Pláhnetan (1993-95)

Pláhnetan

Pláhnetan 1993

Hljómsveitin Pláhnetan starfaði um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, var stofnuð í kjölfar þess að Sálin hans Jóns míns sprakk og dafnaði reyndar ágætlega í því tómarúmi sem sú sveit skildi eftir sig.

Sálin hafði verið starfandi með litlum hléum í um fimm ár og svo fór um áramótin 1992-93 að þar fengu menn nóg hverjir af öðrum, fyrir lá þó að sveitin væri ekki hætt þótt margir héldu því fram á þeim tíma.

Stefán Hilmarsson söngvari var ekki tilbúinn að hætta afskiptum af tónlistinni enda búinn að gera það gott í íslensku tónlistarlífi á þeim tíma. Hann hafði verið að vinna að eigin efni ásamt Friðriki Sturlusyni bassaleikara Sálarinnar og þegar þeir Stefán og Ingólfur Guðjónsson hljómborðsleikari gjarnan kenndur við Rikshaw töluðu sig saman í febrúar 1993 voru þeir ásáttir um að stofna nýja sveit en Ingólfur hafði þá einnig verið að vinna frumsamið efni með Sigurði Gröndal gítarleikara sem líka hafði verið í Rikshaw.

Fjórmenningarnir Stefán, Friðrik, Ingólfur og Sigurður fóru því af stað í leit að trommuleikara og fundu fljótlega Ingólf Sigurðsson sem þá hafði starfað með SSSól og Orgli, og þá var hægt að byrja.

Pláhnetan2

Pláhnetan á veggspjaldi Æskunnar

Sveitin fékk nafnið Pláhnetan og byrjaði strax að vinna að útgáfu plötu en ráðgert var að koma henni út í sumarbyrjun og keyra á sveitaböllin um sumarið enda litu þeir félagar á þetta sem skammtíma verkefni sem lyki um haustið þegar til stóð að Stefán gæfi út sólóplötu.

Fyrst heyrðist til Pláhnetunnar á safnplötunni Grimm dúndur en það var lagið Span, sem gaf forsmekkinn fyrir það sem koma skyldi. Um það leyti hóf sveitin ballrúntinn kringum landið á Akureyri undir slagorðinu Komið, dansið og sannfærist! við fremur dræma aðsókn til að byrja með en sveitarmeðlimir voru auðvitað mun vanari að leika fyrir fullum samkomuhúsum en tómum kofum.

Aðsóknin batnaði þó svo um munaði þegar leið á sumarið og þegar platan, sem hlaut titilinn Speis og innihélt eins konar geim-konsept, kom út á vegum Steina hlaut hún ágætis viðtökur. Lögin Sólon, Funheitur og áðurnefnt Span nutu mikilla vinsælda og fyrr en varði varð Pláhnetan meðal þeirra sveita sem hvað mestra vinsælda nutu þetta sumarið, og lék meðal annars á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Annað lag með sveitinni kom út á safnplötunni Bandalög 6 síðar þetta sama sumar.

Platan sem hafði auðvitað verið unnin í töluverðum flýti fékk þokkalega dóma í DV og ágæta í Pressunni, Degi og Vikunni, hún seldist ennfremur ágætlega.

Svo vel gekk sumarið að Pláhnetan hélt áfram að herja á sveitaböllin um haustið og þegar þeim linnti tóku skólaböllin við, það er því óhætt að segja að teygst hafi heldur betur á skammtímaverkefninu.

Pláhnetan 1994

Pláhnetan 1994

Útgáfa sólóplötu Stefáns um haustið minnkaði spilamennskuna ekki svo um munaði og eftir áramótin 1993-94 hófu Pláhnetu liðar að vinna að sinni annarri plötu.

Þegar Friðrik bassaleikari fór utan til náms tók Jakob Smári Magnússon við keflinu af honum en hann hafði þá verið í SSSól, þess vegna koma tveir bassaleikarar við sögu á plötunni sem hlaut nafnið Plast. Stefán stóð reyndar í ströngu meðan á upptökum stóð en hann var þá textahöfundur framlags Íslendinga í Eurovision þarna um vorið og þurfti því að sinna því sem skyldi, það tafði þó ekki vinnslu plötunnar.

Titill plötunnar, Plast kom í beinu framhaldi af myndatöku sem sveitin tók þátt í vegna útgáfu plötunnar en á þeim myndum voru þeir Pláhnetumenn vafðir naktir inn í pökkunarplast. Reyndar stóð allt annað til í þessari myndatöku enda var vinnuheiti plötunnar Majónes en það varð úr að plastmyndin af þeim var notuð og titillinn kom þannig af sjálfu sér.

Pláhnetan3

Plastmyndataka Pláhnetunnar

Plast þótti mun rokkaðri en frumraunin Speis og gekk ágætlega í gagnrýnendur blaðanna þótt platan seldist ekki alveg eins vel, hún fékk þannig ágæta dóma í DV og Degi en þokkalega í Pressunni og Morgunblaðinu.

Sem fyrr var keyrt á sveitaballmarkaðinn um sumarið 1994 og menn höfðu orð á því að Pláhnetan hefði lítið sem ekkert leikið á höfuðborgarsvæðinu, það var eðlilegt þar sem ballþyrst landsbyggðarfólk gaf mun meira af sér fjárhagslega en pöbbaröltandi höfuðborgarbúar.

Nokkur laganna nutu vinsælda um sumarið, Upp og niður, Bylting, Þú getur hlaupið og Ég vissi það heyrðust öll mikið á útvarpsstöðvunum en í síðast talda laginu söng Björgvin Halldórsson með Stefáni.

Pláhnetan hélt ballspilamennskunni áfram um haustið og um það leyti sendi sveitin frá sér lagið Sælu ásamt söngkonunni Emilíönu Torrini á safnplötunni Heyrðu 5, það var ennfremur mikið spilað.

Eftir smá hlé í byrjun árs 1995 kom Pláhnetan aftur fram á sjónarsviðið og þá hafði Friðrik Sturluson aftur snúið í sveitina. Þegar allt benti til að sveitin færi á sinn þriðja sveitaballarúnt um sumarið gerðist hið óvænta, Sálin hans Jóns míns var endurvakin eftir þriggja ára hlé og þar með lauk Pláhnetuævintýrinu jafnvel enn snögglegar en það hafði byrjað ríflega tveimur árum fyrr.

Lög Pláhnetunnar hafa mörg hver lifað þokkalegu lífi eftir að sveitin hætti og nokkur þeirra hafa komið út á safnplötum síðan, þar má nefna Heyrðu aftur ´94 (1995), Pottþétt sumar (1999), Í sól og sumaryl (1995) og Sumarið er tíminn (2000) svo nokkur dæmi séu tekin.

Efni á plötum