Steinn Steinarr (1908-58)

Steinn Steinarr

Aðalsteinn Kristmundsson (Steinn Steinarr) er eitt þekktasta ljóðskáld íslenskrar bókmenntasögu en ljóð hans hafa komið út á fjölmörgum plötum í flutningi ýmissa tónlistarmanna og -kvenna.

Aðalsteinn fæddist vestur í Skjaldfannardal í Norður-Ísafjarðarsýslu haustið 1908 en fjölskylda hans var fátæk og svo fór að honum var ungum komið í fóstur í Dölunum þar sem hann ólst að mestu upp. Á unglingsárum sínum vann hann víða um vestanvert landið áður en hann kom til Reykjavíkur og um 1930 fer hann að vekja athygli sem eitt þeirra byltingarsinnuðu skálda sem kenndir voru við Rauða penna og fáeinum árum eftir það kom hans fyrsta ljóðabók út sem lituð var kommúnískum litum enda bar hún titilinn Rauður loginn brann. Fleiri bækur komu í kjölfarið og varð Tíminn og vatnið þeirra þekktust enda olli hún þáttaskilum í íslenskri ljóðagerð, telst meðal þeirra fyrstu í anda modernismans og varð mörgum ungskáldum hvatning til ljóðagerðar í þeirri stefnu. Steinn ferðaðist mikið á árunum eftir 1935 og töluvert erlendis en var reyndar hér heima meðan heimsstyrjöldin stóð yfir. Hann lést aðeins fimmtugur að aldri, vorið 1958 eftir baráttu við krabbamein.

Árið 1966 kom út lítil plata á vegum SG-hljómplatna sem bar titilinn Steinn Steinarr les eigin ljóð en hún hafði að geyma fimm ljóð lesin af skáldinu, sú útgáfa hlaut ekki mikla athygli en þar er á ferðinni eina platan í nafni Steins – flest ljóðanna voru endurútgefin á snældusafninu 8 þjóðskáld lesa úr verkum sínum (1988). Fleiri plötur hafa komið út þar sem heyra má upplestur á ljóðum hans, þar má nefna plöturnar Óskar Halldórsson les íslenzk ljóð (1979) og Andrés Björnsson les ljóð (1996).

Miklu fleiri hafa hins vegar tekið þann pól í hæðina að semja lög við ljóð hans en þau þykja mörg henta vel til lagasmíða, þannig eru jafnvel til mörg ólík sönglög af sama ljóðinu. Fyrstir til að gera slíkt voru líklega þeir Hörður Torfason, Árni Johnsen og Ragnar Bjarnason sem árið 1971 sendu allir frá sér frumsamin lög við ljóð Steins, fimm slík lög voru á plötu Árna – Milli lands og Eyja, tvö lög á plötu Harðar – Hörður Torfa syngur eigin lög en eitt á plötu Ragnars – Ragnar Bjarnason, lagið Barn sem fyrir löngu hefur orðið eitt af sígildum lögum söngvarans. Síðar á áttunda áratugnum bættist Hannes Jón Hannesson í þennan hóp með lag við ljóðið Hudson bay á plötu sinni (1972), hljómsveitin Þokkabót með Miðvikudagur (á plötunni Bætiflákar 1975) og svo Magnús Eiríksson en tvö lög hans við ljóð Steinars nutu vinsælda, Mannakorns-lögin Hudson bay (1976) og Ræfilskvæði (1977), þar með voru komnar þrjú lög við ljóðið Hudson bay og hafa þau lög komið út í ótal útgáfum ólíkra listamanna síðan, og hér komst einnig á blað fyrsta konan til að semja lag við ljóð Steins en lagið Verkamaður kom út á plötu Bergþóru Árnadóttur, Eintaki árið 1977.

Aðalsteinn á sínum yngri árum

Á níunda áratugnum má segja að orðið hafi sprenging í vinsældum ljóða Steins Steinarr og e.t.v. á Torfi Ólafsson stærstan þátt í því en árið 1980 kom úr plata þar sem Torfi fékk fjölmarga þekkta söngvara og tónlistarmenn til að leika lög sín við ljóð Steins, platan hét Kvöldvísa: Ljóð eftir Stein Steinarr. Þessi plata varð líklega öðru tónlistarfólki hvatning til að gera slíkt hið sama og í kjölfarið komu fjölmörg lög af svipuðu tagi, Guðmundur Árnason sendi frá sér smáskífuna Það vex eitt blóm fyrir vestan sama haust, Bergþóra Árnadóttir samdi síðan fjölmörg lög við ljóð hans sem komu út á plötunum Bergmál (1982), Afturhvarf  (sem hafði að geyma fimm lög við ljóð Steins, 1983) og Í seinna lagi (1987).

Fleiri tónlistarmenn hafa fylgt síðan og hér má nefna Rúnar Þór Pétursson, Svein M. Sveinsson, Tómas R. Einarsson, Hjálma, Kríu Brekkan, Önnu Halldórsdóttur og Þormar Ingimarsson en einnig hafa tónskáld sem ekki teljast til léttrar tónlistar sótt í smiðju Steins, hér má nefna Fjölni Stefánsson, Gunnar Reyni Sveinsson, Jón Ásgeirsson sem samdi kórverkið Tíminn og vatnið og Atla Heimi Sveinsson sem samdi balletóratoríuna Tímann og vatnið. Tvö þau síðast töldu hafa komið út á plötum með Kammerkór Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar (2008) og Kammersveitar Reykjavíkur undir stjórn Paul Zukovskys (2002). Þá má einnig nefna tónskáldið Sigvalda Snæ Kaldalóns en á plötu sem er helguð lögum hans (Skeljar: sönglög eftir Sigvalda Snæ Kaldalóns (2005)) má heyra Borgarkórinn syngja fjögur lög við ljóð Steins. Þannig hafa fjölmargir sótt í smiðju Steins og í raun mun fleiri en hér eru nefndir, þess má og geta að hljómsveitin Elín Helena sækir nafn sitt til samnefnds ljóðs eftir skáldið.

Steinn Steinarr

Þar sem Steinn Steinarr telst meðal mikilvirkustu og áhrifamestu ljóðskálda Íslands hefur hans verið minnst með margvíslegum hætti við ýmis tímamót, þannig kom út safnplata með lögum við ljóð hans haustið 1998 en þá hefði hann orðið níræður, á þeirri plötu sem bar titilinn Heimurinn og ég er bæði að finna nýjar útgáfur af þekktum lögum og einnig ný lög s.s. Passíusálmur nr. 51 sungið af Ellenu Kristjánsdóttur (e. Jón Ólafsson sem hélt utan um verkefnið) en það lag naut töluverðra vinsælda. Á plötunni er einnig af finna ljóðin fimm í flutningi Steins sem höfðu komið út á smáskífunni 1966. Aftur var var gefin út (tvöföld) safnplata árið 2008 en þá hefði skáldið orðið 100 ára, þá kom út platan Steinn Steinarr, Aldarminning: 30 lög ýmissa höfunda við ljóð Steins en hún hafði að geyma áður útgefin lög (og nýjar útgáfur) úr ýmsum áttum úr ranni Íslenskra tóna, sem þá átti útgáfuréttinn að flestu því sem komið hafði út á plötum á Íslandi. Um svipað leyti kom út á vegum útgáfufyrirtækisins Sagna, platan Ferð án fyrirheits þar sem ýmsir kunnir tónlistarmenn s.s. KK, Hildur Vala, Ellen Kristjánsdóttir og Svavar Knútur fluttu lög Jóns Ólafssonar og Sigurðar Bjólu við ljóð Steins en hún var eins og safnplatan gefin út í tilefni af aldarafmæli skáldsins. Og enn ein útgáfan leit dagsins ljós á aldarafmæli skáldsins þegar Kammerkór Langholtskirkju sendi frá sér plötuna Tíminn og vatnið en hún hafði að geyma fyrrnefnt kórverk eftir Jón Ásgeirsson.

Ljóst þykir að tónlistarfólk er hvergi nærri hætt að semja tónlist við ljóð Steins Steinarr og þar mun áfram bætast í hóp þeirra sem fyrir eru.

Efni á plötum