Andlát – Stefán Karl Stefánsson (1975-2018)

Stefán Karl Stefánsson

Stefán Karl Stefánsson leikari er látinn eftir erfiða baráttu við krabbamein, rúmlega fjörutíu og þriggja ára gamall.

Stefán Karl fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1975. Hann lék fyrst á sviði með Leikfélagi Hafnarfjarðar á fjórtánda ári og síðan m.a. í Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins 1994, löngu áður en hann útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands (1999).

Hann lék ótal hlutverk á leiksviði, leikstýrði og fékkst einnig við handritagerð, og meðal nokkurra leikrita sem hann lék hlutverk í má nefna Cyrano, Litlu hryllingsbúðina, Með fulla vasa af grjóti, Gullna hliðið og Latabæ (byggt á hugmynd Magnúsar Scheving sem lék aðal hlutverkið) en síðast talda verkið kom honum rækilega á sjónarsviðið og í kjölfarið voru gerðir sjónvarpsþættir fyrir börn sem sýndir voru um allan heim við miklar vinsældir. Í kjölfar þeirra vinsælda fluttist Stefán Karl ásamt eiginkonu sinni, Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur og börnum, til Bandaríkjanna til að freista gæfunnar. Þar sló hann í gegn sem Trölli í jólasýningunni Þegar Trölli stal jólunum (The Grinch), söngleik sem settur var á svið fyrir jólin á árunum 2007-15, alls um sex hundruð sýningar.

Í Latabæjar-þáttunum (LazyTown) lék Stefán Karl eftirminnilega ódáminn Glanna Glæp (Robbie Rotten) og fór þá á kostum í því hlutverki. Hann söng þá fjölmörg lög sem komu út á nokkrum plötum í tengslum við leikritin og þættina, og nutu nokkur þeirra vinsælda meðal barna um allan heim. Alls voru gerðir um áttatíu þættir um Latabæ á árunum 2004-14.

Stefán Karl talsetti ennfremur og söng ýmis hlutverk í teiknimyndum, m.a. Disney myndum og margir þekkja lög eins og Kóngur klár og Hakuna matata (úr Konungi ljónanna), Í grænum sjó (úr Litlu hafmeyjunni) og Við eigum hvor annan að (úr Tommi og Jenni mála bæinn rauðan), í meðförum hans og annarra söngvara.

Þá lék Stefán Karl einnig mis stór hlutverk í kvikmyndum eins og Einkalíf (1995), Regínu (2001), Stellu í framboði (2002), Jóhannes (2009) og Harry og Heimir: Morð eru til alls fyrst (2014). Tónlistin lék stór hlutverk í sumum þeirra og þar kom hann nokkuð við sögu, t.a.m. í dans- og söngvamyndinni Regínu og með Greifunum í laginu/kvikmyndinni Jóhannesi.

Stefán Karl sem Glanni Glæpur

Stefán Karl var oft í hlutverki söngvarans á leiksviðinu en utan þess söng hann inn á nokkrar plötur. Hann sendi t.a.m. frá sér grínplötuna Í túrett og moll (2009), sem hann vann ásamt Gísla Rúnari Jónssyni og Veigari Margeirssyni þar sem þeir bjuggu og störfuðu í Bandaríkjunum. Sú plata fór reyndar nokkur fyrir ofan garð og neðan þar sem hann hafði lítil tök á að fylgja henni eftir, en hlaut hins vegar góða dóma.

Hann söng einnig lagið um Sigurjón digra ásamt hljómsveitinni Landi og sonum á plötu sem gefin var út til heiðurs Stuðmannakvikmyndinni Með allt á hreinu (2000), þá söng hann lög á plötum með Pöpum, Stuðmönnum og Áka & Starkaði, og söng hans má einnig heyra á jólaplötum, á plötunni Fólkið í blokkinni (með tónlist eftir Ólaf Hauk Símonarson en löngu síðar voru gerðir sjónvarpsþættir upp úr efninu), og á ljóðaplötunni Best að borða ljóð (sem hafði að geyma lög Jóhanns G. Jóhannssonar við ljóð Þórarins Eldjárn).

Stefán Karl lét sér ýmis samfélagsleg málefni varða og það vakti mikla athygli þegar hann opnaði umræðuna um einelti og fór með fyrirlestra um grunnskóla landsins, í kjölfarið stofnaði hann samtökin Regnbogabörn sem störfuðu á árunum 2002-14, og létu sér málefnið varða. Fyrir það og framlag sitt til leiklistarinnar hlaut hann fálkaorðuna fyrr á þessu ári.

Stefán Karl lætur eftir sig eiginkonu og fjögur börn.