Djasskvartettinn Styttri var settur saman haustið 1987 af ungum djasstónlistarmönnum og einum reynslubolta, og spilaði á nokkrum uppákomum næsta árið einkum tengdum djassklúbbnum Heita pottinum í Duus húsi en kvartettinn fór einnig norður og spilaði á Húsavík. Nafn sveitarinnar, Styttri, var skírskotun í bandaríska saxófónleikarann Wayne Shorter.
Það voru ungliðarnir Hilmar Jensson gítarleikari, Kjartan Valdemarsson píanóleikari og Matthías M.D. Hemstock trommuleikari sem allir voru um tvítugt, sem skipuðu Styttri ásamt Tómasi R. Einarssyni bassaleikari sem var nokkuð eldri, einnig mun Jón Elfar Hafsteinsson hafa leikið með sveitinni í einhver skipti – þá væntanlega til að leysa Hilmar af. Þá kom danski saxófónleikarinn Uffe Markussen fram með þeim félögum í eitt skipti.