Afmælisbörn 28. desember 2022

Elly Vilhjálms

Glatkistan hefur í fórum sínum upplýsingar um fjölda tónlistartengdra afmælisbarna á þessum degi:

Ingvi Steinn Sigtryggsson tónlistarmaður frá Keflavík er sextíu og níu ára gamall í dag. Hann gaf út litla plötu 1973 sem hafði að geyma Flakkarasönginn, sem naut nokkurra vinsælda. Ingvi Steinn lék með ýmsum hljómsveitum á áttunda áratugnum, og má hér nefna sveitir eins og Ábót, Freeport, Deildarbungubræður, Bóluhjálma, Sheriff, Dínamít, Júbó og Júdas.

Stefán (Gunnar) Jökulsson trommuleikari er sjötíu og þriggja ára gamall í dag en hann kom við sögu nokkurra hljómsveita hér á árum áður. Hæst þeirra ber líklega hljómsveitin Orion sem gaf út fjögurra laga plötu með söngkonunni Sigrúnu Harðardóttur í fararbroddi en einnig má nefna sveitir eins og Adam og Spangólín.

Þá má nefna Færeyinginn Jógvan Hansen sem hefur búið hér á landi og starfað um árabil en hann er fjörutíu og fjögurra ára gamall í dag. Hann vakti fyrst athygli hér er hann sigraði X-faktor keppni Stöðvar 2 árið 2007 en hann hefur síðan tekið þátt í undankeppnum Eurovision hér á landi, gefið út sóló- og aðrar plötur í félagi við Friðrik Ómar og fleiri, auk þess að starfa með fjöldanum öllum af íslensku tónlistarfólki við hvers kyns verkefni.

Elly Vilhjálms söngkona (f. 1935) hefði ennfremur átt afmæli á þessum degi en hún lést 1995. Elly (Henný Eldey Vilhjálmsdóttir) var af Suðurnesjunum og var snemma uppgötvuð sem söngkona, hún söng með ýmsum hljómsveitum þess tíma, lengst af með KK-sextett, Orion kvintett og Hljómsveit Svavars Gests, en Svavar varð þriðji eiginmaður hennar. Elly söng sig fljótlega inn í hjörtu landsmanna og samstarf systkinanna, Ellyjar og Vilhjálms Vilhjálmssonar er löngu orðið sígilt. Fjölmargar plötur komu út með söngkonunni á sínum tíma en hún dró sig í hlé snemma, allt of snemma segja flestir, en hafði við ævilok komið aftur fram á sjónarsviðið.

Og að síðustu er hér nefndur Hallfreður Örn Eiríksson þjóðsagna- og rímnasafnari (1932-2005). Hallfreður er án nokkurs vafa einn öflugasti safnari íslenskra þjóðsagna og rímna og yfir þúsund klukkustundir af efni mun vera varðveitt á segulböndum á Árnastofnun, sem hann safnaði á ferðum sínum um landið. Hann sendi frá sér kassettuna Frá liðinni tíð árið 1984 og árið 2003 kom út í tilefni af sjötugs afmælis hans platan Hlýði menn fræði mínu.

Vissir þú að Ég sá mömmu kyssa jólasvein kom út í fyrsta sinn á plötu Stúlknakórs Gagnfræðaskólans á Selfossi fyrir jólin 1968?