BG og Ingibjörg (1955-95)

BG kvintettinn

BG kvintettinn

Þegar talað er um hljómsveitina BG og Ingibjörgu frá Ísafirði er eiginlega um að ræða nokkrar sveitir, allar þó undir stjórn Baldurs Geirmundssonar, starfandi um fjörtíu ára skeið.

Upphafið má rekja til tríósins BKB sem ku hafa verið fyrsta hljómsveitin sem Baldur starfrækti. Það var nokkru fyrir 1960, líklega um miðjan sjötta áratuginn.
Upphaflegu meðlimir sveitarinnar voru auk Baldurs sem lék á harmonikku og síðar einnig á saxófón, Bæring Jónsson trommuleikari og Karl Einarsson píanó- og harmonikkuleikari en Karl Geirmundsson (síðar gítarleikari og bróðir Baldurs) tók síðar við af Bæring við trommurnar. Þess vegna hét tríóið KBK um tíma.

Gunnar Hólm Sumarliðason söngvari og trommuleikari kom síðar til sögunnar og þá hafði líklega Hálfdan Hauksson bassaleikari einnig slegist í hópinn og gekk þá sveitin orðið undir nafninu BG kvintettinn og Gunnar Hólm. Margrét Gísladóttir söng einnig með sveitinni um tíma sem og Kristinn Sigurjónsson.
Nafni sveitarinnar var breytt í BG og Árni þegar Árni Sigurðsson (Árni Búbba) tók við sönghlutverkinu, þá var Kristinn Friðbjarnarson bassaleikari í sveitinni, söng Árni með henni í um þrjú ár en Ingibjörg G. Guðmundsdóttir kom þá til sögunnar, Árni tók að sér umboðsmannahlutverkið í staðinn en Ingibjörg átti eftir að verða þekktust söngkvenna á Vestfjörðum enda kannast flestir við hljómsveitarnafnið BG og Ingibjörg eins og sveitin hét orðið þá.

Bandið var þegar þarna var komið sögu skipað þeim Baldri, Ingibjörgu, og Karli en Gunnar Hólm var þarna orðinn trommuleikari sveitarinnar, Samúel Einarsson bassaleikari og Kristinn Hermannsson orgelleikari. Þannig skipuð tók sveitin upp fyrstu plötuna í Ríkisútvarpinu undir stjórn Péturs Steingrímssonar, tveggja laga plötu (Þín innsta þrá / Mín æskuást) sem Svavar Gests (SG-hljómplötur) gaf út 1970. Fyrrnefnda lagið hafði sveitin flutt um árabil með ítölskum texta en lagið er upprunalega ítalskt, Jóhanna Erlingsdóttir samdi íslenskan texta við það og naut það mikilla vinsælda, gerði sveitina landsfræga og var töluvert spilað í Ríkisútvarpinu. Platan fékk ennfremur ágæta dóma í tímaritinu Vikunni og þokkalega í Vísi og Morgunblaðinu.

BG og Árni

BG og Árni

Í kjölfarið kom út önnur tveggja laga plata árið eftir með lögunum Fyrsta ástin og Við höfum það gott, og aftur ári síðar (1972) kom út lítil plata með lögunum Komdu aftur og Á meðan sólin sefur. Báðar þær plötur voru gefnar út af SG-hljómplötum eins og sú fyrsta og fengu góðar viðtökur, þó ekki eins og sú fyrsta.

Lengst af starfaði sveitin fullmönnuð aðeins á sumrin en var smærri á veturna, jafnvel aðeins tríó og þannig urðu töluverðar mannabreytingar í sveitinni milli árstíða. Á sumrin spilaði sveitin iðulega um land allt, bæði á vinsælustu ballstöðunum og mannfærri plássum en á veturna var aðal áherslan lög á heimabyggðirnar.

1974 komu síðan út tvö lög með sveitinni á safnplötunni Hrif en þau nutu mikilla vinsælda, einkum lagið Góða ferð. Hitt lagið, Hæ Gudda, gættu þín, varð einnig vinsælt en þó ekki í líkingu við hið fyrrnefnda.

Tveimur árum síðar kom síðan út eina stóra plata sveitarinnar, Sólskinsdagur, en Steinar gáfu plötuna út. Þetta var tólf laga plata með lögum úr ýmsum áttum en Jónas Friðrik orti flesta textana. Hún var gefin út í um þrjú þúsund eintökum og seldist ágætlega. Hún hlaut góða dóma í Tímanum. Þegar platan kom út höfðu þeir Ólafur Guðmundsson söngvari og gítarleikari og Rúnar Vilbergsson trommuleikari bæst í hópinni.

Ingibjörg hætti í sveitinni 1978 og tók Svanfríður Arnórsdóttir við sönghlutverkinu en einnig hafa Ásthildur Cesil Þórðardóttir, Reynir Guðmundsson og Margrét Geirsdóttir sungið með sveitinni um skemmri tíma, einnig voru lausráðnir söngvarar ráðnir tímabundið eins og Ingibjörg Jónsdóttir, Óðinn Valdimarsson og Þuríður Sigurðardóttir en það á einkum við um fyrri hluta æviskeiðs sveitarinnar. Um tíma voru tvær söngkonur og gekk þá sveitin yfirleitt undir nafninu BG-flokkurinn, undir því nafni starfaði sveitin reyndar þar til hún hætti um miðjan tíunda áratuginn en hún hafði þá starfað í um fjörtíu ár.

BG flokkurinn

BG flokkurinn

Sveitin hafði ekki endanlega gefið upp öndina því að haustið 2010 kom út ný plata með henni, ekki liggja þó fyrir miklar upplýsingar um þá útgáfu, skipan sveitarinnar eða annað sem viðkemur henni.

Tugir hljóðfæraleikara hafa farið í gegnum hljómsveitina en aðeins þeir bræður Baldur og Karl, hafa verið alla tíð. Meðal annarra sem ekki hafa verið nefndir hér að ofan má nefna Erling Gunnarsson, Björn Finnbjarnarson, Þórarinn Gíslason, Theódór [?], Ásgeir [?], Hálfdan Ingólfsson, Skarphéðinn Hjartarson, Pétur Pálsson, Guðmundur Marinósson, Frank Herlufsen, Magnús Þórðarson og Svanberg Jakobsson.

Lög sveitarinnar hafa notið nokkurra vinsælda í gegnum tíðina en nokkur þeirra hafa komið út á safnplötum, má þar nefna Aftur til fortíðar 60-70 I, Aftur til fortíðar 70-80 II, Endurminningar, 100 íslenskar ballöður á 5 geislaplötum, Óskalögin 3, Rökkurtónar, Stjörnuplata 1, Stóra bílakassettan IV, Stóra bílakassettan VIII og áðurnefnda Hrif.

Það má segja að BG og Ingibjörg hafi borið höfuð og herðar yfir aðrar hljómsveitir á Vestfjörðum frá miðjum sjötta áratugnum og fram á þann níunda, blómaskeið hennar ver áttundi áratugurinn og þótt tónlistarstraumar og -stefnur hafi haft viðkomu á Vestfjörðum með tilheyrandi fjaðrafoki þá stóð BG og Ingibjörg af sér allt slíkt með sinni sérstöðu, sínu sándi og lögum sem enn lifa ágætu lífi.

Efni á plötum