Snarl [2] [safnplöturöð] (1987-)

Gunnar L. Hjálmarsson með fyrstu Snarl kassettuna

Snarl serían vakti töluverða athygli á síðari hluta níunda áratugar síðustu aldar en þar var um að ræða útgáfu á jaðartónlist á kassettuformi, til að gefa svokölluðum underground tónlistarfólki tækifæri til að komast upp á yfirborðið og jafnframt til höfuðs FM-poppinu svokallaða sem þá var komið til skjalanna. Það var tónlistarmaðurinn Gunnar L. Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni sem gaf Snarl út undir útgáfumerkinu Erðanúmúsík en sú útgáfa hefur staðið fyrir útgáfu á hvers kyns menningarefni – þó mest tónlist. Kosturinn við slíka útgáfu var hve ódýr hún var í framleiðslu og því var hægt að selja afurðirnar ódýrt einnig.

Kassettan Snarl var fyrsta útgáfan í seríunni og kom út sumarið 1987 en á þeirri kassettu áttu sex hljómsveitir þrjú lög hver, samtals átján lög. Snarl fór í almenna dreifingu og upplagið, 150 eintök seldust upp á fáeinum dögum svo pantað var annað eins upplag sem seldist einnig fremur hratt. Alls höfðu um 500 eintök selst undir lok árs en þá hafði einnig Snarl II: Veröldin er veimiltíta!, litið dagsins ljós en hún hafði að geyma þrjátíu lög með fimmtán flytjendum. Þess má geta að undirtitill þeirrar kassettu kemur úr Tinnabókinni Leynivopnið en þar mælir tryggingasölumaðurinn Flosi Fífldal þessi fleygu orð – veröldin er veimiltíta! Jákvæðir dómar birtust um fyrri kassettuna í DV og Þjóðviljanum og Morgunblaðið gerði báðum kassettunum hátt undir höfði í uppgjöri sínu um áramót. Hljómsveitirnar sem komu við sögu á kassettunum nýttu jafnframt meðbyrinn og margar þeirra voru duglegar í tónleikahaldi veturinn 1987-88.

Fleiri en fengu vildu vera með á Snarli II (sem hafði selst í um 300 eintökum) og reiknað var því með að stutt yrði í útgáfu þriðju Snarl kassettunnar, af því varð þó ekki þar sem útgefandanum fannst Smekkleysa að nokkru leyti hafa tekið við keflinu með útgáfu jaðartónlistar. Það varð því bið á útgáfu næstu kassettu en hún kom svo út haustið 1991 undir titlinum Snarl 3: Þetta er besta spólan sem ég á! Á henni var að finna tuttugu og sex lög með jafnmörgum flytjendum, mestmegnis hljómsveitum en einnig einstaklingum, hún hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Tuttugu og þrjú ár liðu þar til fjórða Snarlið kom út en kassettuformið var þá löngu farið úr tísku og reyndar komið aftur í tísku, Snarl 4: Skært lúðar hljóma kom reyndar út á geisladiskaformi en til að heiðra sögu Snarl-kassettanna voru einnig gefin út sjö tölusett eintök á kassettum. Hún innihélt tuttugu og fimm lög og flytjendur, allt saman nýtt efni en reyndar væru ýkjur að segja flytjendurna hluta af einhverri jaðar- eða neðanjarðarsenu því margir þeirra voru allþekktir.

Það er því hæpið að segja að sögu Snarl safnútgáfanna sé lokið, hins vegar er erfitt að segja til um hvenær sú næsta kemur út.

Efni á plötum