Styrming (1989-91)

Styrming 1989

Hljómsveitin Styrming frá Sauðárkróki starfaði um eins og hálfs árs skeið í kringum 1990 og vakti nokkra athygli, ekki endilega vegna tónlistarinnar en tvö lög komu út með sveitinni á safnplötu – heldur fremur vegna þess að innan hennar var lagahöfundurinn Hörður G. Ólafsson sem um svipað leyti öðlaðist alþjóða athygli fyrir Eurovision lagið sitt Eitt lag enn sem hafnaði í fjórða sæti keppninnar í Zagreb í Júgóslavíu í meðförum hljómsveitarinnar Stjórnarinnar.

Styrming var stofnuð á Sauðárkróki haustið 1989 upp úr tveimur hljómsveitum, annars vegar Herramönnum en þaðan komu þeir Kristján Gíslason söngvari og hljómborðsleikari og Karl Jónsson trommuleikari, og hins vegar úr hljómsveit Geirmundar Valtýssonar en þeir Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson gítarleikari og Hörður G. Ólafsson bassaleikari höfðu starfað með þeirri sveit – reyndar nokkru áður. Sveitin hafði raunar verið stofnuð sérstaklega fyrir einn dansleik nyrðra og hafði Ómar Bjarnason gítarleikari verið í upphaflegri útgáfu hennar en Kristján tekið við af honum þegar ákveðið var að halda áfram með bandið.

Styrming fór fljótlega að leika á dansleikjum á Sauðárkróki og nágrenni og vakti ekki mikla athygli utan heimabyggðarinnar fyrr en eftir áramótin 1989-90 þegar ljóst var að Hörður bassaleikari átti tvö lög í undankeppni Eurovision keppninnar og athyglin var öll á honum þegar kom í ljós að lag hans, Eitt lag enn hafði sigrað undankeppnina í flutningi Sigríðar Beinteinsdóttur og Grétars Örvarssonar.

Styrming

Sveitin nýtti sér athyglina að sjálfsögðu, setti lagið á ballprógrammið og hóf nú einnig að leika á dansleikjum syðra. Eitt lag enn hafnaði svo í fjórða sæti lokakeppni Eurovision í Júgóslavíu um vorið 1990 og þá hafði Styrming tryggt sér tvö frumsamin lög á safnplötunni Hitt og þetta aðallega hitt alla leið sem kom út um sumarið. Það voru lögin Aðeins þú og Góðan dag (sveifla í anda Eitt lag enn) en bæði lögin fengu nokkra útvarpsspilun og sveitin nýtti sér þær vinsældir með mikilli spilamennsku um sumarið, bæði á sveitaböllum og hátíðum eins og Landsmóti UMFÍ (ásamt fleiri sveitum) og í Bjarkalundi um verslunarmannahelgina. Þess má geta að Hörður átti þrjú vinsæl lög á plötu Stjórnarinnar um sumarið en það er önnur saga.

Styrming spilaði nokkuð á dansleikjum um haustið en í upphafi árs 1991 hafði sveitin tekið upp gamla nafnið Herramenn (sem hafði verið nokkuð þekkt áður) og starfaði lengi undir því nafni, þar voru þeir Kristján, Karl og Hörður en Svavar Sigurðsson gítarleikari og Birkir Guðmundsson voru einnig í þessari útgáfu Herramanna og höfðu að öllum líkindum komið inn í hana nokkru fyrir nafnabreytinguna.