Sigríður Ella Magnúsdóttir (1944-)

Sigríður Ella á forsíðu Vikunnar

Segja má að óperusöngkonan Sigríður Ella Magnúsdóttir sé meðal þeirra allra fremstu sem tilheyra annarri kynslóð óperusöngvara hér á landi, hún hefur búið í Bretlandi lungann úr starfsævi sinni en hefur heimsótt heimaslóðir með reglubundnum hætti og reyndar átt hér heimili síðustu árin.

Sigríður Ella Magnúsdóttir mezzósópran fæddist í Reykjavík sumarið 1944, elst fimm systkina og byrjaði mjög ung að syngja, hún var í barnakór við Laugarnesskóla undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar og var svo einnig í kór hjá honum sem varð eins konar vísir að Pólýfónkórnum. Hún lærði jafnframt á fiðlu á bernskuárum sínum og lék þá m.a. með fiðlusveit Laugarnesskóla, samhliða þátttöku í ýmsum íþróttum.

Eiginlegt söngnám Sigríðar Ellu hófst er hún var um tólf ára gömul og ári síðar söng hún í fyrsta sinn opinberlega, söngkennarar hennar hér heima voru þau Guðrún Sveinsdóttir, Sigurður Demetz, María Markan og Einar Kristjánsson en hún nam einnig tónfræði á unglingsárum sínum. Að loknu stúdentsprófi fór hún til Vínarborgar í framhaldsnám í söng, lærði þar óperu-, óratoríu- og ljóðasöng auk þess að leggja stund á söngkennaranám, samhliða náminu kenndi hún söng á síðari hluta námstíma síns en hún lauk námi 1975. Auk námsins í Austurríki var hún um skamma hríð einnig á Ítalíu.

Á námsárum sínum kom Sigríður Ella hingað heim í nokkur skipti og söng þá eitthvað opinberlega á tónleikum s.s. á vegum Tónlistarfélagsins (þar sem hún söng ásamt Má Magnússyni fyrri eiginmanni sínum) en einnig söng hún á þessum árum sitt fyrsta óperuhlutverk þegar hún tók þátt í umdeildri uppfærslu á Brúðkaupi Fígarós í Þjóðleikhúsinu um jólin 1969. Þá fór hún jafnframt víða um Evrópu, tók m.a. þátt í norrænni söngkeppni í Finnlandi og var um tíma í tólf manna alþjóðlegum hópi söngvara sem fór um álfuna og flutti tónlist af ýmsu tagi.

Sigríður Ella Magnúsdóttir

Árið 1974 leit svo fyrsta hljómplata Sigríðar Ellu dagsins ljós, hún kom út á vegum SG-hljómplatna og bar titilinn Fjórtán sönglög eftir fjórtán íslenzk tónskáld, á plötunni söng hún við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar píanóleikara en upptökur höfðu farið fram í Austurbæjarbíói undir stjórn Péturs Steingrímssonar haustið 1972.

Eftir námið í Austurríki og Ítalíu tók hinn eiginlegi starfsferill við og er varla hægt að segja annað en að hann sé glæsilegur, Sigríður Ella fluttist til Bretlands til að freista gæfunnar en hún hafði þá kynnst seinni eiginmanni sínum, Bretanum Simon Vaughan og gerðu þau sér heimili við útjaðar London þar sem þau hafa að mestu búið síðan en þó með annað heimili á Íslandi þar sem þau hafa stundum dvalið í fríum sínum og tengt verkefnum hennar hér á landi. Síðustu árin eða frá árinu 2012 hafa þau hjónin búið mestmegnis á Íslandi.

Sigríður Ella hefur sungið fjölmörg óperuhlutverk en framan af starfsævi sinni starfaði hún nokkuð hér heima, áður er nefnd frumraun hennar á því sviði í Brúðkaupi Fígarós en 1975 söng hún aðal hlutverkið í Carmen í Þjóðleikhúsinu, hún hefur einnig sungið hér í óperum eins og Orfeus og Evridís, Rakaranum í Sevilla, Carmen (aftur), Grímudansleiknum, Aidu, Rigoletto og Il Trovatore svo nokkur dæmi séu nefnd, þá hefur hún einnig sungið óperu- og einsöngshlutverk bæði í óperu- og tónleikauppfærslum s.s. í Samson & Dahliu, Missa Solemnis, Aidu og Nerone, oft með stórum hljómsveitum og kórum á Bretlandseyjum (m.a. Skotlandi og Wales) og víðs vegar um Evrópu (Noregi, Danmörku, Frakklandi, Sovétríkjunum og víðar).

Sigríður Ella

Um tíma var Sigríður Ella með umboðsmann sem útvegaði henni næg verkefni og t.d. landaði hún tvívegis ráðningarsamningi við Covent Garden óperuna og fór víða um lönd, m.a. til Bandaríkjanna og Asíu á hennar vegum, en einnig hefur hún t.d. sungið Fílharmóníuhljómsveit Lundúnaborgar í Royal Albert Hall, í Wigmore Hall og víðar, komið fram á tónleikum ein og með öðrum, á óperuhátíðum, í útvarpi og sjónvarpi – t.d. ásamt Pavarotti og fleiri söngvurum. Hún var meðal óperulistafólks sem kom að Co-Operative Opera Company sem var hugsað fyrir ungt og nýútskrifað tónlistarfólk og til að hjálpa því að stíga fyrstu skrefin í alvöru vinnuumhverfi, þar gegndi hún hlutverki raddþjálfara en hún hefur einnig sinnt almennri söngkennslu í London.

Sigríður Ella hefur unnið til fjölda viðurkenninga og verðlauna á söngsviðinu og má t.d. nefna hér ljóðasöngvakeppni í Bretlandi um miðbik áttunda áratugarins en hér á Íslandi hefur hún t.a.m. hlotið Fálkaorðuna fyrir framlag sitt til sönglistarinnar. Þess má geta að Sigríður Ella hefur gengið undir nafninu Sirry Ella Magnus í Bretlandi en þar var hún jafnframt nokkuð öflug í starfi Íslendinga í London, starfaði með kór Íslendinga þar í borg og var um tíma formaður Íslenska safnaðarins í London.

Sigríður Ella Magnúsdóttir kom mjög reglulega hingað heim til Íslands tengt starfi sínu sem söngkona en einnig vörðu þau hjónin (og fjölskyldan reyndar því þau eiga þrjú börn) frítíma sínum hér á landi. Hún hefur bæði haldið hér einsöngstónleika og einnig sungið með öðrum í stærri verkefnum einkum framan af söngferli sínum en hún vann þá einnig að því að raddþjálfa kóra og kenna söng í meðan hún dvaldi hér, í því samhengi má nefna kóra á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og í Vestmannaeyjum svo dæmi séu nefnd.

Sigríður Ella árið 1986

Meðal söngverkefna hennar hér heima má nefna einsöng með Pólýfónkórnum sem hún hafði þá starfað með á unglingsárum sínum en hún hefur oft sungið með þeim kór á tónleikum bæði hér heima og erlendis, m.a. í Mattheusarpassíunni en einsöng hennar má heyra á nokkrum plötum með kórnum. Þá má nefna einsöng hennar með Þjóðleikhúskórnum og Sinfóníuhljómsveit Íslands í verkinu Cavalleria Rusticana, sem kom svo út á tvöfaldri hljómplötu 1983, einsöng hennar í Stabat Mater með Söngsveitinni Fílharmóníu og Sinfóníuhljómsveit Íslands, einsöng í Sálumessu Mozarts við vígslu Hallgrímskirkju, einsöng með Íslensku hljómsveitinni, í Jólaóratoríu Bachs, með Dómkórnum á Tónlistardögum Dómkirkjunnar og þannig mætti áfram telja. Þá eru ótaldir allir þeir einsöngs- og ljóðatónleikar sem hún hefur sungið á víða um land auk þess sem hún hefur komið fram í ótal skipti í útvarps- og sjónvarpsþáttum í gegnum tíðina, m.a. í sjónvarpsóperunni Vikivaka eftir Atla Heimi Sveinsson sem var hljóðrituð og kvikmynduð og sýnd í sameiginlegri norrænni sjónvarpsútsendingu um páskana 1990. Þess má og geta að Sigríður Ella söng við innsetningu Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forsetaembættisins sumarið 1980 og einnig á tónleikum í London í tilefni af hálfrar aldar afmæli lýðveldisins árið 1994 sem ber nokkurt vitni um stall þann sem hún er komin á.

Nokkuð hægðist á tónleikahaldi hennar undir lok aldarinnar en það má m.a. rekja til veikinda sem hún átti í um tíma en hún hafði þá fengið vírus í raddböndin og tók sinn tíma að greina þau veikindi og vinna úr þeim, í kjölfarið varð hún reyndar sérfróð um slík veikindi og hefur hjálpað mörgu söngfólki sem hefur átt í sömu vandræðum. Hún söng þó á fjölmörgum tónleikum, m.a. á vegum Kaffileikhússins og hefur sungið opinberlega langt fram á þessa öld þótt ekki sé það jafn oft og áður. Hún hefur jafnframt haldið hér söngnámskeið og kennt söng á síðustu árum en þau hjónin fluttu heim til Íslands árið 2012 eftir að Sigríður Ella fór í hjartaaðgerð en þá hafði uppgötvast meðfæddur hjartagalli sem lagaður var með skurðaðgerð, þau hafa búið hér síðan.

Sigríður Ella og Pavarotti

Sigríður Ella hefur sungið inn á fjölda platna eins og ætla mætti og nokkrar hafa komið út í hennar eigin nafni, hér hefur áður verið nefnd platan Fjórtán sönglög eftir fjórtán íslenzk tónskáld (1974) en fleiri plötur hafa komið út með henni – jólaplatan Með vísnasöng kom út árið 1977 en á henni syngja þau hjónin Sigríður Ella og Simon Vaughan íslensk og erlend jólalög ásamt Kór Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar en félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands leika einnig á plötunni sem var hljóðrituð í Háteigskirkju haustið 1977 af Pétri Steingrímssyni. Þau hjónin gáfu plötuna út sjálf undir merkinu Íslenzkar hljómplötur og er hún löngu orðin sígild í íslensku jólahaldi og er hefð fyrir því að leika af henni í dagskrá Ríkisútvarpsins á jólum. Fyrsta upplagið seldist strax upp og annað upplag kom svo ári síðar en platan var svo endurútgefin á geislaplötuformi árið 1997.

Árið 1979 gaf Sigríður Ella út plötuna ABCD en um var að ræða plötu með barnalögum, sungin af henni sjálfri og Garðari Cortes ásamt barnakór úr Mýrarhúsaskóla sem söng undir stjórn Hlínar Torfadóttur. Platan hafði að geyma sígild barnalög en slík plata hafði ekki verið gefin út áður en hún var gefin út í tilefni af ári barnsins, ABCD var svo endurútgefin á geisladiski árið 2006. Á þeim tíma var Sigríður Ella sjálf orðin þriggja barna móðir og um það leyti var því nokkuð erfitt að sameina söngstarfið og barnauppeldi, hún þurfti því ýmist að aflýsa eða fresta verkefnum á tímabili en engu að síður náði hún að koma ótrúlega oft fram á söngsviðinu.

Árið 1981 kom svo út platan „Á vængjum söngsins“ og fleiri lög, en á þeirri plötu söng Sigríður Ella átján lög á sjö tungumálum eftir ýmis tónskáld við undirleik Graham Johnson píanóleikara, þær upptökur höfðu verið gerðar í CBS studios í London og unnar af Mike Ross en platan kom út undir merkjum Íslenzkra hljómplatna og var hugsuð jafnframt fyrir erlendan markað. Hún hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Sigríður Ella Magnúsdóttir

En söng Sigríðar Ellu Magnúsdóttur má heyra á fjölmörgum öðrum plötum sem gefnar hafa verið út í gegnum tíðina, að ofan voru nefndar plötur Pólýfónkórsins en hún hefur einnig sungið á ýmsum öðrum plötum, árið 1975 kom hún við sögu á tveimur plötum, annars vegar á plötu Árna Johnsen, Ég skal vaka…: Árni Johnsen syngur ljóð Halldórs Laxness og hins vegar á plötu með lögum Ingunnar Bjarnadóttur – Amma raular í rökkrinu. Hún var jafnframt meðal einsöngvara sem söng á plötunum Árni Björnsson tónskáld: einsöngs- og kórlög (1980), Tónlist Gunnars Thoroddsen (1983), Söngkveðjur: Lög eftir Sigurð Ágústsson frá Birtingaholti (1983), Út um græna grundu með lögum eftir Skúla Halldórsson (1994), Söngveisla: Ólafur Vignir Albertsson píano og 43 söngvarar (2017) og á plötunum Ljósið loftin fyllir (1988) og Ég leitaði blárra blóma (2000), sem höfðu að geyma lög eftir Gylfa Þ. Gíslason. Söng hennar má einnig heyra á nokkrum safnplötum s.s. Á ljóðatónleikum Gerðubergs II (1991), Óskastunda-seríunni og Íslenskar söngperlur (1994).

Efni á plötum