Snælandskórinn (1989-2005)

Snælandskórinn

Snælandskórinn svokallaði var ekki eiginlegur starfandi kór heldur eins konar úrvalskór söngfólks af Austurlandi sem kom stöku sinnum saman og söng mestmegnis í kringum utanlandsferðir sem hann fór í.

Snælandskórinn var settur á stofn snemma árs 1989 þegar Kirkjukórasambandi Austurlands barst boð um að senda blandaðan kór til Ísraels um jólin en sá kór yrði þá fulltrúi Norðurlandanna og syngi meðal þrettán annarra kóra víðs vegar úr heiminum sem fengu sams konar boð. Sambandinu var ekki stætt á öðru en að þiggja þetta góða boð og æfingar hófust fljótlega en umdæmissvæði þess náði yfir svæðið allt frá Bakkafirði í norðri til Djúpavogs í suðri og því kostaði þetta töluvert skipulag þar sem skipst var á um æfingastaði og þurftu meðlimir kórsins, sem gekk fyrst um sinn undir nafninu Kór Kirkjukórasambands Austurlands, að fara oft um víðan veg til að komast á æfingar. Kórinn æfði undir stjórn Ference Utassy, Sigríðar Júlíusdóttur og Sigurbjargar Helgadóttur en sú síðasttalda var jafnframt undirleikari kórsins og Laufey Egilsdóttir einsöngvari hans.

Til að slípa kórsönginn aðeins og hita hópinn upp Ísraelsferðina voru haldnir nokkrir tónleikar á aðventunni, fyrst við vígslu kirkjuorgels á Fáskrúðsfirði en svo með tónleikum í Neskaupstað, Eskifirði, Seyðisfirði, Egilsstöðum og í Langholtskirkju í Reykjavík áður en hópurinn (alls um 90 manns) hélt til Ísraels rétt fyrir jólin 1989, þá hafði kórinn hlotið nafnið Snælandskórinn. Þar söng kórinn sem var skipaður ríflega fimmtíu kórmeðlimum á torginu við fæðingarkirkjuna í Betlehem á aðfangadagkvöld, og svo aftur á jóladag og milli jóla og nýjárs á öðrum stöðum, en alls var þetta ríflega hálfs mánaðar ferðalag. Það þarf því engan að undra að kirkjukórar Austurlands voru æði fáliðaðir í messum fyrir austan um jólahátíðina.

Kórsöngur í Ísrael 1989

Ekki hafði endilega verið ráðgert að kórinn starfaði áfram en árið 1993 var hann kallaður aftur saman og fór þá í söngferðalag til Tékklands og Slóvakíu um sumarið þar sem hann söng blöndu af íslensku og erlendu efni frá ýmsum tímum. Kórinn gekk þá jöfnum höndum undir nöfnunum tveimur, Kór Kirkjukórasambands Austurlands og Snælandskórinn og söng þá undir stjórn Ágústs Ármanns Þorlákssonar (sem lengi var formaður sambandsins) og Svavars Sigurðssonar, Ingveldur Hjaltested söng þarna einsöng með kórnum sem hitaði upp fyrir utanferðina með tónleikum í Bústaðakirkju.

Sumarið 1994 hélt Kirkjukórasamband Austurlands upp á 50 ára afmæli sitt og hélt því kóramót á Eiðavatni en þangað mættu tólf kórar úr umdæminu og var þar slegið saman í sameiginlegan kór undir stjórn Torvald Gjerde sem innihélt um hundrað manns, undir nafninu Kór Kirkjukórasambands Austurlands, ekki er þó í raun hægt að segja að sá kór hafi verið sá sami og Snælandskórinn. Sumarið 1995 var hins vegar Snælandskórinn ræstur á nýjan leik þegar hann söng á afmælishátíð á Seyðisfirði í tilefni af 100 ára afmæli bæjarins.

Snælandskórinn árið 2000

Næst söng Snælandskórinn undir lok aldarinnar við upphaf Kristnitökuhátíðar (sem reyndar náði hámarki í júní 2000) en sumarið 1999 söng kórinn við athöfn þar sem minnismerki var afhjúpað um Síðu-Hall við Þvottá. Sumarið 2000 var kórinn hins vegar vant við látinn í Kanada því honum bauðst að syngja á Íslendingaslóðum vestra, þar söng kórinn á um sex tónleikum og fóru um 100 manna hópur með rúmlega fimmtíu söngmeðlimi í þá hálfs mánaðar ferð ásamt danshópnum Fiðrildunum sem sýndi þjóðdansa. Snælandskórinn hitaði upp fyrir þá ferð með tónleikum á Vopnafirði, Eskifirði og Hjallakirkju í Kópavogi.

Snælandskórinn átti eftir að fara í enn eina ferðina áður hann hætti störfum, það var sumarið 2005 en þá var ferðinni heitið til Írlands þar sem kórinn söng á nokkrum tónleikum, um sextíu manns skipuðu kórinn þá en Gillian Haworth stjórnaði kórnum í þeirri ferð en Ágúst Ármann var undirleikari þar. Líkt og áður hitaði kórinn upp með nokkrum tónleikum á Austurlandi og svo í Fella- og Hólakirkju.

Snælandskórinn mun ekki hafa komið saman eftir þá ferð og lýkur sögu kórsins því sumarið 2005.