Stereo (1967-72)

Hljómsveit sem kallaðist Stereo og var ýmist sögð vera kvintett, kvartett og tríó starfaði um nokkurra ára skeið á bítla- og blómaárunum 1967-72 en virðist þó hafa verið nokkuð á skjön við ríkjandi tónlistartísku því sveitin lék gömlu dansana og hefur því væntanlega sérhæft sig í dansleikjum ætluðum örlítið eldri dansleikjagestum.

Því miður liggja litlar upplýsingar um meðlimi og hljóðfæraskipan þessarar sveitar en hún starfaði mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu, lék töluvert á Skiphóli í Hafnarfirði og einnig í Sigtúni við Austurvöll en fór einnig stöku sinnum út á landsbyggðina.

Fyrir liggur að Sigmundur Lúðvíksson gítarleikari, Kolbeinn Ingólfsson trommuleikari og Haukur Sveinbjarnarson harmonikkuleikari skipuðu sveitina árið 1968 (sem tríó) en óskað er eftir frekari upplýsingum um þessa sveit.