So what (1995-97)

So what

So what var djassband sem starfaði undir lok síðustu aldar, sveitin var að öllum líkindum FÍH-band en hún sérhæfði sig í tónlist frá árunum 1930-60.

So what var stofnuð árið 1995, líklega um haustið og fljótlega hóf hún að leika fyrir matargesti og fyrir dansi á Hótel Borg þar sem hún kom oftast fram, en einnig lék hún á Kaffi Reykjavík, Gauki á Stöng, Astró, Kringlukránni og víðar. Sveitin fór einnig norður á Akureyri í eitt skipti að minnsta kosti. So what komst á síður blaðanna þegar Harold Burr söngvari The Platters, sem var matargestur á Hótel Borg, steig á svið og tók lagið með sveitinni en hann var hérlendis um tíma um þetta leyti.

Sveitina skipuðu í byrjun þeir Pétur Valgarð Pétursson gítarleikari, Þorsteinn Pétursson saxófónleikari, Sigfús Höskuldsson trommuleikari og Jón Þorsteinsson bassaleikari en fljótlega bættist söngkonan Friðborg Jónsdóttir í hópinn. Einhverjar mannabreytingar urðu á So what árið 1997, en þá munu Gunnar Reynir Þorsteinsson trommuleikari og Birgir Thorarensen bassaleikari hafa verið í sveitinni.

So what starfaði að minnsta kosti fram yfir Menningarnótt síðsumars 1997.