Smjattpattar [1] (1984)

Hluti Smjattpattanna

Margir muna eftir Smjattpöttunum (Munch bunch) sem nutu töluverðra vinsælda á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar, heil kynslóð barna fylgdist með ævintýrum þeirra í Stundinni okkar en þeir hurfu með jafnskjótum hætti og þeir höfðu birst.

Íslendingar kynntust fyrst Smjattpöttunum þegar bókaútgáfan Vaka gaf út sumarið 1982 í þýðingu Þrándar Thoroddsen nokkrar barnabækur um ævintýri ávaxta og grænmetis, og vöktu þá þegar persónur eins Tommi tómatur, Gulli gulrót, Bananabræður, Baunbelgur prófessor, Petra pera, Solla sítróna og Lúlli laukur mikla athygli. Bækurnar voru eftir bresku höfundana Giles Reed (Denis Bond) og Angelu Mitson og nutu þegar mikilla vinsælda sem jukust enn fremur þegar stuttir leikbrúðuþættir voru teknir til sýninga með þeim og sýndir í Stundinni okkar um haustið en þar var leikarinn Jóhann Sigurðarson í aðalhlutverki sem sögumaður og talsetjari.

Fleiri bækur komu út árið eftir og haustið 1984 kom svo út plata undir heitinu Smjattpattar: söngvar og sögur sem hafði eins og titillinn gefur til kynna að geyma tónlist og sögur, þar sem fyrrgreindur Jóhann sá um að túlka persónur í söng og leik og sem sögumaður. Nokkrir kunnir tónlistarmenn önnuðust hljóðfæraleik í upptökunum sem fóru fram í stúdíó Stemmu undir stjórn Sigurðar Rúnars Jónssonar. Platan hlaut ágætar viðtökur og fékk ágæta dóma í Þjóðviljanum en fljótlega hurfu Smjattpattarnir af sjónarsviðinu og lítið sem ekkert hefur til þeirra spurst. Segja má að þeir séu að einhverju leyti fyrirmyndir að persónum Ávaxtakörfunnar löngu síðar.

Efni á plötum