Afmælisbörn 21. ágúst 2022

Hans Ploder

Glatkistan hefur upplýsingar um þrjú tónlistartengd afmælisbörn þennan daginn:

Theódór Júlíusson leikari er sjötíu og þriggja ára gamall í dag. Flestir tengja Theódór við leiklist og t.a.m. muna margir eftir honum í kvikmyndunum Mýrinni og Hrútum en hann hefur einnig sungið inn á margar plötur tengdar tónlist úr leikritum s.s. Evu Lúnu, Söngvaseið, Línu langsokk o.fl. Færri vita að á sínum tíma var Theódór söngvari hljómsveitarinnar Storma frá Siglufirði og trommuleikari Póla frá sama stað.

Erling Ólafsson baritónsöngvari hefði einnig átt afmæli á þessum degi. Erling fæddist 1910, hann var einn þriggja kunnra bræðra sem allir lögðu fyrir sig söng og tónlist, hinir voru Jónatan og Sigurður en frá þeim síðarnefnda eru kominn fjöldinn allur af þekktu tónlistarfólki. Erling nam söng hjá Sigurði Birkis og Einari Markan, söng með Karlakór Reykjavíkur og stundum einsöng með kórnum. Aukinheldur komu út tvær 78 snúninga plötur með söng Erlings, en einnig er söng hans að finna á plötu með Karlakór Reykjavíkur. Erling lést úr berklum árið 1934 aðeins tuttugu og fjögurra ára gamall, og við jarðarför hans var söngur hans leikinn á plötum en það var í fyrsta skipti á Íslandi sem slíkt var gert.

Og að síðustu er hér nefndur Hans Ploder (fæddur 1927) en hann var Austurríkismaður sem hingað kom um miðja síðustu öld og ílengdist hér. Hann var fagottleikari og lék hér með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hljómsveit Þjóðleikhússins og við ýmsar óperuuppfærslur, tónleika og fleira auk þess að leika inn á hljómplötur. Þá stjórnaði hann lengi Lúðrasveit Hafnarfjarðar og skólalúðrasveit á Seltjarnarnesi þar sem hann kenndi um tíma. Hans lést árið 2011.

Vissir þú að Skálmaldarbræðurnir Bibbi og Baldur, og Naglbítabræðurnir Villi og Kári voru saman í hljómsveit í Framhaldsskólanum á Laugum?