Smellir [1] (1988-93)

Smellir ásamt Ragnari og Elly

Hljómsveitin Smellir var um nokkurt skeið húshljómsveit í Danshúsinu Glæsibæ og skartaði þá söngvurum eins og Ragnari Bjarnasyni og fleiri þekktum slíkum.

Smellir voru fyrst auglýstir í dagblöðum sem húshljómsveit í Danshúsinu árið 1990 en ein heimild hermir að saga sveitarinnar nái alveg aftur til 1988 og miðast þessi umfjöllun um það. Sveitin starfaði lengst af í Glæsibæ en lék þó einnig eitthvað á stöðum eins og Súlnasal Hótel Sögu og Þórscafé, og jafnvel einnig utan höfuðborgarsvæðisins eins og á Akureyri og í Keflavík.

Ragnar Bjarnason söng lengi með Smellum en einnig komu við sögu sveitarinnar gestasöngvarar eins og Anna Vilhjálms og Elly Vilhjálms. Frá og með áramótum 1991-92 hafði Eva Ásrún Albertsdóttir bæst í hópinn og voru þau Ragnar þá aðal söngvarar sveitarinnar en aðrir liðsmenn munu einnig hafa sungið eitthvað, þeir voru þá þeir Rafn Erlendsson trommuleikari, Sigurður Hafsteinsson gítarleikari, Mark Kristján Brink bassaleikari og Kristján Óskarsson hljómborðsleikari. Ekki liggja fyrir upplýsingar hvort einhverjar mannabreytingar voru í sveitinni meðan hún starfaði.

Haustið 1992 var sýningin Söngvaspé sett á svið í Danshúsinu þar sem Ómar Ragnarsson og Ragnar voru aðal skemmtikraftarnir auk Ríó tríós og lék sveitin undir í sýningunni sem og á dansleik á eftir henni. Sýningum var hætt fljótlega eftir áramótin 1992-93 og virðist sveitin þá einnig hafa hætt störfum í leiðinni.