Stefán Karl Stefánsson (1975-2018)

Stefán Karl Stefánsson

Stefán Karl Stefánsson er með ástsælustu grínleikurum Íslandssögunnar, hann náði alþjóðafrægð í hlutverki sínu sem Glanni glæpur í sjónvarpsþáttunum Latibær (Lazy town) en hér heima lék hann fjölda hlutverka í leikhúsi, sjónvarpi, kvikmyndum o.fl., þar var hann oft í sönghlutverkum en hann átti jafnframt í samstarfi við nokkra tónlistarmenn og gaf m.a.s. út grínplötu.

Stefán Karl fæddist í Hafnarfirði sumarið 1975 og var ungur kominn á svið með Leikfélagi Hafnarfjarðar, hann var síðan farinn að láta til sín taka í leiklistinni löngu áður en hann lauk námi við Leiklistarskóla Íslands 1999, m.a. í áramótaskaupum o.fl. Hann lék ótal og ólík hlutverk á leiksviði og má hér nefna Cyrano, Litlu hryllingsbúðina, Með fulla vasa af grjóti og Gullna hliðið en þekktastur varð hann meðal barna fyrir hlutverk sitt sem Glanni glæpur (Robbie Rotten) í söngleiknum um Latabæ, fyrst á leiksviði en síðan í sjónvarpsþáttum (alls um 80 þættir) sem hlutu alþjóðafrægð og urðu einkar vinsælir. Í kjölfar þess flutti Stefán Karl með fjölskyldu sína vestur um haf til freista gæfunnar og þar sló hann í gegn sem Trölli (The Grinch) þar sem hann lék á mörg hundruð sýningum fyrir jólin á árunum 2007 til 2015, fjölskyldan bjó í Bandaríkjnum um nokkurra ára skeið.

Í hlutverki sínu sem Glanni glæpur söng Stefán Karl ótal lög sem bæði urðu vinsæl og voru gefin út á plötum, þá var hann einnig vinsæll talsetjari í teiknimyndum þar sem hann söng fjölda laga sem náðu hylli, hér má nefna lög eins og Hakuna matata, Í grænum sjó, Við eigum hvor annan að og Kóngur klár sem allir ættu að kannast við. Stefán Karl lék einnig í kvikmyndum og þar ber líklega hæst hvað tónlistina varðar leikur hans og söngur í Regínu en einnig má nefna að hann söng titillagið með Greifunum í kvikmyndinni Jóhannes.

Árið 2009 kom út á vegum Senu plata með Stefáni Karli en hún bar titilinn Í túrett og moll og var unnin í samstarfi við Gísla Rúnar Jónsson og Veigar Margeirsson vestur í Bandaríkjunum. Um var að ræða grínplötu sem reyndar vakti ekki mikla athygli hér heima enda voru þeir félagar þá allir búsettir vestra og höfðu ekki tök á að fylga henni eftir með neinum hætti en hún hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda hér heima.

Stefán Karl í hlutverki Glanna glæps

Söng Stefáns Karls er einnig að finna á nokkrum útgefnum plötum öðrum en hér hafa verið nefndar, hann söng t.a.m. lagið Sigurjón digri ásamt hljómsveitinni Landi og sonum á plötu sem gefin var út til heiðurs Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu en einnig má heyra söng hans á plötum Papa, Stuðmanna og Áka & Starkaðar svo dæmi séu nefnd, þá kom út plata með tónlistinni úr Fólkinu í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson, sem sjónvarpsþættir voru unnir upp úr síðar. Hér má einnig nefna ljóðaplötuna Best að borða ljóð en hún hafði að geyma lög eftir Jóhann G. Jóhannsson við ljóð Þórarins Eldjárn, þá má heyra söng hans á nokkrum jólaplötum.

Stefán Karl lét sér ýmis samfélagsleg málefni varða og þegar hann opnaði umræðu um einelti fór af stað mikil umræða um málið og hann fór um landið með fyrirlestra í grunnskólum, í kjölfarið stofnaði hann samtökin Regnbogabörn en þau samtök störfuðu á árunum 2002-14 og létu sér málefnið varða. Fyrir það og framlag sitt til leiklistarinnar hlaut Stefán Karl fálkaorðuna.

Stefán Karl Stefánsson lést síðsumar 2018 eftir nokkurra ára baráttu við krabbamein en hann var þá á fertugasta og fjögurra aldursári.

Efni á plötum