Afmælisbörn 20. júní 2022

Atli Sigþórsson

Fimm afmælisbörn koma við sögu í dag:

Ágústa (Aðalheiður) Ágústsdóttir sópransöngkona frá Þingeyri er áttatíu og fimm ára gömul í dag. Hún nam söng og fiðluleik hér heima og í Þýskalandi, hefur haldið tónleika á Íslandi og erlendis en hefur starfað mestmegnis hér heima, hún stjórnaði m.a. Samkór Ísafjarðarsýslu á sínum tíma. Eftir Ágústu liggur ein plata, Íslensk og norræn sönglög, sem kom út árið 1990.

Gítarleikarinn Sævar Árnason er sjötíu og fjögurra ára gamall í dag en fáir hafa leikið með jafn mörgum hljómsveitum og hann. Hér er sýnishorn af þeim aragrúa sveita; Pops, Ástarkveðja, Stofnþel, Ópus, Acropolis, Á rás 1, Reykjavík, Venus, Ultra, Experiment, Babylon og Action.

Sigríður Ella Magnúsdóttir söngkona og söngkennari er sjötíu og átta ára gömul í dag. Hún nam sönglistina hér heima og í Austurríki og hefur starfað víðs vegar um lönd, sungið sem einsöngvari bæði með kórum og ein og sér, sungið óperuhlutverk, gefið út nokkrar sólóplötur og sungið auk þess á fjölda platna annarra listamanna.

Rapparinn Kött grá pjé eða bara Atli Sigþórsson frá Akureyri sem sló í gegn á sínum tíma með sumarsmellinn Aheybaró er þrjátíu og níu ára gamall í dag. Hann hefur einnig sent frá sér lög í samstarfi við aðra rappara en hefur síðustu árin einbeitt sér að textaskrifum og liggja eftir hann nokkrar útgefnar bækur.

Helgi Júlíusson (1918-94) úrsmiður og söngvari á Akranesi átti einnig þennan afmælisdag en hann var einn þeirra söngvara sem skipuðu sönghópinn Skagakvartettinn á árunum 1969-94. Skagakvartettinn gaf út plötu 1976 sem naut mikilla vinsælda á sínum tíma og muna margir lögum eins og Umbarassa, Skagamenn skoruðu mörkin og Ríðum ríðum, í flutningi kvartettsins. Helgi söng einnig með karlakórnum Svönum.

Vissir þú að SSSól kom eitt sinn fram í Bretlandi undir nafninu Sex puffin?