Karlakórinn Svanir [1] (1915-80)

Karlakórinn Svanir

Karlakórinn Svanir

Karlarkórinn Svanir á Akranesi var sá kór hérlendis sem hvað lengst hefur starfað en hann starfaði nær samfellt í sextíu og fimm ár á síðustu öld. Sögu kórsins er þó ekki lokið því hann var endurreistur haustið 2013 og lifir ágætu lífi í dag.

Litlar heimildir er að finna um kórinn frá fyrstu árum hans, þó liggur fyrir að hann var stofnaður haustið 1915 undir heitinu Söngfélagið / Söngfjelagið Svanir og reyndar gekk hann undir því nafni fyrstu áratugina.

Það mun hafa verið Ólafur Finsen héraðslæknir á Akranesi sem var aðalhvatamaðurinn að stofnun Svana. Petra Guðmundína Sveinsdóttir frá Mörk varð fyrsti stjórnandi kórsins og stýrði honum fyrstu tvö árin en það mun hafa verið einsdæmi að kona stjórnaði karlakór á þessum tíma, sem voru reyndar ekki ýkja margir 1915.

Kórinn kom fyrst fram á tónleikum á öðrum degi jóla þetta sama ár og var fremur fámennur í upphafi en þá voru aðeins tugur söngmanna í honum.

Ólafur B. Björnsson varð næsti stjórnandi Söngfélagsins Svana. Hann átti eftir að stýra kórnum í gegnum ýmsa erfiðleika en starfið var ekki alveg samfellt á þessum árum. Ýmislegt kom þar til, spænska veikin kom til sögunnar 1918 og lamaði lengi allt daglegt atvinnu- og menningarlíf á Skaganum eins og annars staðar á landinu. Einn kórmeðlima varð veikinni að bráð.

Árin 1932-34 lá starfið niðri einnig af einhverjum ástæðum og e.t.v. oftar í stjóratíð Ólafs. Hann var stjórnandi kórsins allt til 1937 þegar hann lét af störfum þá eftir tuttugu ára starf.

Erfitt gekk næstu árin að manna stöðu kórstjórnanda en næstur í röð kórinni var Theódór Árnason, oft titlaður fiðluleikari. Hann mun hafa verið með kórinn í tvö ár og síðan Ingi T. Lárusson tónskáld sem þá var á Akranesi en ekki er ljóst hvernig starfi kórsins var háttað á þeim árum, líklega var ekki um samfleytt kórastarf að ræða en vitað er að 1943 lagðist það alveg niður þar sem ekki gekk að fá nýjan stjórnanda.

Í þeirri pásu tóku nokkrir kórmeðlimir sig til ásamt fleirum og stofnuðu nýjan karlakór, sá hlaut nafnið Karlakór Akraness [2] en Svanir höfðu reyndar stundum einnig gengið undir því nafni, óformlega þó.

Sumarið 1945 kom þó að því að menn skyldu endurreisa Söngfélagið Svani eftir tveggja ára hlé, ljóst var strax að ekki gætu tveir karlakórar þrifist í svo litlu bæjarfélagi svo Karlakór Akraness sameinaðist Söngfélaginu Svönum, sem þá notaði tækifærið og breytti nafni sínu formlega í Karlakórinn Svanir.

Karlakórinn Svanir 1953

Karlakórinn Svanir 1953

Helgi Þorláksson kennari var nú ráðinn stjórnandi kórsins og var nokkuð blásið til sóknar, eftir sameiningu kóranna raddprófaði Sigurður Birkis söngmálastjóri þjóðkirkjunnar kórmeðlimi og Þórður Kristleifsson þjálfaði hann. Á þeim tímapunkti voru um þrjátíu og fimm manns í kórnum. Ekki virðist þetta hafa dugað til því aðeins ári síðar auglýst var eftir nýjum stjórnanda.

Geirlaugur Árnason kom næstur inn sem stjórnandi Karlakórsins Svana. Starfið gekk greinilega upp og niður næstu árin, 1949 hafði fækkað í kórnum og voru þá aðeins tuttugu og fimm í honum en tveim árum síðar voru þeir aftur komnir upp í þrjátíu og sjö. Geirlaugur hafði með stjórn kórsins að gera allt til 1960 utan þess að Magnús Jónsson var við stjórnvölinn 1955 og 56.

Í stjóratíð Geirlaugs stofnuðu eiginkonurnar félagsskapinn Bergþóru en Bergþórurnar var eins konar kvenfélag sem stóð fyrir ýmis konar fjáröflunarsamkomum fyrir kórinn, og þegar kórinn tók í gagnið félagsheimili áttu þær ekki lítinn þátt í að koma því í nothæft stand.

Haukur Guðlaugsson orgelleikari og síðar skólastjóri tónlistarskólans á Akranesi tók við stjórn Karlakórsins Svana í kringum 1960 og árið 1965 hélt kórinn upp á hálfrar aldar afmæli sitt. Afmælið var haldið með pompi og prakt og fjölmiðlar landsins voru duglegir að vekja athygli á því. Þar vakti ekki athygli hvað síst sú staðreynd að einn meðlimur kórsins, Jón Sigmundsson hafði verið í kórnum frá upphafi – í fimmtíu ár.

Um þetta leyti er talað um að starf kórsins hafi risið hvað hæst, kórinn hlaut hvarvetna frábæra dóma undir stjórn Hauks og var af mörgum talinn með bestu karlakórum landsins.

Veturinn 1966-67 var ófremdarástand á Skaganum og víðar, atvinnulífið var í molum og fluttist fólk í hópum frá staðnum, margir unnu við smíði virkjana á hálendinu og voru tímabundið frá, og við þessar aðstæður sköpuðust erfiðar aðstæður fyrir menningarlíf, hvað þá starfsemi karlakórs.

Karlakórinn Svanir 1976

Svanir 1976

Næsta haust fór þó söngstarfið aftur í gang þó með nokkurri endurnýjun meðal kórmeðlima. Um þetta leyti kom út lítil en þó sjö laga hljómplata á vegum Fálkans, með söng kórsins. Sú útgáfa hlaut afar litla athygli fjölmiðla, hugsanlega hafði hún verið tekin upp áður en kórastarfið lá niðri, og komið út á þeim tíma.

Lítið fór fyrir söngstarfinu á næstu árum, Haukur lét af störfum vorið 1976 og fram til 1980 var sönglífið laust í reipunum, stöðugt var verið að skipta um kórstjóra og svo fór að lokum að starf kórsins lagðist af vorið 1980. Þá höfðu Guðmunda Elíasdóttir söngkona, Jón K. Einarsson og Matthías Jónsson annast söngstjórnina frá 1976, hugsanlega enn fleiri.

Þar með var endi bundinn á sextíu og fimm ára karlakórastarf á Skaganum í bili.

Þrír áratugir liðu og ríflega það reyndar en þá kom út saga kórsins í bóka- og plötuformi (árið 2011). Pakkinn bar heitið Karlakórinn Svanir frá Akranesi, og hafði að geyma bók með ágripi af sögu kórsins auk tveggja platna með upptökum frá ýmsum tímum, en Hreinn Valdimarsson tæknimaður og Haukur Guðlaugsson fyrrverandi stjórnandi kórsins höfðu unnið með upptökur úr fórum Ríkisútvarpsins. Svavar K. Garðarsson hafði haft frumkvæðið að þessari útgáfu.

Karlakórinn Svanir var í kjölfarið endurreistur 2013 og má áreiðanlega þakka því útgáfu sögu kórsins.

Efni á plötum