Snæfríður og stubbarnir (1988-98 / 2004)

Snæfríður og stubbarnir

Snæfríður og stubbarnir var hljómsveit úr Þorlákshöfn sem sérhæfði sig í írsk-ættaðri þjóðlagatónlist og annars konar þjóðlögum einnig en laumaði inn á milli stöku frumsömdu lagi (og textum) sem svo má heyra á tveimur safnplötum þar sem sveitin kom við sögu.

Hljómsveitin mun hafa átt rætur sínar að rekja til Lúðrasveitar Þorlákshafnar en innan hennar var sveitin sett saman sem skemmtiatriði á árshátíð árið 1988. Skemmtiatriðið tókst það vel að ákveðið var að halda áfram með sveitina og gekk hún í fyrstu undir nafninu Snæfríður og sníparnir. Þegar sveitin hafði starfað um tveggja ára skeið og farin að koma fram á krám eins og Fógetanum í Reykjavík þótti tímabært að breyta um nafn og gekk hún eftir það undir nafninu Snæfríður og stubbarnir og var auglýst sem sönghópur sem sveitin vissulega var en um leið einnig hljómsveit. Meðlimir sveitarinnar voru þau Hermann Jónsson mandólín- og gítarleikari, Torfi Áskelsson gítarleikari, Rúnar Jónsson bassaleikari og Sigríður Kjartansdóttir flautuleikari sem lék reyndar á margar tegundir flauta. Öll sungu þau sem fyrr er getið og léku auk þess á fjölda ásláttarhljóðfæra. Ekki eru heimildir um að aðrir hafi komið við sögu sem meðlimir sveitarinnar.

Snæfríður og stubbarnar, sem einhver benti á að hefði augljósa skírskotun til Mjallhvítar og dverganna, lék töluvert mikið á árunum 1990 til 92 og þá mest á Fógetanum við miklar vinsældir þar sem þau voru eins konar húshljómsveit um tíma enda var bjórinn þarna tiltölulega nýkominn til sögunnar og írska stemmingin eftir því, en einnig léku þau í Ölkjallaranum, Duus húsi, Púlsinum og víðar en mest af því er virðist á höfuðborgarsvæðinu. Líklegt hlýtur þó að teljast að sveitin hafi einnig leikið í heimabænum Þorlákshöfn og nágrannabyggðalögum á þessum tíma.

Snæfríður og stubbarnir á sviði

Síðsumars 1992 kom út safnplata sem nokkrir trúbardorar og hljómsveitir í þessum geira sendu frá sér í sameiningu, hún bar nafnið Á kránni og þar áttu Snæfríður og stubbarnir þrjú lög, tvö írsk þjóðlög með íslenskum textum og svo eitt frumsamið. Útgáfutónleikar voru haldnir í Gerðubergi í Breiðholti um haustið en fljótlega eftir það auglýsti sveitin sitt síðasta kvöld, það var á Fógetanum en þá höfðu þau ákveðið að hætta störfum. Um það leyti kom út enn eitt lagið með sveitinni, írskt þjóðlag með íslenskum texta á safnplötunni Lagasafnið 2.

Þrátt fyrir yfirlýsingar þess efnis að Snæfríður og stubbarnir væru hætt var það ekki svo því um sumarið 1993 birtist sveitin á nýjan leik og spilaði á Cafe Amsterdam og svo um haustið á Fógetanum, á bjórhátíð á Akureyri, í Vestmannaeyjum og víðar. Í framhaldinu starfaði sveitin fram í nóvember 1998, reyndar ekki alveg samfellt því hún átt til að hverfa í nokkra mánuði inni á milli. Sveitin spilaði sem áður mest á Fógetanum en einnig á fleiri stöðum, mest þó þar sem írsk kráarstemming var fyrir hendi. Haustið 1998 söng sveitin sitt síðasta eftir tíu ára samstarf.

Sögu Snæfríðar og stubbanna var þá reyndar ekki alveg lokið því snemma árs 2004 birtist sveitin á nýjan leik eftir langt hlé og lék á Cafe Rósenberg, og e.t.v. spilaði hún víðar það ár en það hefur þá ekki verið mikið.