
Ingvi Steinn
Það hefur ekki farið mikið fyrir söngvaranum og hljómborðsleikaranum Ingva Steini Sigtryggssyni frá Keflavík hin síðari ár en á áttunda áratug liðinnar aldar kom hann við í ýmsum hljómsveitum á suðvesturhorninu.
Ingvi Steinn (oft ranglega nefndur Yngvi Steinn) lék með hljómsveitum á borð við Ábót, Freeport, Deildarbungubræðrum, Bóluhjálmum, Sheriff, Dínamít, Júbó og Júdas (sem hann var reyndar ekki fastur meðlimur í), hann samdi einnig tónlist sjálfur og komu út lög eftir hann m.a. á plötum Júdasar.
Sjálfur gaf hann út tveggja laga plötu á vegum Kristal Músík, þar léku með honum meðlimir Change og Brimklóar og var einkum keyrt á lagið Flakkarasöngurinn, sem Ingvi Steinn samdi sjálfur. Fæstir muna eftir því lagi í dag, sem þó naut nokkurra vinsælda, en lagið kemur þó fyrir í frægri syrpu Upplyftingar frá árinu 1982, Í sumarskapi. Hitt lagið var eftir Magnús og Jóhann. Platan fékk ágæta dóma í Tímanum og Vísi.
Önnur tveggja laga plata með Ingva Steini var tekin upp í London 1974, hann átti sjálfur annað laganna en hitt var Bítlalagið Let it be. Hljómsveitin Change lék með honum á plötunni en platan kom aldrei út af einhverjum ástæðum.
Ingvi Steinn kom oft fram einn, lék á píanó og söng, en hann hafði lítillega lært á fiðlu og píanó, hann lék þó á fleiri hljóðfæri og greip í þau ef þurfti.
1976 fluttist Ingvi Steinn til Svíþjóðar þar sem hann starfrækti ásamt fleiri Íslendingum hljómsveitina Lava. Þar bjó hann um tíma en eftir að hann kom aftur heim til Íslands hefur hann lítið verið í sviðsljósinu, hann hefur þó eitthvað leikið á píanóið, t.d. með kórasöng. Söng hans er einnig að finna á plötu Jarðlinganna, Ljóslifandi, frá 1982. Auk þess er píanóleik hans að finna á plötu Söngflokks Eiríks Árna, Söngvar um ástina, frá 1976.
Ingvi Steinn átti ennfremur lagið Ástarfundur sem lenti í öðru sæti Söngvakeppni Sjónvarpsins 1981 (forvera hinnar eiginlegu Söngvakeppni Sjónvarpsins) í flutningi Pálma Gunnarssonar, það kom síðan út á plötu Pálma, Í leit að lífsgæðum.