Afmælisbörn 11. apríl 2016

Kristján Pétur Sigurðsson

Kristján Pétur Sigurðsson

Á þessum degi eru tónlistartengd afmælisbörn Glatkistunnar hvorki fleiri né færri en sex talsins:

Pétur Hjaltested hljómborðsleikara skal fyrstan nefna en hann er sextugur í dag og á því stórafmæli, fáir hafa líklega leikið með jafn mörgum hljómsveitum og Pétur en hér eru aðeins nefndar Paradís, Póker, Friðryk, Xport, Birta, Borgís, Brimkló, Cogito, Egó, Faraldur, Eik og Haukar, og plöturnar sem hann hefur leikið inn á skipta hundruðum.

Akureyringurinn Kristján Pétur Sigurðsson er sexíu og fimm ára gamall á þessum degi en hann hefur verið í fjölda hljómsveita í gegnum árin. Þekktust þeirra eru líkast til Kamarorghestar en hann var einnig í hljómsveitum eins og Skapti, Akureyrar-útlagarnir, Bísa blúsbandið, Parror, Hún andar, Lost og Húsband Populus Tremula, auk margra annarra sveita.

Ragnar „Sót“ Gunnarsson skriðjökull númer eitt er fimmtíu og þriggja ára. Raggi var söngvari Skriðjöklanna frá Akureyri og söng þ.a.l. lög eins og Tengja og Hesturinn auk fleiri vinsælla laga, en hann hefur einnig sungið með sveitum eins og Straumum, Alveg svörtum og Bölvar & ragnar.

Jón Guðfinnsson bassaleikari Lands og sona er fjörutíu og fjögurra ára gamall. Jón, sem kemur upphaflega frá Hvolsvelli lék á árum áður með sveitum eins og Durex, Munkum í meirihluta, Sex appeal, Eins og hinum og Frk. Júlíu en spilar nú með Made in sveitin.

Hinn eini sanni Villi Vill (Vilhjálmur Hólmar Vilhjálmsson f. 1945) hefði átt afmæli á þessum degi en hann lést 1978 í bílslysi í Luxemborg þar sem hann starfaði sem flugmaður. Fjölmargar plötur komu út með honum, auk platna sem hann söng ásamt Ellyju systur sinni. Allir þekkja lög eins og Einbúinn, Bíddu pabbi, Hrafninn, Vor í Vaglaskógi, Lítill drengur, Söknuður og Litla sæta ljúfan góða.

Söngkonan Hallbjörg Bjarnadóttir (1917-97)  átti einnig þennan afmælisdag en hún er hvað þekktust fyrir lög sín Björt mey og hrein og Vorvísa (Vorið er komið). Hún lærði söng í Reykjavík og Kaupmannahöfn og átti viðburðarríka ævi hér heima á Íslandi og erlendis, sem gerð var góð skil í æviminningum hennar, Hallbjörg …eftir sínu hjartans lagi, skráðum af Stefáni Jökulssyni.