Snæfellingakórinn í Reykjavík (1978-2004)

Snæfellingakórinn í Reykjavík

Snæfellingakórinn í Reykjavík starfaði í liðlega aldarfjórðung en kórinn var að mestu skipaður brottfluttum Snæfellingum og fólki sem átti þangað ættir að rekja.

Hugmynd kom upp snemma árs 1978 um að stofna blandaðan söngkór innan Félags Snæfellinga og Hnappdæla í Reykjavík, en það var átthagafélag brottfluttra Snæfellinga á höfuðborgarsvæðinu og hafði verið starfrækt síðan fyrir stríð. Kórinn var stofnaður í mars og hlaut nafnið Kór Snæfellingafélagsins í Reykjavík.

Fyrsti stjórnandi kórsins var hinn gamalreyndi Jón Ísleifsson og má segja að hann hafi lagt grunninn að starfi kórsins. Hann stjórnaði kórnum fyrstu árin en Bára Grímsdóttir tók við af honum og stjórnaði í eitt ár áður en Krystyna Cortes kom að honum. Þá tók Friðrik S. Kristinsson við kórstjórninni haustið 1985 en hann var fæddur og uppalinn í Stykkishólmi og hafði því tengingu við Snæfellingafélagið, um það leyti hafði nafni kórsins verið breytt í Snæfellingakórinn í Reykjavik. Yfirleitt var kórinn skipaður á milli þrjátíu og fjörutíu manns á öllum aldri en kvenfólk var þar í miklum meirihluta og var í nokkur skipti auglýst eftir karlröddum í dagblöðum. Efnisskrá Snæfellingakórsins var mjög blönduð og söng hann efni frá ýmsum tímum og af ýmsum toga, bæði léttmeti og trúarlega tónlist.

Friðrik stjórnaði Snæfellingakórnum næstu árin utan þess að Þóra Guðmundsdóttir leysti hann af einn vetur, og reis sól kórsins hvað hæst undir hans stjórn. Þó er það svo að erfitt er að halda kórastarfi slíks átthagafélags lengi því kynslóðaskipti eiga sér stað í slíkum hópi og eftir því sem nýtt fólk tekur við rofna tengslin við upprunann og því bæði fækkaði smám saman í hópnum og um leið fækkaði raunverulegum Snæfellingum einnig. Því fór að lokum að kórinn var lagður niður snemma árs 2004 en sama haust var stofnaður nýr kór á grunni þess gamla undir nafninu Samkór Reykjavíkur og hafði sá kór engin tengsl við Snæfells- og Hnappadalssýslu.

Snæfellingakórinn hafði sína föstu punkta í kórastarfinu og voru vortónleikar og jóla- og aðventutónleikar fastir liðir, þá fór kórinn oft í tónleikaferðir á Snæfellsnesið og söng þá yfirleitt í Stykkishólmi, einnig söng kórinn nokkuð á höfuðborgarsvæðinu en aðeins eru heimildir um eina söngferð innanlands annað en á Snæfellsnesið, þá hélt kórinn nokkra tónleika á Vestfjörðum. Snæfellingakórinn fór hins vegar tvívegis í kórferðalög erlendis, til Noregs árið 1990 og til Ungverjalands og Austurríkis (og e.t.v. fleiri landa) árið 1997.

Þrátt fyrir að hafa starfað í rúmlega tuttugu og fimm ár kom aldrei út plata með Snæfellingakórnum og ekki liggur fyrir hvort einhvers staðar leynist upptökur með kórnum.