Stefán Sigurkarlsson (1930-2016)

Stefán Sigurkarlsson

Apótekaranum Stefáni Sigurkarlssyni var margt til lista lagt og ein náðargáfa hans var að geta samið tónlist, eftir hann liggur ein plata með frumsömdum lögum.

Stefán Guðjón Sigurkarlsson var fæddur í Reykjavík sumarið 1930. Hann nam lyfjafræði í Kaupmannahöfn og þegar hann kom heim frá því námi starfaði hann um tíma í Reykjavíkur áður en hann varð apótekari í Stykkishólmi og svo á Akranesi áður en hann opnaði Breiðholtsapótek á níunda áratugnum.

Snemma var ljóst að Stefáni var margt til lista lagt og á yngri árum sínum hafði hann tekjur af því að teikna skopmyndir af fólki á dansleikjum, þá kenndi hann myndlist í stundakennslu á þeim árum við MR og svo einnig í Stykkishólmi síðar. Hann var aukinheldur ljóðskáld og sendi frá sér nokkrar ljóðabækur en einnig smásögur og skáldsögur en hann helgaði sig ritstörfum þegar hann var kominn á eftirlaunaaldur. Stefán var einnig tónskáld og stöku sinnum heyrðust lög eftir hann leikin í útvarpi, plata kom svo út með nokkrum þeirra og bar heitið 14 sönglög eftir Stefán Sigurkarlsson en á henni koma fjölmargir söngvarar og tónlistarmenn og -konur við sögur, þ.á.m. Stefán sjálfur sem söngvari og píanóleikari en hann samdi einnig nokkur ljóðanna við lögin. Því miður er ekki að finna neinar upplýsingar um hvenær platan kom út, hvort það var fyrir eða eftir andlát Stefáns en hann lést síðla árs 2016, áttatíu og sex ára gamall.

Efni á plötum