Afmælisbörn 23. ágúst 2022

Stefán P.

Afmælisbörnin eru fimm talsins á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Jón Elfar Hafsteinsson gítarleikari og kokkur er fimmtíu og fimm ára gamall í dag. Margir muna eftir honum síðhærðum með Stjórninni þegar Eitt lag enn tröllreið öllu hér á landi en Jón Elfar hefur einnig leikið með sveitum eins og Sigtryggi dyraverði, Singultus, Hjartagosunum, Dykk, Delizie Italiane, Dægurlagacombói Jóns Ólafssonar og Sikk svo dæmi séu tekin, auk þess að starfa sem upptökumaður.

Brynja Guðmundsdóttir túbuleikari á einnig afmæli í dag, meira að segja stórafmæli en hún er fertug á þessum degi. Brynja er ein Wonderbrass stúlkna sem léku og sungu með Björku á tónleikaferðum en hún hefur einnig leikið á fjölmörgum plötum. Brynja leikur á ýmis önnur hljóðfæri, einkum blásturshljóðfæri, og hefur nokkuð fengist við tónlistarkennslu.

Þá á Laufey Soffía Þórsdóttir söngkona og bassaleikari frá Selfossi tuttugu og átta ára afmæli á þessum degi. Laufey Soffía hefur starfað sem sólólistamaður en einnig með hljómsveitum eins og Kælunni miklu (sem hefur vakið töluverða athygli undanfarin ár), Madonna + Child, Ryba og World narcosis.

Stefán Pétur Þorbergsson eða bara Stefán P. fagnar sextíu og sex ára afmæli sínu í dag. Hann starfrækti hljómsveitir um árabil í eigin nafni sem léku á þúsundum dansleikja um land allt og gaf m.a.s. út plötur með þeim en hann hefur einnig starfað með hljómsveitum eins og Tríó ´72 og Danssporinu.

Og að síðustu er hér nefnd Kristín Birgitta Ágústsdóttir sem yfirleitt gengur undir nafninu Stina August en hún er fjörutíu og sex ára gömul í dag. Kristín hefur starfað með nokkrum hljómsveitum og tónlistarfólki undir nöfnunum AXXE, Björkologi, Nista og 23/8  en einnig gefið út nokkrar sólóplötur, m.a. plötu með lögum Jóhanns G. Jóhannssonar. Hún hefur mestmegnis starfað erlendis.

Vissir þú að Kítón – félag kvenna í tónlist var stofnað í ársbyrjun 2013 í því skyni að auka sýnileika kvenna í tónlist?