Steinunn Bjarnadóttir (1923-94)

Steinka Bjarna

Steinunn Bjarnadóttir leikkona var litríkur persónuleiki sem átti stormasama ævi þar sem skiptust á skin og skúrir en hún var ríflega fimmtug þegar hún gleymd og grafin sló í gegn sem Stína stuð með Stuðmönnum í laginu Strax í dag.

Steinunn Bjarnadóttir eða Steinka Bjarna eins og hún var oft kölluð fæddist á Akranesi árið 1923 og ólst upp í sárri fátækt, hún var yngri systir söngkonunnar Hallbjargar Bjarnadóttur sem naut góðs af því að vera komið í fóstur um það leyti sem faðir þeirra lést af slysförum en Steinunn fluttist suður til Hafnarfjarðar með móður sinni og tvíburasystur Hallbjargar, Kristbjörgu. Steinunn var sí syngjandi sem barn og mun m.a. hafa sungið í Hjálpræðishernum á unglingsárum sínum, hún kom fram og söng einsöng í fyrsta sinn á Hótel Borg þegar hún var tólf ára gömul en þar tróð hún upp á tónleikum Hallbjargar sem var sex árum eldri og þá orðin þekkt söngkona. Þær systur komu þó nokkuð fram saman þegar þær urðu eldri, Hallbjörg var þá flutt erlendis en kom alloft heim til Íslands og hélt hér tónleika og var Steinunn þá iðulega auglýst sem systir Hallbjargar. Steinunn söng í stríðslok eitthvað með danshljómsveitum og m.a. á samkomum hjá SKT og SGT, s.s. með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar.

Steinunn á forsíðu Vikunnar

Hugur Steinunnar lá þó aldrei í átt að sönglistinni því hún hafði einsett sér að gerast leikkona, fyrst nam hún við leiklistarskóla Lárusar Pálssonar en síðan lá leið hennar fljótlega eftir stríð til Lundúna þar sem hún nam við konunglega leiklistarskólann og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn. Eftir námið hóf hún að ferðast með breskum leikhóp um Írland en fékk svo boð um að leika við Þjóðleikhúsið og var svo meðal leikenda í Íslandsklukkunni, fyrstu sýningu Þjóðleikhússins en það var vígt 1950. Í kjölfarið lék Steinunn næstu árin við Þjóðleikhúsið og einnig í Iðnó hjá Leikfélagi Reykjavíkur en samhliða nokkurri óreglu færði hún sig smám saman yfir í revíusýningar og þess konar skemmtanir á næstum árum. Hún skemmti töluvert mikið og við miklar vinsældir og haustið 1955 kom út tveggja laga plata með söng hennar (Aðeins þetta kvöld / Þú hvarfst á brott) við undirleik kvartetts Árna Ísleifssonar. Óreglan var þó farin að setja svip sinn á feril hennar og fljótlega á sjöunda áratugnum hvarf hún að nokkru leyti úr sviðsljósinu, var þá töluvert úti á landi, m.a. á Tálknafirði þar sem þáverandi sambýlismaður hennar lést af völdum voðaskots þar sem áfengi var haft um hönd. Eftir þann atburð flutti Steinunn til Bretlands, settist að í London og átti eftir að búa þar það sem eftir var ævinnar, þar giftist hún en áður hafði hún verið gift hér heima og átt tvo syni. Hún fékkst ekkert við leik- eða sönglist í kjölfar þess að hún fluttist til Bretlands, utan þess að hún var virk í Íslendingafélaginu í London og tróð stundum upp á þorrablótum og öðrum skemmtunum tengdum því félagi.

Steinunn var því flestum orðin gleymd og grafin þar sem hún bjó í London, þar stóð hús hennar ævinlega opið Íslendingum en margir námsmenn leigðu hjá henni og eiginmanni hennar. Fyrirsætan Anna Björnsdóttir var meðal þeirra en hún var um tíma í sambúð með Jakobi Frímanni Magnússyni sem þá var í London einnig og þegar sá gjörningur varð í Majestic stúdíóinu að platan Sumar á Sýrlandi var hljóðrituð þar snemma árs 1975 hugkvæmdist einhverjum að kalla til Steinunni þegar vantaði söngrödd í eitt laganna. Það varð úr að Steinunn söng lagið Strax í dag og um sumarið þegar platan kom út á Íslandi og hinir eiginlegu Stuðmenn urðu til, sló lagið í gegn (ásamt reyndar flestum lögum plötunnar) og varð feikivinsælt og nafn Steinunnar var dregið fram í sviðsljósið eftir að hafa verið í skugganum um áratuga skeið. Svo fór að Steinunn kom til Íslands með Stuðmönnum síðla sumars, túraði með sveitinni um landið og var ákaft fagnað af ballgestum en hún var almennt kölluð Stína stuð eftir karakternum í laginu. Hún dvaldi hér í nokkrar vikur og kom einnig fram í sjónvarpsþætti um sumarið þar sem hún söng gömul revíulög.

Steinunn Bjarnadóttir

Sumarið 1976 kom hún aftur heim til Íslands, dvaldi hér um nokkurra vikna hríð og söng þá með hljómsveitinni Pónik í nokkur skipti í Sigtúni við Austurvöll. Það var svo ári síðar að breiðskífa kom út með Steinunni undir titlinum Steinka Bjarna á útopnu, platan hafði að geyma fjórtán lög úr ýmsum áttum – nokkur þeirra voru revíutengd en einnig voru þarna tvö lög eftir Steinunni sjálfa auk þess sem hún samdi nokkra texta plötunnar. Platan var unnin að frumkvæði Jakobs Frímanns Stuðmanns og eitt laganna var reyndar Stuðmannalagið Honey will you marry me sem þarna hafði fengið íslenskan texta og hét nú Hunang, viltu giftast mér. Segja má að Stuðmenn hafi leikið á plötunni en sveitin er á plötuumslagi titluð J.M. sextettinn. Platan sem hafði verið hljóðrituð vorið 1977 í Hljóðrita hlaut fremur slaka dóma í Morgunblaðinu, Dagblaðinu, Þjóðviljanum og Tímanum, og sjálf var Steinunn ekki fyllilega ánægð með afraksturinn og sagði frá því síðar í viðtali að platan hefði verið unnin í allt of miklum flýti, og lét reyndar fylgja að hún hefði aldrei fengið krónu fyrir viðvikið en platan mun þó hafa selst þokkalega. Sjálf hafði Steinunn hug á að gefa út aðra plötu í samvinnu við breska tónlistarmenn og sagði hana í bígerð, af þeirri útgáfu varð þó aldrei.

Segja má að frægðarsól Steinku Bjarna um miðjan áttunda áratuginn hafi dofnað jafn hratt og hún kom fram á stjörnuhimininn en Steinunn var þó áfram virk í Íslendingasamfélaginu í London næstu árin, hún tók t.a.m. lagið með Stuðmönnum á þorrablóti í Lundúnum árið 1990.

Steinunn Bjarnadóttir lést um jólin 1994, á sjötugasta og öðru aldursári, og þar með lauk sögu þessarar merku leik- og söngkonu sem bæði upplifði hæðir og lægðir um ævi sína. Lög Steinunnar hafa komið út á fáeinum safnplötum í gegnum tíðina en hún er á góðri leið með að gleymast á nýjan leik, t.d. hefur plata hennar aldrei komið út á geisladisk og þ.a.l. heldur aldrei á tónlistarveitum, en hún hefur öðlast eins konar költsess hjá plötusöfnurum og tónlistaráhugafólki enda að verða sjaldgæfur dýrgripur.

Efni á plötum