Afmælisbörn 22. ágúst 2022

Jón Kr. Ólafsson

Sex tónlistartengd afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Stórsöngvarinn frá Bíldudal, Jón Kr. (Kristján) Ólafsson er áttatíu og tveggja ára gamall í dag. Jón vakti fyrst landsathygli með bílddælsku hljómsveitinni Facon en áður hafði hann reyndar sungið með Kvartettnum og Kristjáni, og Hljómsveit Jóns Ástvaldar Hall. Eftir að sögu Facons lauk starfaði Jón um tíma í Reykjavík, og söng þá með Hljómsveit Jóns Sigurðssonar en flutti því næst aftur vestur og hefur búið þar síðan. Þar setti hann á fót tónlistarsafnið Melódíur minninganna en einnig kom út ævisaga Jóns Kr. með sama nafni. Þrjár plötur hafa komið út með söng Jóns Kr. auk þess sem söng hans er að finna á nokkrum öðrum safnplötum.

Einnig á Birgir Ísleifur Gunnarsson tónlistarmaður afmæli í dag en hann er fjörutíu og tveggja ára gamall. Hann hefur starfrækt og starfað í hljómsveitum eins og Motion boys sem vakti athygli fyrir nokkrum árum en einnig má nefna (Blús)Byltuna, Stóns og nú síðast Tungl.

Bassaleikarinn og útgefandinn Magnús Hákon Axelsson Kvaran er fjörutíu og níu ára gamall á þessum degi. Magnús lék á árum áður með sveitum eins og Dýrðinni, Gísla, Eiríki og Dr. Helga, Rasp, Sovkhoz, California nestbox, I am round, The Johnstones family orchestra og Tilbura, og stóð einnig í útgáfu er hann starfrækti útgáfufyrirtækið Veraldarkeröld seint á síðustu öld sem gaf m.a. út Strump-seríuna.

Þórarinn Eldjárn skáld er sjötíu og þriggja ára gamall í dag. Þórarinn er auðvitað þekkt ljóðskáld og smásagnahöfundur en hann á einnig fjölda texta og þýðinga sem komið hafa út á plötum, einkum og oft tengt börnum. Nokkrar plötur hafa m.a.s. beinlínis verið helgaðar textum hans og einnig hefur hann sjálfur gefið út plötuna Ljóð, hljóð og óhljóð til minningar um son sinn Kristján Eldjárn gítarleikara en á henni las hann ljóð við undirleik Kristjáns. Þá má ekki gleyma þætti Þórarins í Útvarp Matthildi sem gefið var út á plötu fyrir margt löngu.

Þá á rokksöngvarinn Eiður Örn Eiðsson stórafmæli á þessum degi en hann er sjötugur. Eiður söng hér á árum áður, einkum á áttunda og níunda áratugnum, með fjölda þekktra og óþekktra hljómsveita sem sumar hverjar gáfu út plötur, þeirra á meðal má hér nefna sveitir eins og Þrumuvagninn / Tívolí, C.o.T., Eik, Maestro, Rosie, Tatara, X-izt, Pops og Áhrif.

Og að endingu er hér nefndur Bergþór Morthens gítarleikari sem fagnar sextíu og þriggja ára afmæli. Bergþór hefur leikið á gítar í fjölda hljómsveita, svosem MX-21, Egó og GCD með Bubba bróður sínum en einnig sveitum eins og Ikarus, Óvæntri ánægju, Rask, Sahara, Óþekktri ánægju og Samsara.

Vissir þú að Hattur og Fattur komu fyrst fram á sjónarsviðið í Stundinni okkar?