Snæbjörg Snæbjarnardóttir (1932-2017)

Snæbjörg Snæbjarnardóttir

Sópransöngkonan og söngkennarinn Snæbjörg Snæbjarnardóttir kom víða við á ferli sínum, hún hafnaði freistandi tækifærum erlendis sem hefðu getað gert hana að töluvert stærra nafni í íslenskri tónlistarsögu en telst þess í stað meðal virtustu söngkennara sem hérlendis hafa starfað og fjöldi þekktra söngvara nutu leiðsagnar hennar og kennslu. Þá var hún jafnframt öflugur kórstjórnandi um áratuga skeið.

Snæbjörg Snæbjarnardóttir fæddist á Sauðárkróki árið 1932 og steig þar sín fyrstu spor á tónlistarbrautinni. Hún var ung að árum farin að nema hljóðfæraleik hjá Eyþóri Stefánssyni á Króknum og þrettán gömul hóf hún að syngja með Kirkjukór Sauðárkróks og með þeim kór söng hún einnig einsöng í fyrsta sinn.

Hún var aðeins sextán ára þegar hún flutti suður til Reykjavíkur til að nema söng, fyrst hjá Sigurði Birkis en svo hjá Sigurður Demetz, hún átti síðar einnig eftir að nema söng af Stefáni Íslandi og Maríu Markan hér heima. Tvítug fór hún svo til Austurríkis og nam þar við Akademie für Musik und darstellende Kunst Mozarteum í Salzburg þar sem hún lauk námi með hæstu einkunn. Hún sigraði alþjóðlega söngkeppni skólans og bauðst í framhaldinu að syngja hlutverk Aidu í samnefndri óperu á Scala en hafnaði því tækifæri og kom heim til Íslands. Síðar átti hún eftir að nema kórstjórnun í Salzburg og Vín, og hafnaði þá öðru samningstilboði um að syngja við Vínaróperuna.

Áður en Snæbjörg hélt utan til náms hafði hún byrjað að syngja með kórum hér heima, hún söng t.a.m. með Dómkórnum og Þjóðleikhúskórnum og með þeim söng hún einsöng á tónleikum en síðar átti hún eftir að syngja einsöng með fjölmörgum öðrum kórum um ævi sína, hér má nefna karlakórinn Fóstbræður, Kvennakór Slysavarnarfélagsins, Karlakór Keflavíkur og Kvennakór Suðurnesja en hún sá um raddþjálfun hjá síðast talda kórnum um tíma. Þá raddþjálfaði hún einnig kóra eins og karlakórinn Þresti, Samkór Kópavogs, Kirkjukór Kópavogs, Héðinskórinn og Söngsveit Fílharmóníunnar sem hún söng reyndar með um tíma.

Snæbjörg stjórnaði kórum um árabil, hún var meðal stofnenda Skagfirsku söngsveitarinnar í Reykjavík 1971 og stjórnaði þeim kór um þrettán ára skeið á tónleikum innan lands og utan, og meðal annars á þremur hljómplötum sem komu út með kórnum og á þeim plötum söng hún jafnframt einsöng með kórnum. Þótt ótrúlegt megi virðast eru það einu plöturnar sem einsöng hennar er að finna á en þess má reyndar geta að hún söng einnig bakraddir á plötu Jakobs Frímanns Magnússonar – Horft í roðann, sem kom út 1976. Samhliða kórstjórnun Skagfirsku söngsveitarinnar stjórnaði hún um tíma einnig barnakór söngsveitarinnar. Þegar Söngsveitin Drangey, kór eldri meðlima Skagfirsku söngsveitarinnar, tók til starfa stjórnaði Snæbjörg þeim kór og var þar við stjórnvölinn allt fram á nýja öld, sá kór gaf út eina plötu undir hennar söngstjórn.

Snæbjörg Snæbjarnardóttir

Snæbjörg var lengi vel áberandi sem einsöngvari á sviði, auk þess að syngja einsöng með kórum söng hún mikið á einsöngstónleikum en yfirleitt ásamt öðrum einsöngvurum og hélt líklega aldrei sjálfstæða tónleika. Hún söng t.a.m. við biskupsvígslu á Hólum í Hjaltadal, á tónleikum til heiðurs Maríu Markan, lög Sigfúsar Halldórssonar á tónleikum og á tugum eða hundruðum annarra tónleika, þá söng hún jafnframt ótal sinnum í útvarpssal og því hljóta að vera varðveittar upptökur með henni hjá Ríkisútvarpinu. Snæbjörg söng í nokkrum óperuuppfærslum og í leikhúsi einnig en hún söng á sviði líklega alveg fram undir lok níunda áratugarins.

Snæbjargar verður líklega alltaf minnst sérstaklega fyrir framlag sitt til söngkennslunnar en hún kenndi söng í áratugi og naut þar mikillar virðingar, en söngkennslunni sinnti hún samhliða öðrum söngverkefnum og fyrirtækjarekstri en hún rak ásamt eiginmanni sínum verslarnir af ýmsu tagi um árabil. Hún kenndi við Söngskólann í Reykjavík í um fimmtán ár og svo við Tónlistarskólann í Garðabæ í um þrjátíu ár en hún átti stóran þátt í að koma söngdeild á koppinn þar, þá kenndi hún einnig söng í Kópavogi um tíma og lengi við söngskóla Söngsveitar Fílharmóníu. Margt þekkt söngfólk naut kennslu Snæbjargar og hér má nefna Hönnu Dóru Sturludóttur, Jón Svavar Jósefsson, Andreu Gylfadóttur, Stein Erlingsson, Ingibjörgu Guðjónsdóttur, Hlíf Káradóttur og Ásgerði Júníusdóttur svo aðeins nokkur nöfn séu nefnd. Síðustu æviárin var hún enn viðloðandi söngkennslu varðandi ráðgjöf og fleira þótt hún væri sjálf hætt formlegri kennslu, utan að kenna söng á hjúkrunarheimilinu Mörk. Til marks um þá virðingu sem hún naut fyrir framlag sitt til söngkennslu má nefna að haldnir voru tónleikar á 75 og 80 ára afmælinu þar sem fyrrum nemendur hennar sungu henni til heiðurs.

Snæbjörg lést í febrúar 2017 á áttugasta og fimmta aldursári.