Karlakórinn Ernir [3] (1936-44)

engin mynd tiltækKarlakórinn Ernir hinn reykvíski, á sér um átta ára sögu en kórinn starfaði á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.

Upphaflega var kórinn settur saman fyrir skemmtiatriði á skemmtun innan Strætisvagna hf. en Ólafur Þorgrímsson forstjóri fyrirtækisins hafði forgöngu um það atriði.

Ólafur sá sjálfur um að stjórna kórnum og mæltist söngurinn það vel fyrir á skemmtuninni að ákveðið var að halda áfram með kórinn, þetta hefur sjálfsagt verið einn fyrsti starfsmannakór sem var starfræktur hérlendis.

Þegar Ólafur hætti með með kórinn tók Jón Ísleifsson við honum og gaf honum nafnið Karlakórinn Ernir en kórinn hafði fram að því verið nafnlaus, í mesta lagi gengið undir nafninu Karlakór strætisvagnabílstjóra. Þess má geta að Jón hafði áður stjórnað öðrum kór undir sama nafni fáeinum árum fyrr í Hafnarfirði.

Jón Ísleifsson stjórnaði Karlakórnum Örnum til 1940 en þá fyrst var kórinn formlega stofnaður þegar nýr stjórnandi tók við, það var Jóhann Tryggvason.

Jóhann stýrði öðrum kór um það leyti, stúlknakórnum Svölunum, og stofnaði upp úr honum Samkór Reykjavíkur sem Ernir hófu samstarf við, með tónleikahaldi.

Svo fór að lokum að Karlakórinn Ernir gekk til liðs til samkórinn en var um leið sjálfstæð eining utan hans. Þannig störfuðu Ernir til lýðveldisársins 1944 þegar kórinn sameinaðist Samkór Reykjavíkur endanlega og lagði upp laupana sem sjálfstæður kór.