Súellen (1983-)

Súellen

Hljómsveitin Súellen er án nokkurs vafa þekktasta sveit sem komið hefur frá Norðfirði en tónlistarlíf var æði blómlegt þar í bæ á níunda áratug síðustu aldar. Sveitin var ein af fjölmörgum fulltrúum landsbyggðarinnar sem gerðu garðinn frægan um og eftir miðjan níunda áratuginn, hún var þó ekki eiginleg gleðipoppsveit í anda Greifanna, Stuðkompanísins eða Skriðjökla en fetaði þó sveitaballaleiðina líkt og svo margar landsbyggðarsveitir.

Eins og segir í upphafi var tónlistarlífið blómlegt í Neskaupstað og mun kvikmyndin Rokk í Reykjavík ekki hafa átt lítinn þátt í þeirri vakningu en víða voru hljómsveitir stofnaðar í bænum í kjölfar vinsælda myndarinnar. Súellen var stofnuð upp úr þeirri grósku snemma árs 1983 og mun hafa verið meira í anda pönks og nýbylgjurokks í byrjun en varð poppaðri með tímanum. Nafn sveitarinnar, Súellen kom úr hinum vinsælu Dallas þáttum sem allir Íslendingar þekktu á þessum tíma en persónan Sue Ellen var eiginkona J.R. Ewing olíukóngs, alræmds drullusokks í þáttunum og skyldi engan undra þótt umrædd Sue Ellen deyfði sig með áfengi heilu þáttaraðirnar enda er hennar fyrst og fremst minnst fyrir drykkjuskapinn.

Meðlimir sveitarinnar voru ungir að árum í byrjun, aðeins þrettán til fjórtán ára gamlir og mannabreytingar voru tíðar fyrstu árin, ekki liggur alveg fyrir hverjir skipuðu hana í upphafi en Steinar Gunnarsson bassaleikari og Guðmundur Rafnkell Gíslason söngvari voru þó áreiðanlega meðal þeirra en þeir hafa alla tíð verið meðlimir sveitarinnar. Árni Víðir Alfreðsson var fyrsti trommuleikari sveitarinnar en einkum komu margir gítarleikarar við sögu hennar framan af, hér er giskað á að Jón Benjamín Einarsson hafi verið þeirra fyrstur.

Sveitin varð sextett um tíma, Steinar, Guðmundur og Jón Benjamín voru áfram liðsmenn hennar og Þorsteinn Norðfjörð Lindbergsson gítarleikari og Ragnar Lundberg [hljómborðsleikari?] bættust í hópinn auk trommuleikarans Jóhanns Geirs Árnasonar en hugsanlega var Magnús Bjarkason trommuleikari á einhverjum tímapunkti í sveitinni þarna. Ingvar Jónsson Lundberg hljómborðsleikari kom inn í sveitina í stað Ragnars og næst urðu þær breytingar á Súellen að Þorsteinn og Jón Benjamín yfirgáfu sviðið en Ármann Einarsson kom inn sem gítarleikari. Sveitinni hélst fremur illa á gítarleikurum og þeir Kristófer Máni Hraundal, Guðmundur Höskuldsson og Tómas Tómasson áttu eftir að leika með sveitinni sem slíkir áður en hún fór að vekja athygli. Einnig hefur Guðmundur Loft [?] verið nefndur sem meðlimur sveitarinnar á einhverjum tímapunkti en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um hann.

Fljótlega eftir að Súellen var stofnuð hóf hún að leika á tónleikum og dansleikjum, þar flutti hún m.a. frumsamið efni og reyndar fór sveitin til Reykjavíkur í Stúdíó Mjöt vorið 1984 þar sem afraksturinn – fjögur lög, var gefinn út á kassettu í litlu upplagi undir nafninu Zom aldrig standzer. Þar bar helst til tíðinda að nafnarnir Magnús Þór Sigmundsson og Magnús Guðmundsson (söngvari Þeysara) sungu bakraddir á henni, tvö laganna komu svo síðar út sem „leynilög“ á safnplötu sveitarinnar, Ferð án enda en hún kom út 2003.

Súellen vorið 1984

Súellen starfaði eðli málsins samkvæmt mestmegnis á heimaslóðum fyrir austan s.s. í Egilsbúð á Norðfirði, Valaskjálf á Egilsstöðum og víðar en þegar þeir félagar höfðu aldur til fóru þeir að leika víðar, einkum yfir sumartímann og um verslunarmannahelgina 1985 var sveitin meðal þátttökusveita í hljómsveitakeppninni í Atlavík þar sem hún hafnaði í öðru sæti á eftir Skriðjöklum en þriðja sætið vermdi Special treatment (síðar Greifarnir).

Súellen starfaði ekki alveg samfleytt á árunum 1986 til 88 enda voru meðlimir sveitarinnar þá búsettir bæði fyrir austan og á höfuðborgarsvæðinu, flestir þeirra starfræktu þá fyrir austan aðra sveit sem bar nafnið Fiff sem lék nokkuð á dansleikjum eystra.

En árið 1986 lét Súellen æ meira að sér kveða og þá um sumarið voru þeir félagar nokkuð í samstarfi við Norðfirðinginn Bjarna Tryggva sem þá gaf út plötu en Steinar bassaleikari og Ingvar hljómborðsleikari aðstoðuðu hann ásamt öðrum við að fylgja plötunni eftir. Það sama ár hljóðritaði sveitin fleiri lög (sem hugsanlega voru gefin út á kassettu í litlu upplagi eins og tveimur árum fyrr) og í kjölfarið fóru menn fyrir alvöru að huga að metnaðarfyllri útgáfu, félagi þeirra Pjetur St. Arason vildi taka þátt í ævintýrinu og úr varð að útgáfufyrirtækið Pjesta var stofnað í því skyni að gefa út plötu. Þeir félagar voru einnig studdir af Netagerð Friðriks Vilhjálmssonar þar sem meirihluti sveitarinnar var við störf ásamt Pjetri en fleiri fyrirtæki í þorpinu lögðu einnig hönd á plóginn til að styrkja verkefnið.

Fjögur lög voru í kjölfarið hljóðrituð í Stúdíó Sýrlandi og hljóðveri Skriðjökla á Akureyri og komu þau út á tólf tommu smáskífu um sumarið 1987 og var samnefnd sveitinni. Markmið sveitarinnar var að koma einu laganna, Símon á topp vinsældalista Rásar 2 sem þá naut mikillar hylli – og það tókst því lagið náði toppsætinu og sat þar um verslunarmannahelgina, með aðstoð Norðfirðinga sem voru duglegir að hringja í símakosningu Rásar 2. Þar með var athygli landans náð, sveitin var komin á poppkortið og margir sungu um Símon sem er lasinn / með gólftusku um hálsinn á útihátíðum verslunarmannahelgarinnar, og kannski sérstaklega í Atlavík þar sem sveitin lék ásamt fleirum fyrir dansi. Í kjölfarið var fjárfest í hljómsveitarbíl sem hópurinn ferðaðist um á.

Súellen 1990

Auk venjulegs dansleikjahalds lék Súellen einnig á tónleikum til að kynna plötuna og fylgja henni eftir, þannig lék sveitin t.d. á útitónleikum á Lækjartorgi um sumarið en einnig um haustið á stórtónleikum ásamt fleirum í Reiðhöllinni í Víðidal sem þá var nýkomin til sögunnar. Sveitina mátti einnig sjá í sjónvarpsþættinum Rokkarnir geta ekki þagnað þar sem hún lék frumsamið efni.

Tómas Tómasson hafði verið gítarleikari Súellenar á plötunni sem kom út 1987 en gítarleikaraskipti urðu í sveitinni þegar Bjarni Halldór Kristjánsson tók við hljóðfærinu og þar með var loks komin föst skipan á þá stöðu, aðrir liðsmenn sveitarinnar voru þá Steinar bassaleikari, Guðmundur söngvari, Ingvar hljómborðsleikari og Jóhann trommuleikari. Þannig skipuð keyrði Súellen á ballmarkaðinn um sumarið 1988 og varð þokkalega ágengt, sveitin var þá í Atlavík um verslunarmannahelgina og hélt svo áfram spilamennsku um haustið enda hún þá orðin starfandi á heilsárs grundvelli og munu þeir félagar hafa sinnt spilamennsku eingöngu um nokkurra ára skeið í framhaldinu. Og þá var nauðsynlegt að hafa vinsæl lög á takteinum, sveitin tryggði sér pláss á safnplötunni Frostlög fyrir jólin 1988 og þar birtist smellurinn Elísa sem naut töluverðra vinsælda um veturinn. Næsta sumar átti Súellen svo lag á sumarsafnplötunni Bandalög – Leyndarmál sem rétt eins og Elísa naut hylli og tryggði sveitinni þokkalegt sveitaballasumar, sveitin var ekki beinlínis á pari við Greifana, Bítlavinafélagið eða Sálina hans Jóns míns sem þarna var að koma sterk inn en nartaði í hælana á þeim allra vinsælustu.

Næstu árin á eftir voru með svipuðum hætti, sumarið 1990 sendu þeir félagar loksins frá sér sína fyrstu breiðskífu, Í örmum nætur en um var að ræða tíu laga plötu sem Skífan gaf út. Þar var m.a. að finna safnplötulögin tvö auk annarra laga en ekkert nógu sterkt til að keppa við vinsælustu lög sumarsins, Stjórnin hafði þá sent frá sér plötuna Eitt lag enn í kjölfar fjórða sætisins í Eurovision í Júgóslavíu og Súellen þurfti aukinheldur að keppa við Sálina, Nýdanska og Todmobile sem allar nutu feikimikilla vinsælda á þessum tíma. Sem dæmi um stöðu sveitarinnar mætti nefna að þegar Stjórnin, sem var húshljómsveit á Hótel Íslandi, fór í sumartúr sinn um landið leysti Súellen hana af á meðan. Sveitin lék þó auðvitað mjög víða einnig og m.a. á Sumarhátíð UÍA, í Húnaveri um verslunarmannahelgina og í Rokkskógaátakinu svokallaða.

Platan Í örmum nætur sem hafði verið tekin upp af Ásgeiri Jónssyni og Tómasi M. Tómassyni í Sýrlandi og víðar, fékk ágæta dóma í Þjóðviljanum en vakti þó kannski helst athygli fyrir plötuumslagið, ekki þó fyrir afturhluta á konu sem virtist ber að neðan heldur fyrir hamar og sigð í stað kommu yfir ú-inu í nafni sveitarinnar. Það hefði ekki átt að koma á óvart frá hljómsveit ættaðri frá „Litlu Moskvu“ sem Neskaupstaður var stundum kallaður en það fór fyrir brjóstið á einhverjum og sveitin tók upp á því síðar að skreyta sig með bandaríska fánanum á hljómsveitarmyndum til mótvægis við þetta.

Súellen

Við tók safnplötutímabil þar sem Súellen sendi frá sér lög á sumarsafnplötum og túraði um landið með ballprógram blandað frumsömdum slögurum og standördum úr ýmsum áttum og tímum. Sumarið 1991 kom lagið Kona út á safnplötunni Bandalög 4 en það lag hlýtur að teljast meðal allra vinsælustu laga sveitarinnar og heyrist jafnvel enn leikin á útvarpsstöðvunum. Það sumar léku þeir félagar í Atlavík um verslunarmannahelgina en þar hafði þá ekki verið haldin útihátíð um skeið, sveitin lék auðvitað víða um landið og spilaði stundum á Gauki á Stöng við góðan orðstír. Meðlimaskipan á þessum árum orðin nokkuð föst í skorðum sem fyrr segir en heimildir segja þó að Örn Hjálmarsson gítarleikari hafi leyst af gítarleikarastöðuna um tíma.

Sumarið 1992 var með svipuðum hætti, lagið Ferð án enda kom út á Bandalögum 5 og naut vinsælda eins og mörg fyrri laga og sveitin fékk sinn sess á stórtónleikunum Bíórokk sem efnt var til í Laugardalshöll sem hluti af kvikmyndinni Stuttu frakki, Súellen birtist reyndar ekki í myndinni sjálfri en innan sveitarinnar varð til sá einkabrandari að statíf Ingvars hljómborðsleikara hefðu verið fulltrúi sveitarinnar í myndinni en þau sjást þar í mynd eftir að hann hafði ítrekað frestað að sækja þau.

Næsta ár, 1993 voru lög sveitarinnar tvö á safnplötunni Bandalög 6: algjört skronster, Þessi nótt og Svo blind, en þau fengu fremur litla athygli – fyrrnefnda lagið þó sýnu meiri. Sveitin spilaði sem fyrr heilmikið um sumarið en að því loknu fór mun minna fyrir henni og sumarið 1994 var Súellen lítið á ferðinni, menn höfðu þá væntanlega fengið sig nokkuð sadda eftir nokkuð sleitulitla spilamennsku árin á undan enda höfðu þeir félagar sinnt tónlistinni eingöngu um nokkurra ára skeið og bjuggu aukinheldur á sínum hvorum landshlutanum. Og þannig hvarf Súellen af sjónarsviðinu um tíma án þess þó að hún væri beinlínis hætt störfum, og liðsmenn sveitarinnar sneru sér að öðrum verkefnum.

Súellen við Southfork

Árið 1997 bundu menn vonir við að hægt væri að hóa Súellen saman til að hljóðrita lag fyrir safnplötuna Í laufskjóli greina en hún var gefin út í tilefni af afmælishátíð Egilsstaða-kaupstaðar, af því varð ekki en lífsmark varð þó með sveitinni það árið, sem lék á dansleik á Norðfirði þar sem Friðrik Júlíusson (Spoon o.fl.) leysti Jóhann af á trommusettinu. Og þannig var staðan næstu árin, að Súellen birtist árlega til að leika á vel völdum dansleikjum, annars vegar á heimaslóðum fyrir austan eða á Austfirðingaböllum á höfuðborgarsvæðinu.

Árið 2000 bárust fregnir þess efnis að sveitin væri að hljóðrita nýtt efni og það efni ásamt eldri lögum kom svo út á ferilsafnplötunni Ferð án enda sem þeir Súellen-liðar gáfu út sjálfir. Á henni voru þrjú ný lög, Í nótt, Hjálp og Svart silki en síðast talda lagið sló í gegn og sýndi að sveitin átti enn erindi til landsmanna. Það sama lag kom einnig út á sumarsafnplötunni Halló, halló, halló en sveitin fylgdi nýju plötunni eftir með tónleikahaldi, m.a. útgáfutónleikum í Egilsbúð – þess má geta að sagan segir að þeir félagar hafi í tilefni útgáfunnar boðið til landsins bandarísku leikkonunni Lindu Gray (þá er lék Sue Ellen forðum í Dallas-þáttunum) en hún hafi afþakkað gott boð þar sem hún var vant við látin.

Góðar viðtökur Svarts silkis og safnplötunnar Ferðar án enda varð Súellen hvatning til að blása lífi í glæðurnar og þónokkur spilamennska tók við í kjölfarið, og hafi það ekki verið nóg tóku þeir félagar þá ákvörðun að halda til Dallas í Texas til að hljóðrita nýtt efni, sem þeir gerðu sumarið 2004 og heimsóttu þá í leiðinni Southfork búgarðinn þar sem Dallas þættirnir voru að hluta til unnir. Þeir settu sig enn í samband við Lindu Gray en hún hafði ekki tök á að hitta hljómsveitina frekar en árið á undan. Eftir því sem heimildir herma voru hljóðrituð að minnsta kosti tvö lög í Ameríkuferðinni en til stóð að þau kæmu út á smáskífu um haustið, frá því var horfið en lögin Þriðja hjólið og Dúett í Dallas voru sett á Tónlist.is, síðarnefnda lagið kom svo út á safnplötunni Svona er sumarið 2005 en í því naut sveitin aðstoðar bandarískrar söngkonu og stálgítarleikara. Myndatökumaður fór með sveitinni til Dallas og myndaði sveitina og til stóð að heimildamynd um ferðina liti dagsins ljós um haustið en vinnsla hennar tafðist og reyndar liggur ekki fyrir hvort hún var einhverju sinni kláruð. Á næstu árum spilaði sveitin fáeinum sinnum á ári, m.a. á Neistaflugi og svo austfirskum samkomum en fór reyndar einnig út fyrir landsteinana, lék í Færeyjum haustið 2006. Þannig var Súellen „starfandi“ til 2007 en á því ári gaf Guðmundur söngvari út sína fyrstu sólóplötu og minna fór fyrir spilamennsku sveitarinnar í bili.

Súellen 2018

Árið 2011 hófst enn eitt skeiðið í sögu Súellenar þegar sveitin birtist enn og aftur eftir nokkurt hlé, þá var settur á svið Súellen-kabarettinn sem sýndur var tvívegis í Egilsbúð í Neskaupstað og í kjölfarið komst skriður á sveitina með spilatörn þótt ekki væri hún í líkingu við það sem áður hafði tíðkast hjá henni enda var ballmarkaðurinn nú gjörbreyttur frá því á tíunda áratugnum. Drengirnir höfðu gaman að því að gera tónlist og sumarið 2012 fóru þeir félagar í sumarbústað á norðanverðu landinu og hljóðrituðu efni sem að megninu til kom út á breiðskífunni Fram til fortíðar árið 2013 en þar var einnig að finna lög frá Bandaríkjaferðinni 2004. Þótt plata færi ekki beinlínis hátt var hún þó Plata vikunnar á Rás 2 og hlaut í kjölfarið góða dóma í Popplandi, ekkert laganna skaraði þó fram úr hvað vinsældir eða útvarpsspilun varðaði en þess má geta að lokalag plötunnar var instrumental-útgáfa af Austfjarðaþokunni sem margir þekkja helst í meðförum harmonikkuleikara. Síðan þá hefur Súellen birst stöku sinnum við hátíðleg tækifæri, leikið á nokkrum dansleikjum og tónleikum m.a. á Bræðslunni en sveitin hefur með tímanum orðið að eins konar klúbbi miðaldra karlmanna sem hittast reglulega og galdra fram tónlist – sem er frábært. Guðmundur söngvari sveitarinnar hefur jafnframt sent frá sér nokkrar sólóplötur á síðustu árum og Steinar bassaleikari gaf svo út plötu ásamt trúbadornum Bjarna Tryggva, sem einmitt hafði verið í samstarfi við sveitina á upphafsárum hennar og samið texta fyrir hana.

Óljóst er hvort eða hvert leið sveitarinnar liggur í framtíðinni en Ingvar hljómborðsleikari kvaddi þessa jarðvist á árinu 2022 og þegar þetta er ritað ætlaði sveitin að koma fram á minningartónleikum um hann. Það eitt og sér gæti bent til að sveitin gæti komið til með að starfa áfram en framtíð Súellenar er að öðru leyti óljós.

Efni á plötum