Karlakórinn Feykir (1961-70)

engin mynd tiltækKarlakórinn Feykir starfaði í um áratug á síðustu öld og ber vitni um blómlegt tónlistarlíf og ríka sönghefð í Skagafirðinum en um tíma voru þar þrír karlakórar starfandi samtímis.

Feykir var stofnaður í febrúar 1961 í sveitunum austan megin Skagafjarðar og voru stofnmeðlimir kórsins um tuttugu. Meðlimum kórsins átti þó eftir að fjölga um helming en um fjörutíu manns skipuðu kórinn tveim árum síðar.

Árni Jónsson frá Víðimel var fyrsti stjórnandi Karlakórsins Feykis og hafði þann starfa þar til veikindi settu strik í reikninginn hjá honum að öllum líkindum 1966, hann átti ekki afturkvæmt. Ingibjörg Steingrímsdóttir hljóp undir bagga um tíma og síðan Magnús H. Gíslason. Hvorugt þeirra staldraði lengi við og Árni Ingimundarson á Akureyri tók við stjórn kórsins haustið 1967.

Árni Ingimundarson var við stjórnvölinn næstu árin og hafði einnig þann starfa að stjórna karlakórnum Heimi. Kórarnir tveir störfuðu stundum saman og svo hlaut að koma að því að þeir voru sameinaðir undir Heimis-nafninu enda hafði sá kór starfað miklu lengur. Það var árið 1970.

Karlakórinn Feykir söng mestmegnis á heimaslóðum og var fastur gestur á Sæluviku Skagfirðinga sem haldin hefur verið þar nyrðra síðan snemma á síðustu öld. Feykir gekk til liðs við Heklu, samband norðlenskra karlakóra árið 1962 og átti tvö lög á plötunni Söngfélagið Hekla: Raddir að norðan, sem gefin var út af Fálkanum 1965.