér fá þeir aukaprik. Vel gert!