Stórsveit Húsavíkur (1988-93 / 1998-99)

Stórsveit Húsavíkur 1989

Stórsveit Húsavíkur starfaði í nokkur ár og varð nokkuð virk í þingeysku tónlistarlífi.

Sveitin var stofnuð snemma árs 1988 innan tónlistarskólans á Húsavík og starfaði framan af undir merkjum skólans undir nafninu Léttsveit Húsavíkur, því voru margir meðlimir sveitarinnar fremur ungir að árum og öðluðust heilmikla reynslu í þess konar spilamennsku með henni. Sveitin gekk líklega einnig undir nafninu Stórsveit Jazzfélagsins og Tónlistarskólans á Húsavík, fyrst um sinn.

Þeir Christopher Murphy og Sandy Miles munu hafa stjórnað sveitinni á upphafsárum hennar en Norman H. Dennis kom síðar til sögunnar, þá hafði nafni sveitarinnar verið breytt úr Léttsveit Húsavíkur í Stórsveit Húsavíkur en það var gert árið 1991 og í framhaldinu rann upp eins konar blómaskeið hennar þar sem sveitin spilaði alloft á opinberum vettvengi.

Stórsveit Húsavíkur

Undir hans stjórn starfaði sveitin til 1993 og virtist sem svo að dagar hennar væru þá taldir. Svo varð þó ekki því sveitin var endurreist haustið 1998 fyrir tilstuðlan tónlistarfélagsins Hrynjandi en sveitin starfaði þá um veturinn undir stjórn Lázlo Csenek og skipuðu hana um þrettán manns en mestur fjöldi hennar hafði áður verið um tveir tugir meðlima. Þetta voru þó ekkert annað en dauðateygjur því svo virðist sem sveitin hafi ekki starfað lengur en fram á vorið.