Blómin tala

Blómin tala
(Lag og texti: Ármann Guðmundsson)

Ég burkni er af bestu og stærstu sort
og ber af öllum plöntum eins og sést.
Ég hvorki fer með gamanmál né gort
en get á spretti hlaupið uppi hest.

Iss þetta er nú ekkert, ég þekkti eitt sinn rós
sem þaut bæði um loftið og lengi var til sjós.
Og stjúpa sem ég veit um stóð gjarnan á haus
en steinhætti því reyndar þegar eitt sinn föst hún fraus.

En ég er grænni en allt sem grænleitt telst
og gríðarlega vex ég hratt og vel.
Já þúsund kosti hef en þessa helst:
Þakklæti og hógværð, vinarþel.

Tæpast þetta er fréttnæmt, ég túlipana veit
sem taumlaust getur dansað, já og jarmað eins og geit.
Og orkideu hitti sem að öskrar eins og ljón
og á fingri hverjum hefur bílstjóra og þjón.
 
[af plötunni Snæfríður og Stígur – Undarlegt hús: Tónlist úr Stundinni okkar 2006 – 2007]