S.O.S. [1] (1951-53)

Hljómsveit sem bar heitið S.O.S. (SOS) og gekk ýmist undir S.O.S. tríó eða kvartett heitinu (jafnvel Danshljómsveit S.O.S.) starfaði snemma á sjötta áratug síðustu aldar, á árunum 1951-53. Þessi sveit starfaði líkast til fyrir austan fjall og spilaði þar mest s.s. í Árnes- og Rangárvallasýslu en einnig á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum (1953) og reyndar eitthvað á höfuðborgarsvæðinu.

Upplýsingar um þessa sveit eru afar takmarkaðar, fyrir liggur að Haukur Sveinbjarnarson harmonikkuleikari var einn meðlima hennar en ekki er vitað um nöfn annara meðlima sveitarinnar.

Hljómsveitinni var bannað að auglýsa dansleiki sína í Ríkisútvarpinu þar sem erlendir sjómenn sem náðu útsendingum þess höfðu oft samband við útvarpið til að kanna hvort einhver hætta væri á ferðum þegar þeir heyrðu nafn sveitarinnar ítrekað endurtekið.